16.05.1957
Neðri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

148. mál, eyðing refa og minka

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Mig langar til þess að segja aðeins örfá orð um þetta atriði, sem sérstaklega hefur verið rætt hér af síðustu hv. ræðumönnum, eitrunina. Það fer ekkert á milli mála hjá þeim, sem eru kunnugir í sveitum landsins, að refurinn er þar stórkostlegur vágestur og sums staðar hrein plága. Það er sannast að segja þannig, að þótt sums staðar séu stundaðar grenjaleitir og grenjavinnsla af miklu kappi og menn eyði í þetta miklum tíma á hverju einasta vori og þótt þreyttar séu líka viðureignir við hlaupatófur, þá sýnir það sig, að ekki er hægt að ráða við þennan varg.

Sumir halda, að þetta sé handvömm ein, að svo mikið er um tófur, að það sé fyrir það, að menn séu hættir að fara í grenjaleitir og hættir að liggja á grenjum. Þetta er, a.m.k. það sem ég þekki til, hinn mesti misskilningur. Menn stunda þetta af kappi, en þó að menn stundi af kappi, þá hrekkur það ekki til. Á hinn bóginn hefur það víða verið svo, að menn hafa verið daufir við að eitra, jafnvel þó að það sé skylt eftir lögum. Það er nefnilega skylt eftir gildandi lögum að eitra fyrir tófur. Þetta er illa farið, því að það sýnir sig, að það er ekki nóg að þreyta grenjaleitirnar og það er ekki nóg að fást við hlaupatófurnar, það verður að koma fleira til.

Ég hef gert mér mikið far um að spyrjast fyrir um þetta mál hjá þeim, sem ég tel þekkja vel til, vegna þess, hvernig ástatt er sums staðar í þessu efni. Og ég er fyrir mitt leyti alveg sannfærður um, að það á að herða verulega á eitruninni. Það þarf á öllu þessu að halda, eitrun, grenjaleit og grenjavinnslu og eltingaleik við hlaupadýr. Það þarf á öllu þessu að halda til þess að hægt sé að gera sér von um að halda tófunni sæmilega niðri. Mér finnst þess vegna rangt að gera nokkuð, sem dregur úr þeirri skyldu, sem nú er á því að eitra fyrir tófur, og ég hafði satt að segja gert mér vonir um, þegar þetta frv. kom fram, að nú væri ætlunin að fá duglegan mann til þess að ganga eftir því, að menn eitruðu fyrir tófur, þar sem sérstök þörf væri á, og færu eftir lögunum að því leyti.

Þó að ég sé þessarar skoðunar um nauðsyn eitrunar, þá get ég fallizt á, að sú breyting standi, sem hv. Ed. hefur gert á málinu, að veiðistjóri geti ákveðið, að ekki skuli eitrað á vissum svæðum, ef ekki telst þörf á eða hætta er á, að eitrið geti útrýmt sjaldgæfum fuglategundum. Ég get alveg fallizt á, að þetta standi. En hitt finnst mér of langt gengið, að ekki skuli skylt að eitra nema veiðistjórinn fyrirskipi. Það finnst mér allt of langt gengið, og sannast að segja hafði ég gert ráð fyrir því, að eitt aðalverkefni þessa manns ætti að vera að ganga eftir því, að allar hugsanlegar og verjandi aðferðir væru jafnan notaðar til þess að útrýma vargnum.

Ég vildi því fyrir mitt leyti taka undir með þeim, sem stinga upp á, að þessi brtt. landbn. verði tekin til athugunar á nýjan leik, og ég mun greiða atkvæði á móti henni, ef hún kemur til atkvæða.

Það er ekki nokkur minnsti vafi í mínum huga um það, að eitrun hefur stórfellda þýðingu til þess að útrýma tófu. Mér dettur ekki í hug að efast um vitnisburði þeirra manna, sem ég hef leitað til um þetta og eru þaulreyndir og þrautreyndir um þessi efni. Þegar um það tvennt er að velja að búa undir þeim ósköpum, sem sumir búa að þessu leyti við og ég veit að margir gera sér ekki grein fyrir, hve hræðileg eru, eða hitt að ganga í að eitra fyrir tófuna, þá er ég ekki í minnsta vafa um, að þá á að nota eitrunina til viðbótar öðrum úrræðum.