07.02.1957
Sameinað þing: 26. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

Varamenn taka þingsæti

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi í fyrsta lagi leyfa mér að bera fram þau tilmæli til hæstv. forseta í sambandi við þennan dagskrárlið, þar sem þar eru tvö mál óskyld, að það mál, sem snertir rannsókn kjörbréfs, sem kjörbréfanefnd öll hefur skilað samróma áliti um og lagt til, að kjörbréf Geirs Gunnarssonar verði tekið gilt, að það mál verði afgreitt nú við atkvgr. í þinginu. Um hitt málið, sem auðsjáanlega er ekki í neinu sambandi við þetta og kjörbréfanefnd er margklofin í og líklegt er að muni verða nokkurt deilumál hér í þinginu og jafnvel langt, sé umr. síðan annaðhvort haldið áfram eða frestað, eftir því sem hæstv. forseta eða þingheimi finnst rétt, en það mál, sem snertir rannsókn kjörbréfs, sé nú borið upp á eftir, þar sem ekki er að neinu leyti verið að ræða það og allir hv. kjörbréfanefndarmenn sammála um till. sína í því efni.

Svo er það mál, sem hér liggur fyrir og tveir hv. þm. úr kjörbréfanefnd þegar hafa gert till. um, þeir þm. Siglf. og N-Þ. Það er alveg rétt fyrir okkur, þegar við ræðum þessi mál, að gera okkur ljóst, að það er ekkert undarlegt, þó að oft sé nokkur vandi á ferðum í sambandi við þessi mál. Stjórnarskráin og kosningalögin hafa verið að taka stórfelldum breytingum á þessum síðustu áratugum, án þess að þess hafi alltaf verið gætt, að fullt samræmi væri á milli annars vegar anda og bókstafs stjórnarskrárinnar og ákvæða kosningalaganna. Við höfum rekið okkur á það, og við erum að reka okkur á það núna, og við eigum vafalaust eftir að reka okkur á það, að þarna komi fram vandræðamál, sem við verðum að reyna að útkljá í hvert skipti, eftir því sem okkur finnst vera í réttustu samræmi við stjórnarskrána og hennar tilgang, og gæta þess þó ætið um leið að brjóta ekki lög.

Tilefni til þess, að það mál, sem hér er um rætt viðvíkjandi varaþingmennsku í Reykjavík, er komið hér fyrir, er bréf yfirkjörstjórnar í Reykjavík, sem þegar hefur verið lesið, þar sem farið er fram á, að bið háa Alþ. taki ákvarðanir um það, hvort Eggert G. Þorsteinsson geti talizt löglega kosinn varaþingmaður fyrir Alþfl. fyrir yfirstandandi kjörtímabil.

Ég álít, að ákvarðanir um, hvort einn þm. sé löglega kosinn, þegar ekki er um að ræða mann, sem hefur kjörbréf frá yfirkjörstjórn, geti Alþ. aðeins tekið með lögum, svo fremi sem slík lög séu í samræmi við anda og tilgang stjórnarskrár.

Það er engum efa bundið, að það mundi stangast við kosningalög að gefa út kjörbréf til manns, sem ekki er varaþingmaður, eins og yfirkjörstjórn þá lítur á. Og hún getur ekki gefið út kjörbréf til manns, nema því aðeins að hún styðjist þar við lög. Og það er Alþingis að setja lög um öll slík efni.

Nú skulum við hins vegar aðgæta, hvernig fyrirmæli stjórnarskrárinnar eru í þessum efnum.

Það er skýrt ákveðið í stjórnarskránni, að flokkar skuli hafa varamenn jafnmarga og þeir hafa þingmenn. Ég álít fyrir mitt leyti, að lög, sem svipta flokk rétti til þess að hafa jafnmarga varamenn og þingmenn, séu í mótsetningu við anda og bókstaf stjórnarskrárinnar, sem fyrirskipa, að flokkarnir skuli hafa jafnmarga þingmenn; hins vegar séu ákvæði, sem nú eru í kosningalögunum um þetta, eftir a.m.k. þeirri túlkun, sem er til á þeim, í andstöðu við bókstaf stjórnarskrárinnar og anda.

Hv. 1. þm. Reykv. rakti hér mjög ýtarlega þau dæmi, sem hafa verið viðvíkjandi uppkosningum, og nefndi allmörg dæmi frá því fyrir 1934. Ég dreg sízt í efa, að það sé alveg rétt skilið, það sem hann þar flutti fram, sem sé um uppkosningu í því kjördæmi og í landskjörinu, sem hann þar nefndi.

En í þessu sambandi er eitt, sem verður að athuga. Hann nefnir öll sín dæmi frá því fyrir 1934. Þó að margt í orðalagi stjórnarskrárinnar í einstökum atriðum sé svipað, gerist ein höfuðbreyting við stjórnarskrárbreytinguna 1934. Það er sú breyting, að flokkum er veittur miklu meiri réttur en þeir áður höfðu í stjórnarskránni, þannig að það verður víss meginbreyting á stjórnarskránni í sambandi við stjórnarskrána, sem sett er 1934. Flokkum er gert hærra undir höfði en áður var, a.m.k. í vissum kjördæmum, þar sem kosið er hlutfallskosningum, eða í sambandi við landskjör. Þeim er gert hærra undir höfði. Það er dregið úr þeirri meginreglu, sem upphaflega var fyrst og fremst byggt á, um einmenningskjördæmi.

Í 31. gr. stjórnarskrárinnar segir:

„Deyi þm., kosinn í einmenningskjördæmi, eða fari frá á kjörtímanum, þá skal kjósa þingmann í hans stað fyrir það, sem eftir er kjörtímans.“

Það er ekki annað ákvæði um þetta, hvernig fara skuli, þegar þm. deyr eða fer frá, ekki önnur ákvörðun í stjórnarskránni en viðvíkjandi einmenningskjördæmunum.

Í kosningalögunum, í 135. gr., er gert ráð fyrir þrenns konar möguleikum til uppkosninga: Í fyrsta lagi þeim möguleika, að frambjóðandi í einmennings- eða tvímenningskjördæmi deyi innan viku fyrir kjördag. Í öðru lagi, að uppkosning verði nauðsynleg fyrir það, að kosning er úrskurðuð ógild. Eða í þriðja lagi, að þingmannssæti verður af öðrum ástæðum autt, áður en kjörtímabilið er á enda.

Þetta þriðja ákvæði í 135. gr. sýnist mér þannig, að það megi skilja það á tvennan hátt; það megi annars vegar túlka það, — og það skilst mér hv. 1. þm. Reykv. miða við, — það megi túlka það þannig, að þingmannssæti, einnig í hlutfallskosningakjördæmi, ef autt verður, þannig að einn þingmaður og einn varamaður falli frá, þá beri að kjósa upp um það eina sæti. En þetta þriðja atriði í 135. gr. sýnist mér líka mega túlka á þann hátt í sambandi við stjórnarskrána, 31. gr., að kjósa skuli í einmenningskjördæmum og ekki talað um annað en þetta skuli aðeins gilda í einmenningskjördæmunum. M.ö.o.: hér stöndum við frammi fyrir lagagrein, sem ég geng út frá að lögspekingar þingsins geti tvímælalaust túlkað mismunandi og haft mismunandi skoðanir á eftir því, að hve miklu leyti þeir álita að höfuðregla stjórnarskrárinnar hafi breytzt og hennar andi við stjórnarskrársetninguna 1934. Úr þessu, þegar slíkur ágreiningur getur verið um tilgang stjórnarskrár og um kosningalög, álít ég einvörðungu hægt að skera með einu móti, og það er með lagasetningu Alþingis, svo fremi slík lagasetning brjóti ekki í bága við stjórnarskrána.

Í stjórnarskránni segir, í 31. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Að öðru leyti fer um skipun jöfnunarþingsæta eftir kosningalögum.“

Og enn fremur segir í 33. gr.:

„Kosningalög setja að öðru leyti nánari reglur um alþingiskosningar.“

Meira að segja í sjálfri stjórnarskránni er vísað til þess við ákveðin fyrirmæli, að kjördæmi skuli vera eins og nú eru í kosningalögum. Mér sýnist því ótvírætt, að það sé Alþingis undir slíkum kringumstæðum að útkljá með kosningalögum, ef þau brjóta ekki í bága við stjórnarskrá og menn greinir á um, hvernig skilja beri. Ég álít það alveg gersamlega óhugsandi að ætla t.d. að útkljá eitthvað þess háttar með einhverri yfirlýsingu á Alþingi.

Ég vil taka dæmi. Þetta mál er ekki spursmál endilega aðeins í sambandi við það sérstaka mál, sem hér liggur fyrir, heldur almennt spursmál. Við skulum taka það sem dæmi: Við höfðum t.d. flokk á síðasta þingi, eins og Þjóðvarnarflokkinn, þar sem var einn kjördæmakjörinn þingmaður, einn varamaður hans, einn landskjörinn þm. flokksins, og — eftir þeim skilningi, sem hingað til hefur ríkt á lögunum — einn varamaður hans. Nú skulum við bara segja, sem alltaf gæti komið fyrir í einhverjum tilfellum, að jafnvel fjórir menn forfallist, þrír til fjórir menn. Mundi það vera í samræmi við anda stjórnarskrár, að slíkur flokkur þá raunverulega félli út úr þinginu, hafandi verið kosinn í almennum kosningum og fengið sinn rétt samkv. því? Mundi það vera í samræmi við tilgang stjórnarskrárinnar, eins og hún hefur verið frá 1934, með þeim breytingum, sem síðan hafa verið gerðar? Ég álít ekki. Og ég álít, að þegar við ræðum þessi mál, verðum við að ræða þetta almennt, hvað rétt sé, vegna þess að það, sem við viljum gera í svona máli hér á Alþ., er ekki spurning um eitt einstakt atriði og hvernig það skuli afgreiða, heldur um, hvað skuli vera lög í landinn.

Þá er viðvíkjandi yfirkjörstjórn og hennar ábyrgð og hennar sjálfstæði og hennar valdi. Yfirkjörstjórn og kjörstjórnir, eins og landskjörstjórnin líka, hafa mjög mikið vald eftir kosningalögunum. Og það er þeirra verkefni að gefa út kjörbréf. Kjörstjórnir einar geta gefið út kjörbréf. Það hefur aldrei komið fyrir, að Alþingi hafi svo að segja ákveðið að gefa út kjörbréf eða taka mann inn á Alþingi, án þess að hann hafi kjörbréf. Ég álít, að Alþingi geti ekki gert slíkt, megi ekki gera slíkt og geti alls ekki fyrirskipað neinni kjörstjórn, yfirkjörstjórn né landskjörstjórn, hvað hún skuli gera í slíkum efnum. Slíkt væri að mínu áliti alger valdbeiting af hálfu Alþingis.

Ég álit þess vegna algerlega óhugsandi og algert brot að ætla að samþ. till. eins og þá, sem þeir hv. þm. Siglf. og hv. þm. N-Þ. hafa flutt hér.

Það, sem Alþingi ber að gera í sambandi við, hvort þm. séu löglega kosnir, stendur í 46. gr. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi sker sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir, svo og úr því, hvort þingmaður hefur misst kjörgengi.“

Það er þetta tvennt, sem heyrir undir okkar úrskurð, og það er hvorugt af því, sem hér liggur fyrir.

Ef Alþingi vill sinna þeim tilmælum, sem yfirkjörstjórn Rvíkur hefur til þess beint, álít ég, að það sé aðeins ein leið til þess og það er lagasetning, svo fremi Alþingi álíti hana ekki brjóta í bága við stjórnarskrá. Og þegar slík lög eru samþykkt, getur auðvitað hver kjörstjórn og í þessu tilfelli yfirkjörstjórn Rvíkur gefið út kjörbréf samkv. lögum í landinu.

Ef lög eru óskýr, getur Alþingi sett skýr lög. Ef það er gat í lög, getur Alþingi bætt úr því. Það er löggjafinn, sem ekki þarf að halda á neinum einstökum skýringum í einstökum atriðum. Það verður aðeins að gæta að því, að þess lög séu ekki í andstöðu við stjórnarskrána. Stjórnarskráin tekur það mjög greinilega fram, að það skuli ákveðast nánar um þetta í kosningalögum, en ekki með neinum yfirlýsingum, einstökum samþykktum eða neinu öðru slíku.

Viðvíkjandi því sérstaka tilfelli, sem hér liggur fyrir, verð ég að segja, að mér finnst þetta tilfelli bera allundarlega og leiðinlega að. Hér hefur — þess hefur verið minnzt nú nýlega í sambandi við 50 ára afmæli Kvenréttindafélags Íslands — verið mikill áhugi fyrir því af hálfu kvenna að fá fulltrúa á Alþingi, og sá varaþm. Alþfl., sem hér afsalar sér þingmennsku og áður hefur setið hér á þingi, hefur staðið framarlega í þeirri baráttu. Og ég á satt að segja ákaflega bágt með að skilja það gagnvart kvenþjóðinni, hvernig á því stendur, að hún skuli afsala sér þingmennsku.

Hins vegar má kannske segja, að þetta sé mál, sem ekki kemur okkur við. En það verð ég að segja, að hálfilla kann ég við það orðalag, sem haft er á því bréfi, sem frk. Rannveig Þorsteinsdóttir skrifaði yfirkjörstjórn Rvíkur. Hún segist afsala sér sæti sem varaþingmaður Reykv. Þegar þm. segja af sér, þá segja þeir af sér þingmennsku. Þegar varaþingmenn segja af sér, þá segja þeir af sér varaþingmennsku. Mér finnst þetta: að „afsala sér sæti“ — minna nokkuð mikið á fasteignasölu í sambandi við þetta og engu líkara en það ætti að vera eins konar þinglýsing á slíku, sem hér færi fram, og í slíku vil ég ekki taka þátt. Og mér finnst það undarlegt þekkingarleysi á lögum og praksís, sem þarna hefur legið fyrir, þegar þetta hefur verið gert.

Ég verð þess vegna að segja, að ef hér á að reyna að tryggja þann rétt, sem mér virðist eftir anda stjórnarskrárinnar að flokkum sé veittur í svo miklu ríkara mæli eftir 1934 en áður, þá sé hægt að gera það með lögum, svo fremi sem þau ekki álitist brjóta í bága við stjórnarskrá, en ekki með öðru móti.

Ég vil taka það fram, að ég er leikmaður í þessum efnum, og mín skoðun á þessu byggist á því, hvernig ég hef skilið stjórnarskrána og hennar anda og þær breytingar, sem á henni hafa verið gerðar.

Ég álít þess vegna algerlega ómögulegt fyrir Alþingi að samþ. þá till., sem hér liggur fyrir frá þeim hv. þm. Siglf. og N-Þ., og væri alveg óþolandi fordæmi, ef slíkt væri gefið; sé hægt að leysa þetta mál, verði það ekki leyst nema með lögum, sem séu í samræmi við anda og tilgang stjórnarskrárinnar. Það er á valdi Alþingis að setja slík lög. Ég vil svo endurtaka tilmæli mín til hæstv. forseta, að afgr. sé nú till. kjörbréfanefndar, samróma till. hennar um kjörbréf Geirs Gunnarssonar, og síðan haldið áfram umr. um þetta mál, sem auðséð er að getur orðið nokkurt deiluatriði.