23.05.1957
Neðri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

148. mál, eyðing refa og minka

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég vil þakka landbn. fyrir það, að hún hefur tekið til greina þær athugasemdir, sem ég hreyfði hér við 2. umr. þessa máls við þær till., sem þá lágu fyrir frá n. Hún hefur tekið upp hér í 1. lið sinna brtt. ákvæði um það, að Búnaðarfélag Íslands, sem á að hafa þessi mál með höndum, geri till. um það til landbrh., hvaða maður verði skipaður í þetta veiðistjórastarf, og er það að sjálfsögðu mikilsverður liður í þessu máli að því er snertir samstarf á milli Búnaðarfélags Íslands og þess væntanlega veiðistjóra. Enn fremur hefur n. breytt ákvæðum 11. gr. í það horf, að nú eru það fyrirmæli Búnaðarfélags Íslands, sem ákveða um eitrun og annað, sem að því lýtur. — Í brtt.,. eins og hún lá fyrir við 2. umr., var þetta lagt á vald veiðistjóra. Hér hefur þetta verið fært til betra horfs að mínum dómi. Stjórn Búnaðarfélags Íslands lítur að sjálfsögðu á þetta mál með viðsýni, þannig að eigi sé gengið lengra í eitrun en brýn nauðsyn krefur. Hins vegar verður að sjálfsögðu að taka fullt tillit til þess, að eins og sakir standa nú er þetta langsamlega sterkasti liðurinn í að halda bitvarginum í skefjum. Og máske mætti með þeim hætti og öðrum ráðum, sem við búum yfir, vinna nokkuð á og e.t.v. komast nokkuð langt í því að útrýma þessum bitvargi, sem fjárstofninum stafar víða mikil hætta af.

Þá hefur og n. fellt niður ákvæðin um það, að banna skuli að eitra fugla. Þetta er líka mikilsvert atriði, af því að það ber öllum veiðimönnum saman um, sem ég hef talað við um þetta, og ég átti nýlega samræður við mjög æfða veiðimenn uppi í Borgarfirði um þetta mál, að eitrunin einmitt með því að eitra fugla væri langsamlega áhrifaríkust, með því væri bægt að dreifa eitruninni miklu meir og betur en hægt er með öðrum hætti. Það er nú algengast að eitra rjúpur og mjög gert, og þá eru þær auðkenndar með því að höggva af þeim annan vænginn, og það er hægt að skilja þannig við þær, þar sem þessi eitrun er lögð, að rjúpurnar fjúki ekki eða berist ekki neitt til vegna vinda. Það er þess vegna mjög mikið atriði, hagkvæmisatriði og öryggisatriði, að það sé leyft nú, svo sem verið hefur, að nota fugla til eitrunar. Er engan veginn ástæða til að ætla, að af því geti stafað önnur eða meiri hætta en af því að eitra kjöt af dýrum, hrossum eða sauðfé.

Hv. þm. Ísaf. hefur nú borið hér fram brtt., sem gengur í þá átt að taka upp aftur inn í þessa brtt. ákvæði, sem voru í brtt. n. við 2. umr. um að banna að eitra fugla. Ég held, að það sé á algerum misskilningi byggt hjá honum að ætla, að af þessu geti stafað nokkru meiri hætta en af annarri eitrun. Það ber þeim saman um, þeim þrautreyndu veiðimönnum um þetta efni uppi í Borgarfirði, sem ég hef talað við og hafa áratugareynslu í Því að fást við eyðingu þessa bitvargs.

Hv. þm. lýsti því hér, að hann hefði horft upp á ægilegar kvalir, sem maður, sem orðið hefði fyrir þessari eitrun, hefði tekið út, og má ég ekki neitt gera lítið úr því, að e.t.v. er þessi dauði nokkuð kvalafullur. Það ber þó mönnum ekki saman um að því er snertir þessi rándýr, því að ýmsir veiðimenn, sem eru þessu kunnugir, segja, að dýrin deyi mjög fljótt og skyndilega, eftir að þau hafi étið eitrið. En ég vil þá spyrja hv. þm. Ísaf.: Hefur hann nokkurn tíma séð kind, sem tófan hefur brutt alveg upp að augum og heldur þó lífi um nokkurt skeið? Það er, held ég, einhver sú allra átakanlegasta sjón, sem fyrir getur borið, að sjá sauðfé þannig útleikið, en það er mjög algengt fyrirbrigði, þar sem bitvargur er mikill. Og því miður er það nú svo, sem sennilega stafar af því, að nokkru var meira slegið slöku við um refavinnsluna og þá einkum með eitrunina á þeim árum, sem fjárskiptin stóðu yfir, að nú hefur á sumum svæðum, a.m.k. hér sunnanlands, þar sem fjárskiptin fóru fram, bitvargurinn aukizt ákaflega mikið og hefur þegar á þessu vori gert hér sums staðar allmikinn usla, og bændum stendur mjög stuggur af því og allar horfur á, að nú í vor verði bændur viða fyrir allmiklu og verulegu tjóni af þessum völdum, bæði á unglömbum og líka á fullorðnu fé.

Ég vil þess vegna fyrir mitt leyti, um leið og ég þakka landbn. fyrir þær lagfæringar, sem hún hefur gert á brtt. sínum frá því, sem þær lágu hér fyrir við 2. umr., vænta þess, að þær geti fengið hér samþykki í hv. deild.