21.05.1957
Efri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. minni hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki tækifæri til að taka þátt í afgreiðslu þessa máls í hv. menntmn., þegar málið var tekið fyrir þar, vegna fjarveru minnar úr bænum.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, var tekið til umr. á föstudaginn var, hygg ég vera, og afgr. og tekið til meðferðar í menntmn. á laugardaginn, og síðan var 2. umr. um það í gær, og lá fyrir nál. frá meiri hl. menntmn.

Ég vil geta þessa vegna þess, að bæði var nál. mítt, sem ég hef nú gefið út, síðbúnara en það annars hefði verið, og ég vil einnig geta þess, eins og nál. ber með sér, að ég er ekki að öllu leyti sammála þessu frv., eins og það liggur fyrir. Ég hefði vitanlega gert grein fyrir þessari afstöðu minni í n., ef ég hefði haft tækifæri til þess að taka þátt í afgreiðslu málsins, en það gat ég ekki, eins og ég hef áður sagt.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að félagsheimilasjóði er ætlaður þarna nokkru meiri hluti af skemmtanaskattinum en hann hefur áður haft, þ.e.a.s. hann fer úr 35% af skemmtanaskattinum upp í 50%. Þetta er mjög þarflegt. Það vita allir um félagsheimilasjóð, að hann er mjög fjárþurfi. Það biða ýmis verkefni óleyst. Það standa hálfbyggð félagsheimill úti um allt land, annars staðar eru þau fullgerð, en hvíla á þeim skuldir, sem félagsheimilasjóði er skylt lögum samkvæmt að standa skil á. Í öðrum stöðum er það svo, að ekki er hafizt handa vegna fjárskorts, svo að mjög er aðkallandi að auka tekjur sjóðsins, og ætti að vera séð nokkuð fyrir því með þessari breytingu á lögunum um skemmtanaskatt.

Um skemmtanaskattinn að öðru leyti yfirleitt, eins og er í þessu nýja frv., er aftur það að segja, að ég get ekki verið sammála frsm., hv. þm. Barð. (SE), um það, sem kom fram hjá honum hér í gær, að hann virtist leggja töluvert mikla áherzlu á, að undanþágur, sem væru í núgildandi lögum um skemmtanaskatt, væru mjög takmarkaðar og nú væru lögin hreinni og ákveðnari hvað þetta snertir.

Hv. þm. N-Ísf. (SB) benti á það í gær, að í e-lið 1. gr. segir svo: „Enn fremur er ráðh. heimilt að undanþiggja skemmtanaskatti kvikmyndasýningar eins kvikmyndahúss, er rekið sé af opinberum aðila, í hverjum hinna annarra kaupstaða, enda sé tekjum af þeim varið til menningar- og mannúðarmála.“

Þessi málsliður á, að ég hygg, að koma á móti þeim hlunnindum, sem Hafnarfjörður og Akranes hafa nú samkvæmt þessum lögum, því að nú er undanþága þeirra tekin beint inn í lögin, sem ekki mun hafa verið áður.

Ég er sammála hv. þm. N-Ísf. um þetta atriði, að þetta getur hæglega orðið til þess, að allir þeir staðir, sem þarna er um að ræða, geri tilraun til þess að koma sér upp kvikmyndahúsi og fái undanþágu samkv. þessum lögum frá skemmtanaskatti. Mér hefði fundizt, að eðlilegra og réttara hefði verið að leysa þetta ákvæði um undanþágur jafnóðum og beiðnir kæmu um það. Ég mun því fylgja brtt. hv. þm. N-Ísf. og hv. þm. V-Sk. á þskj. 573.

Þá vil ég enn benda á það, að síðast í 1. gr. frv. segir: „Aðrar undanþágur eru óheimilar.“ Þarna er það tekið skýrt fram, að aðrar undanþágur eru óheimilar. Svo heldur áfram: „Þó er ráðherra heimilt að láta haldast að nokkru eða öllu leyti undanþágur þær frá greiðslu skemmtanaskatts, er þær skemmtanir hafa notið, sem haldnar eru til fjáröflunar fyrir góðgerða-, líknar- og björgunarstarfsemi, sjúkrasjóði með staðfestri skipulagsskrá, sjúkrahús, elliheimili eða æskulýðsheimili, tónlistarskólann í Reykjavík, kirkjustarfsemi eða bindindisstarfsemi, sem nýtur styrks úr ríkissjóði.“

Nú vek ég ekki athygli á þessu af því, að ég sé á móti því, að þessir aðilar, sem hér eru nefndir, verði aðnjótandi þessara hlunninda. Ég vek athygli á þessu vegna þess, að mér fannst það koma svo skýrt fram í ræðu frsm. meiri hl. n. í gær, hv. þm. Barð., að undanþágurnar væru sem sagt numdar í burtu. En eins og auðséð er á frv., þá er það alls ekki.

Þá vil ég vekja athygli á og fara nokkrum orðum um 4. gr. frv. Hún er um það, að nýjan skatt skuli leggja á aðgöngumiða að kvikmyndasýningum og dansleikjum, þ.e.a.s., þegar búið er að leggja á skemmtanaskattinn eins og lög standa til, þá skal hæta enn nýjum skatti á, einni krónu á hvern seldan aðgöngumiða að kvikmyndasýningum og tveim krónum á hvern seldan aðgöngumiða að dansleik.

Nú er hægt að segja það, að hér sé verið að skattleggja, við skulum segja eyðslu, svo að maður segi ekki óþarfaeyðslu, en eyðslu, það er verið að skattleggja eyðslu þarna. En þetta er nýr skattur, sem lagður er ofan á skemmtanaskattinn, og ég er á móti því, að þessi skattur verði á lagður. Menn segja um það, að fólk, sem fer í kvikmyndahús og sækir dansleiki, muni ekki mikið um þessa greiðslu til viðbótar aðgangseyrinum, það kaupi sælgæti og ýmislegt annað og eyði peningum sínum hvort sem er ag því sé eins gott að taka það til þarflegra hluta.

En ég hygg nú a.m.k., ef talað er um kvikmyndahús úti um land, að þau séu ekki rekin með það miklum blóma, að það sé rétt að hækka aðgöngumiða hjá þeim, þótt ekki sé nema um þessa einu krónu. Ég veit, að þar sem ég er kunnugur, er það svo, að svona fyrirtæki berjast í bökkum og hafa alls ekki það mikinn afgang, að þar sé um neinn gróða að ræða. Þykir gott, að það standi undir sjálfu sér.

En þessi nýi skattur bætist þarna við, og hann er tekinn af fólkinu, sem þessar skemmtanir sækir, bæði hér í Reykjavík og úti um allt land. Ég hef í huga, þegar ég ræði um þetta, aðallega landsbyggðina. Ég veit ekki, hvernig það er hér í Reykjavík eða í stærri kaupstöðum, ég geri ráð fyrir, að þar sé ágóði af rekstri kvikmyndahúsanna. En þar sem fámenni er og kvikmyndahús eru rekin, þá er ekki um það að ræða, og skatturinn, þó að hann sé ekki nema þetta, ofan á 20% skemmtanaskattinn er tilfinnanlegur á rekstur, sem varla stendur undir sjálfum sér áður.

Ég er sem sagt andvígur þessum nýja skatti. Ég skal viðurkenna, að honum á að verja til þarflegra hluta, þar sem hann á að renna allur óskiptur í menningarsjóð, og starfssvið menningarsjóðs er ágætt og nauðsynlegt. En ég hefði viljað, að hæstv. menntmrh. hefði gert ráðstafanir til þess að fá nauðsynlegar tekjur í menningarsjóð á annan hátt en að leggja á þennan nýja skatt. Ég hefði álitið, að ef enn á að bæta nýjum skatti á þessar skemmtanir úti um landsbyggðina, til þess að féð renni í menningarsjóð hingað til Reykjavíkur, þá hefði verið nær, ef ekki er hægt að komast hjá því, að þessi skattur verði á lagður, að hann rynni hreinlega að nokkru leyti eða e.t.v. að öllu leyti í viðkomandi sveitarsjóði. Við, sem nokkuð erum kunnugir sveitarmálefnum, vitum, að hv. Alþingi er stöðugt að selja lög, sem hafa það í för með sér, að gjaldabyrðar sveitarsjóða þyngjast, en það ber minna á því, að hv. Alþingi hlaupi til og hjálpi sveitarfélögunum til þess að fá nýja skattstofna.

Ég vil benda á eitt, sem er núna nokkuð nýtt og sveitarfélög hafa töluvert mikinn kostnað af, en það eru bókasöfnin. Það er stutt síðan lög um bókasöfn voru sett hér á hv. Alþingi. Þetta eru nauðsynleg lög, það er ekkert um það að ræða, og þar sem þau eru komin á, sem mun nú vera viðast, fer þetta yfirleitt vel úr hendi. Byrjunin er góð og spáir góðu um framhaldið. En það kostar sveitarsjóðina töluvert mikið fé, sem þeir lögðu reyndar sumir fram áður, en ekki nærri allir til þessara mála.

Ef t.d. þessi nýi skattur, sem hér er um að ræða, yrði á settur og honum yrði veitt í hlutaðeigandi sveitarsjóði, væri nokkuð öðru máli að gegna, og þar gæti hann þá gegnt því hlutverki að standa undir ýmsum menningarmálum heima í héraðinu. Það fyndist mér vera eðlilegra en að hann verði lagður á núna eins og þetta frv. gerir ráð fyrir og hann gangi beint í menningarsjóð. Ef menningarsjóður verður fjárvana, þá held ég, að ríkissjóður eigi að hlaupa undir baggann og útvega það fé, sem hann vantar til þess að geta gegnt skyldum sínum, en ekki að vera að fara út á þessa braut með skattaálagningu.

Ég vil vísa til þess, sem ég sagði hér áðan í byrjun, að ég var nokkuð síðbúinn með mitt nál., hef ekki haft tækifæri til þess að tala við n. um má:ið og mitt sjónarmið um það, og þess vegna liggur ekki hér fyrir brtt. prentuð. En ég er með hér skrifl. brtt., sem ég ætla að leyfa mér að bera fram við frv. núna. Það er brtt. við frv. til l. um breyt. á l. nr. 56 frá 31. maí 1927, um skemmtanaskatt og þjóðleikhús: „Við 4. gr. Greinin falli niður.“ — Ég legg sem sagt til, að 4. gr. í frv. falli niður.

Ég vil biðja hæstv. forseta um að leita eftir nauðsynlegum afbrigðum fyrir þessari till. hér á eftir.