22.05.1957
Neðri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

174. mál, menningarsjóður og menntamálaráð

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt í hv. Ed. og hlaut samhljóða samþykki þeirrar deildar án nokkurra breytinga.

Gildandi lög um menntamálaráð og menningarsjóð eru nú nær 30 ára gömul. Sá tekjustofn, sem menningarsjóði þar var tryggður, hefur á undanförnum árum veitt honum 500–600 þús. kr. árlegar tekjur. Þessi tekjustofn hefur undanfarin ár reynzt allsendis ónógur, til þess að þeim verkefnum væri sinnt, sem menningarsjóði var í hinum upphaflegu lögum ætlað að sinna. Þá hefur menningarsjóður og ekki getað tekið að sér ný hlutverk, sem þó verður að teljast fullkomlega eðlilegt og tímabært með tilliti til þess, hve langur tími er liðinn, síðan menningarsjóði upphaflega var markað hlutverk, eða fyrir tæpum 30 árum. Það verður því að teljast fullkomlega tímabært að taka lög þessi til endurskoðunar í ljósi fenginnar reynslu og breyttra tíma og þá ekki hvað sízt að tryggja menningarsjóði auknar tekjur frá því, sem verið hefur s.l. þrjá áratugi, til þess bæði að geta sinnt rækilegar þeim verkefnum, sem honum voru í upphafi falin, og enn fremur til þess að geta tekizt á hendur ný verkefni.

Samkvæmt gildandi lögum er hlutverk menningarsjóðs þríþætt: bókaútgáfa, kaup á listaverkum í listasafn ríkisins og stuðningur við náttúrufræðirannsóknir. Tveim fyrstnefndu verkefnunum hefur ekki verið unnt að sinna, svo sem nauðsynlegt hefði verið, sökum fjárskorts. Hins vegar hefur svo viljað til, að undanfarin ár a.m.k. hefur nokkurt fé verið afgangs af þeim hluta sjóðsins, sem ætlaður er til styrktar náttúrufræðirannsóknum, en samkv. gildandi lögum skal tekjum sjóðsins skipt í þrjá jafna hluta: til bókaútgáfu, til kaupa á listaverkum og til náttúrufræðirannsókna.

Ég skal ekki um það fjölyrða, hvert gagn gæti orðið að því að efla bókaútgáfu menningarsjóðs. Ég skal ekki heldur um það fjölyrða, hversu nytsamt það væri að geta aukið kaup á listaverkum í listasafn ríkisins. Ég ætla, að nytsemi hvors tveggja sé svo almennt viðurkennd hér á hinu háa Alþ., að ekki þurfi að orðlengja þessu til rökstuðnings. Hins vegar ætla ég að leyfa mér að fara fáeinum orðum um þau nýju verkefni, sem ég tel æskilegt að menningarsjóður geti tekið að sinna og gert er ráð fyrir í þessu frv. að hann muni sinna og ætlunin er að gera honum kleift að sinna með þeirri tekjuöflun, sem gert er ráð fyrir í öðru frv., sem enn er til afgreiðslu í hv. Ed., þ.e. frv. til breytinga á gildandi l. um skemmtanaskatt. Þar er gert ráð fyrir nýrri tekjuöflun, sem ætlazt er til að muni afla um 2 millj. kr. tekna, er ganga skuli í menningarsjóð.

Hin nýju verkefni, sem sjóðnum er ætlað að annast, ef till. um hina nýju tekjuöflun ná fram að ganga, eru fyrst og fremst þessi:

Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að menningarsjóður styrki rannsóknir á sviði raunvísinda og hugvísinda með föstu árlegu framlagi í vísindasjóð, en fyrir hv. Ed. liggur einnig frv. um stofnun slíks sjóðs, og er þar gert ráð fyrir, að sá sjóður fái árlega a. m. k. 800 þús. kr. framlag úr menningarsjóði.

Þá er ætlunin, að vísindasjóður taki að mestu leyti að sér núverandi hlutverk náttúrufræðideildar menningarsjóðs, sem haft hefur til umráða allt að 200 þús. kr. á ári undanfarin ár. Þó er í frv. gert ráð fyrir því, að menningarsjóður styrki eftir sem áður ýmsar athuganir á náttúru landsins, og eru þar einkum hafðar í huga athuganir leikmanna, sem ekki verður búizt við að vísindasjóður muni styrkja sérstaklega til slíkra rannsókna. Hugmyndin er m.ö.o. sú, að vísindasjóður styrki einkum og sér í lagi fræðimenn til náttúrufræðiathugunar, en menningarsjóður hafi eftir sem áður heimild til þess að styðja slíkar athuganir, sem gerðar eru af hálfu leikmanna.

Þá er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að menningarsjóður geti styrkt íslenzkar menningar- og fræðslukvikmyndir, annaðhvort látið gera þær sjálfur eða stuðlað að gerð þeirra af hálfu Íslendinga og stutt á annan hátt innlenda kvikmyndagerð. Íslenzk kvikmyndagerð er þegar komin af fyrsta bernskuskeiði. Þar hafa ýmsir Íslendingar unnið merkilegt og mjög þarft brautryðjendaverk, sem æskilegt væri að geta stutt meira en kleift hefur verið og betur en kleift hefur verið.

Meðal annarra nútíma menningarþjóða hefur gerð menningarkvikmynda fyrir löngu rutt sér til rúms, en hér á landi hefur ríkisvaldið fram að þessu lítt sem ekki gefið gaum að þeim óþrjótandi verkefnum, sem bíða íslenzkrar kvikmyndagerðar. Í gildandi fjárl. er að vísu nokkur fjárveiting til þess að láta gera kvikmyndir af kunnum Íslendingum, og sömuleiðis hefur menningarsjóður þegar hafið undirbúning að því, að gerðar verði stuttar kvikmyndir um íslenzka listamenn. Hefur einstaklingur t.d. gert kvikmynd um Ásgrím Jónsson listmálara, og fleiri slíkar kvikmyndir munu vera í undirbúningi. Yrði mun hægara um vik í þessum efnum og framkvæmdir meiri en ella, ef skilyrði væru til þess að láta hér í té nokkurn opinberan stuðning. Er kominn tími til, að nútíma kvikmyndatækni verði tekin í þjónustu íslenzkra menningar- og fræðslumála í ríkari mæli en átt hefur sér stað undanfarið. Einnig ber til þess nauðsyn að gera kvikmyndir um atvinnuvegi og þjóðhætti ýmsa, sem gætu orðið æskulýð landsins til hagnýtrar fræðslu um þessi efni og mundu varðveita komandi kynslóðum fjölmargt úr íslenzkum menningararfi, sem hætt er við að glataðist, ef ekki væri notuð sú tækni, sem kvikmyndagerðin nú ræður yfir.

Þá er og gert ráð fyrir því, að menningarsjóður hafi skilyrði til aukins stuðnings við íslenzka tónlist og íslenzka myndlist, bæði tónlistar- og myndlistarfræðsluna og sjálfa listsköpunina. Í því sambandi má nefna, að æskilegt væri, að gerðar væru góðar eftirlíkingar málverka í eigu listasafns ríkisins, en tækni á því sviði er orðin frábær. Væri eðlilegt að láta slíkar eftirlíkingar í té skólum og öðrum opinberum stofnunum. Einnig mætti, ef slík söfn eftirlíkinga yrðu gerð, efna til umferðarsýninga í skólum og á samkomustöðum á slíkum myndum í stað þess að þurfa að flytja málverkin sjálf, og mundu listamenn og listaverk þannig komast með nokkrum hætti í nánari snertingu við almenning í landinu en nú er unnt að láta gerast.

Þá er og gert ráð fyrir því, að menningarsjóður með binum auknu fjárráðum sínum auki stuðning sinn við iðkun þjóðlegra fræða, svo sem á sviði ættfræði, staðfræði, örnefnasöfnunar, almennrar menningarsögu o.s.frv. Athugun menntmrn. hefur leitt í ljós, að til þess að menningarsjóður geti staðið undir nauðsynlegri eflingu á hinum fyrri verkefnum sínum og kostað þessi nýju verkefni, þurfi tekjur hans að aukast um a. m. k. 2 millj. kr., en það er einmitt sú fjárhæð, sem miðað er við að afla í því frv. um breyt. á gildandi lögum um skemmtanaskatt, sem ég vék að áðan.

Í desembermánuði s.l. fól menntmrn. 5 mönnum að endurskoða gildandi lög um menningarsjóð og menntamálaráð, þeim Friðfinni Ólafssyni forstjóra, er var formaður nefndarinnar, Gils Guðmundssyni skrifstofustjóra, Hauk Snorrasyni ritstjóra, Jakob Benediktssyni magister og Vilhjálmi Þ. Gíslasyni útvarpsstjóra. Nefndin varð sammála um till. sínar til ráðuneytisins, og þetta frv. er í öllum aðalatriðum samhljóða till. n. Þó ber þess að geta, að n. gerði ráð fyrir því, að í stað einstakra styrkja, sem nú eru veittir í fjárl. til nafngreindra vísindamanna, fræðimanna og listamanna, kæmi ein fjárhæð, sem rynni í menningarsjóð, en menntamálaráð úthlutaði síðan. Er þessi hugmynd til athugunar, þegar fjárl. verða undirbúin næst, síðar á þessu ári.

Að síðustu skal ég svo fara örfáum orðum um helztu breytingar og nýmæli laganna og rekja þar einstakar greinar.

Samkvæmt 2. gr. skal menntamálaráð gera árlega áætlun um tekjur og gjöld menningarsjóðs, en ekki gert ráð fyrir því, að tekjum sjóðsins sé skipt fyrir fram í ákveðnum hlutföllum, svo sem nú er gert samkvæmt gildandi lögum.

Í 3. gr. er fjallað um þá nýju tekjuöflunarleið sem ég hef þegar getið um, auk þess sem gert er ráð fyrir, að núverandi tekjustofn haldist óbreyttur.

Í 4. gr. er um það fjallað, hvernig ætlazt er til, að tekjum menningarsjóðs skuli varið, og gat ég um það áðan, að með þessu frv. eru verkefni sjóðsins aukin allverulega, auk þess sem svo er ráð fyrir gert, að unnt verði að sinna bæði bókaútgáfu og listaverkakaupum betur en hægt hefur verið hingað til. Alþjóð er kunnugt um hina merku og umfangsmiklu bókaútgáfu sjóðsins, en hvað listaverkakaupunum viðvíkur er rétt að benda alveg sérstaklega á það, að verð á hlutgengum íslenzkum listaverkum hefur á undanförnum hálfum öðrum áratug hækkað svo mjög, að reynzt hefur algerlega ókleift að festa kaup á nema litlum hluta þeirra listaverka, sem æskilegt og jafnvel sjálfsagt er að komist í eigu listasafns ríkisins, og á þetta ekki hvað sízt við um verk hinna viðurkenndustu íslenzku listamanna.

Þá er þess að geta, að á meðan Eimskipafélag Íslands naut skattfrelsis, veitti það árlega um 80 ókeypis farmiða milli Íslands og annarra landa, og úthlutaði menntamálaráð þessum farmiðum. Þetta féll niður, um leið og Eimskipafélagið hætti að njóta skattfrelsisins. Í frv. er gert ráð fyrir því, að menntamálaráð geti varið nokkru af fé menningarsjóðs í því skyni að úthluta ókeypis farmiðum milli Íslands og annarra landa. Reynslan varð sú, að þessir ókeypis farmiðar komu mörgum efnalitlum námsmanni, fræðimanni og listamanni að miklu gagni og gerðu þeim kleifar kynningarferðir til annarra landa, sem þeim að öðrum kosti hefðu verið algerlega ókleifar og þeir hefðu farið fullkomlega á mis við. Er því talið rétt, að þessi starfsemi verði tekin upp aftur, og þess þá að vænta, að hún komi að ekki minna gagni en hún gerði áður.

Í 5. gr. frv. er það nýmæli, að verja skuli a.m.k. 5% af árlegum heildartekjum menningarsjóðs í sérstakan sjóð, er nefnist stofndeild menningarsjóðs, og er menntamálaráði heimilt að fengnu samþykki ráðh. að verja fé stofndeildar til kaupa á fasteignum, sem notaðar yrðu í þágu menningarmála, m.a. í þágu menntamálaráðs og menningarsjóðs sjálfs. Öll starfsemi sjóðsins og ráðsins fer nú fram í leiguhúsnæði á ýmsum stöðum í bænum, og háir það starfseminni að sjálfsögðu mjög verulega, en einkum bókaútgáfa sjóðsins krefst allmikils húsnæðis.

Þá er í 8. gr. frv. gert ráð fyrir því, að starf framkvæmdastjóra eða skrifstofustjóra menntamálaráðs og menningarsjóðs verði föst staða, er ráðh. veiti, en hingað til hefur menntamálaráð ráðið framkvæmdastjóra. Samkvæmt gildandi lögum er skrifstofukostnaður menntamálaráðs greiddur af skrifstofukostnaði stjórnarráðsins, en hér eru ákvæði um það felld niður, svo að afleiðingin yrði sú, að menningarsjóður yrði sjálfur að greiða skrifstofukostnað sinn, og virðist það ekki vera óeðlilegt með tilliti til þess tekjuauka, sem gert er ráð fyrir að hann fái.

Með þessu vona ég að ég hafi drepið á meginatriði þess frv., sem hér er um að ræða, og getið þeirra helztu nýjunga, sem í því felast. Að svo mæltu vil ég leyfa mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.