11.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. meiri hl. 1. kjördeildar (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frsm. minni hl. 1. og 3. kjördeildar og frsm. annars hluta 2. kjördeildar hafa flutt hér inn í sali Alþingis þref það, sem varð um kosningabandalag Alþfl. og Framsfl. fyrir síðustu kosningar. Um ekkert eitt mál urðu meiri umr. í kosningabaráttunni, bæði á fundum, í útvarpsumræðum og blaðaskrifum, heldur en um þetta kosningasamstarf, enda leituðust andstæðingar þessa kosningabandalags við að gera það að einu höfuðádeilumáli sínu gegn Alþfl. og Framsfl. Því verður vart neitað, að þetta mál hafi raunar þegar fyrir kosningar verið útrætt, bæði vegna þess, að hvað sem líður fyrirætlunum flokka, þá ráða kjósendurnir sjálfir með frjálsum leynilegum kosningarrétti sínum, hvaða fulltrúar kosnir eru á löggjafarsamkomu þjóðarinnar, og eins vegna hins, að rétt kjörin þar til bær stjórnarvöld hafa fjallað um lögmæti þessa kosningasamstarfs, sem Alþfl. og Framsfl. stofnuðu til fyrir síðustu kosningar, og kveðið upp í því máli úrskurði, sem raunar hefðu átt að vera endalok þessa deiluefnis og eru raunar svo í huga meginþorra kjósenda landsins.

Þegar landslistar flokkanna voru lagðir fyrir landskjörstjórn í maímánuði s. l., þá bar Sjálfstfl. eða umboðsmaður hans fram kæru, þar sem hann krafðist þess, að úrskurðað væri, að Alþfl. og Framsfl. skyldi sameiginlega úthlutað uppbótarþingsætum samkv. samanlagðri atkvæðatölu þeirri, er þeir hlytu við kosningarnar, eins og einn flokkur væri. Um þetta atriði var landskjörstjórn ekki á eitt sátt. Töldu tveir landskjörstjórnarmenn, þeir Einar Baldvin Guðmundsson hæstaréttarlögmaður og Vilmundur Jónsson landlæknir, að taka bæri kröfu Sjálfstfl. til greina og úthluta uppbótarþingsætum til Alþfl. og Framsfl. sameiginlega. Þrír landskjörstjórnarmenn, þeir Jón Ásbjörnsson hæstaréttardómari, Vilhjálmur Jónsson hæstaréttarlögmaður og Sigtryggur Klemenzson ráðuneytisstjóri, og þar með meiri hluti landskjörstjórnar, töldu hins vegar, að kæran væri ekki byggð á lagarökum, og höfnuðu henni. Þar með hefði átt að vera kominn endanlegur úrskurður um höfuðefni þeirra mótbára, sem hafðar voru uppi um lögmæti kosningabandalags Alþfl. og Framsfl. Jón Ásbjörnsson hæstaréttardómari taldi enn fremur, að listi sá, sem Alþfl. bar fram í Reykjavik og Framsfl. studdi, og sá listi, sem Framsfl. bar fram í Árnessýslu og Alþfl. studdi þar, hafi ekki verið með þeim hætti, að þeir gætu talizt í samræmi við kosningalög, og fórust honum svo orð um þetta í bókun á fundi í landskjörstjórn hinn 28. maí s. l., með leyfi forseta, „að hann telji, að með framboðslista Alþfl. í Reykjavík og framboðslista Framsfl. í Árnessýslu beri að fara sem utanflokkalista, nema á þeim verði gerð breyting, sem hann mun skýra nánar. Lítur hann svo á, að þeir geti ekki talizt framboðslistar einstaks flokks, eins og þeir eru nú úr garði gerðir.“ Rök hans fyrir þessu voru þau, að listar þessir væru skipaðir mönnum úr tveimur flokkum. Í samræmi við þetta bar hann fram í landskjörstjórn svo hljóðandi tillögu:

„Lista Alþfl. í Reykjavík og lista Framsfl. í Árnessýslu telur landskjörstjórn utanflokka lista og megi því frambjóðendur flokka þessara á þeim listum ekki standa á landslistum flokka þessara að framboðslistum þeirra í greindum kjördæmum óbreyttum. Beri að veita Alþfl. og Framsfl. frest til úrbóta, ella verði landslistar þeirra ekki metnir gildir.“

Þessi till. var felld með þremur atkv. gegn tveimur. Með henni greiddu atkvæði Jón Ásbjörnsson og Vilmundur Jónsson, en gegn henni þeir Einar Baldvin Guðmundsson, Sigtryggur Klemenzson og Vilhjálmur Jónsson. Þar með var kominn úrskurður um öll ágreiningsatriði um framboð Alþfl. og Framsfl., og þannig fóru alþingiskosningarnar fram frá kjósendanna hendi í trausti þess, að hér væri um endanlegan úrskurð að ræða.

Eftir kosningarnar, þegar landskjörstjórn úthlutaði uppbótarþingsætum og gaf út kjörbréf til landskjörinna þingmanna, kom ágreiningur sá, sem verið hafði í landskjörstjórn áður, að nokkru leyti aftur fram. Þeir Einar Baldvin Guðmundsson og Vilmundur Jónsson undirrituðu kjörbréf landskjörinna þingmanna Alþfl. og varamanna með fyrirvara, með tilvísun til till. þeirrar, sem þeir fluttu áður í landskjörstjórn, en þrír landskjörstjórnarmenn, þeir Jón Ásbjörnsson, Sigtryggur Klemenzson og Vilhjálmur Jónsson, undirrituðu án fyrirvara. Jón Ásbjörnsson ritaði undir kjörbréf hv. 3. landsk. þm., Gylfa Þ. Gíslasonar, sem sú kjördeild, sem ég á sæti í, hafði til meðferðar, með skírskotun til greinargerðar, sem hann lét bóka á fundi n. 9. júlí s. l., en þar segir hann, að hann telji, að landskjörstjórn beri nú að úthluta uppbótarþingsætum eftir landslistunum, eins og þeir liggja fyrir, miðað víð atkvæðamagn hvers þeirra um sig, enda hafi kjörgögn ekki leitt neitt nýtt í ljós, er hnekki þessu. Það er því skoðun Jóns Ásbjörnssonar, að úr því að landskjörstjórn á sínum tíma hafnaði till. hans um að úrskurða lista Alþfl. í Rvík og lista Framsfl. í Árnessýslu utanflokkalista og nema nöfn þeirra frambjóðenda, sem á þeim voru, af landslistum flokkanna, beri að úthluta þingsætum af landslistanum eftir þeim óbreyttum.

Mál þetta hefur nú komið til kasta Alþingis, þar sem frsm. minni hl. kjördeildanna hafa lýst sig andvíga því, að kjörbréf landskjörinna þingmanna Alþfl. verði tekin gild. Þar með hefur Sjálfstfl. flutt þetta deilumál hingað inn á Alþingi, deilumál, sem allur þorri kjósenda telur útrætt mál og því illa farið að eyða tíma Alþingis í deilur um það. En fyrst svo er komið, verður ekki hjá því komizt að rekja að nokkru rök þau, sem ég álit vera fyrir því, að taka beri þessi umdeildu kjörbréf gild.

Því er haldið fram af hálfu Sjálfstfl., að Alþfl. og Framsfl. séu í þessu sambandi einn þingflokkur, vegna þess að þeir hafi gengið til kosninga í kosningabandalagi um sameiginlega frambjóðendur og sameiginlega stefnuskrá. Ég er einn þeirra mörgu, sem telja þessa skoðun tvímælalaust ranga. Í 27. og 28. gr. kosningalaganna eru ákvæði um það, hvernig framboðum skuli hagað, bæði í einmenningskjördæmum og kjördæmum, þar sem hlutfallskosning fer fram, og landslistaframboðum. Það er staðreynd, enda hefur enginn treysts til að mótmæla því, að Alþfl. hefur fullnægt öllum kröfum laganna í þessu efni, yfirlýsingar frambjóðenda í kjördæmum og meðmælenda eru ómótmælanleg sönnunargögn um það, fyrir hvaða flokk fram er boðið. Yfirlýsing flokksstjórnar var skilyrði þess, að viðkomandi frambjóðendur væru teknir á landslista. Kjörstjórnir hafa ekkert vald til þess og Alþingi ekki heldur að ákveða, að frambjóðandi tilheyri öðrum flokki en þeim, sem hann sjálfur og meðmælendur hans lýsa yfir að hann bjóði sig fram fyrir, og það eru ekki heldur nein rök fyrir því, að landskjörstjórn eða Alþingi geti bætt á lista flokks frambjóðendum, sem flokksstjórnir neita að viðurkenna sem frambjóðendur flokksins. En í afstöðu Sjálfstfl. felst raunverulega það, að Alþingi beri að líta svo á, að allir frambjóðendur Framsfl. skuli teljast frambjóðendur Alþfl., eða gagnstætt, að frambjóðendur Alþfl. skuli teljast frambjóðendur Framsfl., eða í þriðja lagi, að frambjóðendur þessara tveggja flokka tilheyri einhverjum nýjum flokki. Auðvitað er slíkt fjarstæða, þar sem það liggur augljóslega fyrir, hvernig frambjóðendur þessara tveggja flokka eru fram boðnir. Með þessu væru frambjóðendur og meðmælendur sviptir rétti sínum til þess að ráða sjálfir, fyrir hvaða flokk þeir eru í kjöri og hvaða flokk þeir styðja, og flokksstjórnir sviptar rétti til þess að ráða, hvaða frambjóðendur þær viðurkenna, Fyrir slíkum tiltektum fyrirfinnast að sjálfsögðu engin lög.

Þá hefur því verið haldið fram, að framboð Alþfl. og Framsfl. hafi verið sameiginleg við síðustu kosningar, Þetta er auðvitað algerlega rangt. Þegar hvert einstakt framboð er athugað, sést, að framboð Alþfl. eru alls staðar eingöngu á hans vegum, borin fram af Alþýðuflokksmönnum í hverju kjördæmi fyrir sig og samþykkt af flokksstjórn. Sama máli gegnir um framboð Framsfl. Þau voru aðeins framboð þess flokks, en ekki Alþfl. Það skiptir að sjálfsögðu engu máli hér, þó að sumir af frambjóðendum Alþfl. hafi ekki verið meðlimir flokksins, Um slíkt eru fordæmi áður, og hefur aldrei verið gerð við það athugasemd. Við síðustu kosningar voru sumir af frambjóðendum þriggja flokkanna meðlimir í öðrum flokki en þeim, sem þeir voru í framboði fyrir.

Sjálfstfl. hefur m. a. viljað rökstyðja þá kröfu sína, að Alþfl. verði sviptur uppbótarþingsætum sínum, með því, að Alþfl. og Framsfl. hafi haft með sér kosningabandalag um sameiginlega stefnuskrá. Það er að sjálfsögðu rétt, að þessir flokkar höfðu kosningabandalag um sameiginlega kosningastefnuskrá, sem eðli sínu samkvæmt var dægurmálastefnuskrá. Hins vegar hefur sú kosningastefnuskrá og samstaða í kosningabaráttunni á grundvelli hennar engu breytt um það, að hér var um tvo flokka að ræða, eins og alþjóð er kunnugt, sem á engan hátt eru skipulagslega tengdir og starfa framvegis sem hingað til algerlega óháðir hvor öðrum. En það leiddi af hinni sameiginlegu kosningastefnuskrá og samstöðu í kosningunum, að þeir studdu frambjóðendur hvor annars í kjördæmum landsins á víxl. Slíkt er heldur ekkert einsdæmi. Það hefur átt sér stað meira og minna í fjölmörgum kosningum, að flokkar hafi stutt hvor annan og hvatt fylgismenn sína að kjósa frambjóðendur annars flokks. Gleggsta dæmi um þetta er kosningabandalag Sjálfstfl. og Bændaflokksins í kosningunum 1937, sem var jafnvíðtækt kosningabandalagi Alþfl. og Framsfl. í síðustu kosningum, að því leyti að Sjálfstfl. og Bændaflokkurinn buðu hvergi fram hvor á móti öðrum, þar sem talið var, að slíkt gæti skipt máli um úrslit kosninga, Þannig buðu þeir ekki fram hvor á móti öðrum í 22 kjördæmum, í þrem tvímenningskjördæmum buðu flokkarnir fram sinn manninn hvor, í fjórum kjördæmum aðeins buðu þeir báðir fram, vegna þess að vitað var, að slíkt gat engin áhrif haft á úrslit kosningarinnar í þeim kjördæmum, Alþfl. og Framsfl. höfðu hins vegar ekki þennan hátt á, þó að Alþfl. hefði hæglega getað boðið fram í nokkrum kjördæmum og þar með safnað atkvæðum án þess að setja frambjóðendur Framsfl. í hættu. Slík framboð frá hendi Alþfl. virðast að áliti sjálfstæðismanna hafa getað gert kosningabandalag Alþfl. og Framsfl. lögmætt, þó að þau hefðu óneitanlega aukið möguleika Alþfl. fyrir uppbótarþingsætum.

Sannleikurinn er auðvitað sá, að kosningabandalag Sjálfstfl. og Bændaflokksins og að hinu leytinu Alþfl. og Framsfl, voru gerð með nákvæmlega sama markmiði, því markmiði að ná hagkvæmari útkomu í kosningunum en ella hefði orðið. Þetta er að sjálfsögðu vitað mál og viðurkennt. Í stjórnarskrá og kosningalögum finnast engin ákvæði, hvorki í anda þeirra né efni, sem eru til fyrirstöðu því, að slík kosningabandalög séu í einu og öllu fullkomlega lögmæt. Ég staðhæfi hins vegar, að það væri stórfellt brot á 31. gr. stjórnarskrárinnar og ýmsum ákvæðum kosningalaganna, ef kjörbréfum uppbótarþingmanna Alþfl. yrði hafnað. Í 31. gr. stjórnarskrárinnar segir, að af 52 þjóðkjörnum þingmönnum séu allt að 11 þm, til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar. Opinberar og staðfestar skýrslur segja til um það, hverjar atkvæðatölur þingflokkanna voru við síðustu kosningar. Og í samræmi við það hefur landskjörstjórn úthlutað uppbótarþingsætum, svo sem fyrir er mælt í 31. gr. stjórnarskrárinnar og 14. kafla kosningalaganna.

Ég hirði ekki að svara hugleiðingum hv. þm. A-Húnv., sem voru með þeim hætti, að það er raunar ástæðulaust að svara þeim sérstaklega umfram það, sem þegar hefur verið gert. Allt tal hans um lögbrot í þessu sambandi var svo fjarstæðukennt, að furðu gegnir.

Ég hef nú rakið nokkuð deilumálið um uppbótarþingsætin og lýst viðhorfi mínu í því og vil að lokum undirstrika það, að í lýðfrjálsu landi eru það kjósendurnir, sem með frjálsum og leynilegum kosningarrétti sínum hljóta að ráða og eiga að ráða, hverjir kosnir eru fulltrúar á löggjafarþing, bæði í kjördæmum og landskjörnir þingmenn. Það er ómótmælanleg staðreynd, að í síðustu alþingiskosningum greiddu 15153 kjósendur á Íslandi Alþýðuflokknum atkv. sitt, og samkv. því ber flokknum fjögur uppbótarþingsæti, eins og landskjörstjórn hefur úrskurðað. Ef nú Alþfl. yrði neitað um þessi fjögur uppbótarþingsæti, sem kjósendur hafa veitt honum, þá væri það að mínum dómi algert brot á stjórnarskrá og kosningalögum, brot á viðurkenndum lýðræðisreglum og ofbeldi gagnvart þessum kjósendum. Með því væru þessir kjósendur sviptir þeim rétti, sem þeim ber til áhrifa á löggjafarþing þjóðarinnar, og væri slíkt meira ranglæti en þekkzt hefur í sögu Alþingis í sambandi við kjör alþingismanna. Ef Alþ. færi inn á þá braut að beita slíkum aðgerðum, þá tel ég, að stjórnskipulegu öryggi þjóðarinnar sé stefnt í voða.