23.05.1957
Neðri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

148. mál, eyðing refa og minka

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef ekki tekið þátt í umr. um þetta mál fyrr, en það er vegna þeirra brtt., sem nú eru komnar fram við þetta mál, sem ég kveð mér hljóðs nú.

Ég er í rauninni á móti því að beita eitrun, ef nokkurs annars er kostur. Ég hef séð mann deyja af þessu eitri, sem hér er notað, og það er satt að segja svo hryllilegur dauðdagi, að ég vil ekki einu sinni verða til þess, að rándýr verði að þola slíkan dauðdaga, ef nokkurs annars væri kostur. Hins vegar skilst mér það á þeim bændum, sem um þetta hafa rætt, að þeir sjái engin önnur ráð til að forða bústofni sínum, og ég sé mér því ekki fært að halda algerlega fast við, að ekki megi undir neinum kringumstæðum eitra. En mér finnst þær breytingar, sem gert er ráð fyrir að gera á þessu frv., vera satt að segja hálfvarhugaverðar. Þetta er svo hryllilegt eitur, sem þarna á að nota, stryknin, að þar verður fyllstu varúðar að gæta, svo að ekki stafi af því hætta. Ég vil því leyfa mér að bera fram brtt. við þessa brtt. n., sem er skrifleg og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 1. tölulið. Í stað „haldgóða þekkingu“ komi: sérþekkingu.“

Það er um þekkingu eða skilyrði, sem sá maður þarf að fullnægja, sem á að vera veiðistjóri. „Við 3. tölulið. Á eftir orðunum „er veiðistjóri telur líklegust til árangurs hverju sinni“ komi: Óheimilt er að eitra fugla, en að öðru leyti skal við eitrun fylgja leiðbeiningum veiðistjóra.“

Það hafa sjálfsagt flestir hv. alþm. séð núna nýlega auglýsingu, sem hefur verið í Lögbirtingablaðinu, um eitrun gegn svartbaki. Þar eru mjög ákveðin fyrirmæli um það, að sá svartbakur, sem drepast kann af þessu eitri, verði ekki látinn liggja úti á víðavangi, og yfirleitt tekinn mjög vari fyrir því, að svo vel sé um þessa eitrun búið eða frá henni gengið, að sem minnst hætta stafi af. Og ég tel, að minna megi ekki vera, ef við förum að lögleiða þessa eitrun, heldur en við girðum fyrir það eins og frekast er unnt, að hætta stafi af henni.