17.05.1957
Efri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta frv. er fram komið, enda þótt segja megi, að það sé reyndar á elleftu stundu og því allt í óvissu um afdrif þess á þessu þingi.

Ég hef tvívegis hér í þessari hv. deild flutt frv. um, að félagsheimilasjóður fengi 50% skemmtanaskattsins, en þetta hefur ekki fengið áheyrn hér, hvorki meðal deildarmanna né í hæstv. ríkisstj. Þykir mér það miður. En ég er ekki að erfa það og fagna því innilega, að hæstv. ráðh. hefur nú loks efnt það loforð, sem hann gaf hér í byrjun þings, og flutt þetta frv. Ég vil jafnframt benda á, að hæstv. ráðh. segir í grg. frv., að þessar auknu tekjur félagsheimilasjóðs muni að líkindum nægja til þess að fullnægja þeirri brýnu þörf, sem er nú í dag á auknum tekjum sjóðsins. Þetta vil ég mjög undirstrika og jafnframt biðja hv. þm. að muna, að þetta má gera að engu, ef sú stefna verður ofan á að fjölga svo mjög þeim aðilum, sem eiga aðgang að félagsheimilasjóði, að þetta verði gert að engu. Þá vil ég einnig biðja hv. þm. að muna það og minnast þess, að félagsheimilasjóður var upphaflega stofnaður fyrst og fremst til þess að greiða götu strjálbýlisins. Þessu megum við ekki gleyma, enda er þörfin þar brýnust og mjög aðkallandi, að úr verði bætt hið allra fyrsta. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég fagna því, að hæstv. ráðh. hefur flutt þetta mál, og vænti þess, að það fái greiðan gang hér í þessari hv. deild og gegnum þingið.