21.05.1957
Efri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (1707)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil í upphafi láta í ljós mikla ánægju yfir því, að einnig hv. þm. N-Ísf. (SB) lýsir yfir fyllsta stuðningi sínum við þá sjóði eða þau fyrirtæki, sem þeim tveim frv., sem lögð voru fram ásamt því frv., sem hér er til umr., er ætlað að efla. Mér þykir mjög vænt um, að um það virðist ekki vera nokkur ágreiningur hér í hinni hv. d., að brýn þörf hafi verið á því að efla þau þjóðþrifafyrirtæki, sem hér er um að ræða, en það er fyrst og fremst menningarsjóðurinn og hinn fyrirhugaði vísindasjóður, félagsheimilasjóðurinn, þjóðleikhúsið og sinfóníuhljómsveitin. Ég hef ekkert orð heyrt af hálfu hv. stjórnarandstæðinga í þá átt, að ekki sé fyllsta ástæða til þess að verja því fé, sem hér er gert ráð fyrir að afla, í þágu þessara fyrirtækja, að því sé ekki vel varið öllu saman í þágu þeirra, það hafi einmitt verið brýn ástæða til þess að verja auknu fé í þágu þeirra. Ég vil undirstrika, að mér þykir vænt um þann einróma stuðning, sem málefnin sjálf, sem ætlunin er að efla, hafa hlotið.

Það er hins vegar engin ný bóla, að nokkur ágreiningur geti orðið um það, hvernig afla skuli tekna, þegar nauðsyn er á öflun fjár til góðra málefna.

Hv. þm. spurði: Hvers vegna er verið að leggja á þetta gjald, þótt lítið sé? Hvers vegna beitti ráðh. sér ekki fyrir því, að tekin yrði upphæð, sem nægja mundi, á fjárl., þegar þau voru afgr. síðast?

Því er auðvitað til að svara, að þótt ég hefði lagt til, að slík upphæð yrði tekin á fjárl., hefði auðvitað þurft að sjá fyrir tekjustofni með nákvæmlega sama hætti og nú á sér stað. Svo reyndur þm. sem hv. þm. N-Ísf. er án efa veit, að það eitt er ekki nóg að bera fram till. um ný útgjöld á fjárl. Það þarf einnig að bera fram till. um nýjar tekjur á fjárl. Þessu máli var engan veginn gleymt, þegar fjárl. síðustu voru til undirbúnings og til umr. Niðurstaðan í mínum huga var þá þegar orðin sú, að langsamlega æskilegasta leiðin til að efla þau fyrirtæki, sem hér er um að ræða, menningarsjóð, vísindasjóð, félagsheimilasjóð, þjóðleikhús og sinfóníuhljómsveit, væri einmitt að leggja svolitið viðbótargjald á þessar algengu skemmtanir, dansleiki og kvikmyndahús. Rökin fyrir því eru afar einföld. Síðan 1923, að ég hygg, hafa þessar skemmtanir verið skattlagðar í þágu menningarmála. Þeim, sem sótt hafa slíkar skemmtanir, hefur allar götur síðan 1923 verið ætlað að standa undir rekstri menningarfyrirtækja í landinu, upphaflega eingöngu byggingu þjóðleikhússins, síðar einnig byggingu félagsheimila, lestrarfélögum og kennslukvikmyndum og sinfóníuhljómsveit. Nýmælið er hér í raun og veru það eitt, að þeim skuli einnig ætlað að standa undir nýjum verkefnum hjá menningarsjóði og stofnun vísindasjóðs.

Hér er með öðrum orðum alls ekki hvað snertir tekjuöflunina um neina algerlega nýja braut að ræða. Það er einungis um það að ræða að halda áfram á leið, sem gengin hefur verið meira en 30 s.l. ár, að láta þá, sem slíkar skemmtanir sækja, jafnframt standa undir heilbrigðri menningarstarfsemi í landinu, og mér þótti sem svo lítil viðbót við það gjald, sem nú er greitt af slíkum skemmtunum, gæti engan veginn verið varhugaverð, af þeirri einföldu ástæðu, að hinn almenni skemmtanaskattur hefur alls ekki hækkað neitt í líkingu við þá almennu verðlagshækkun, sem orðið hefur hér á landi á s.l. 15 árum, með þeirri afleiðingu, að aðgangseyrir bæði að dansleikjum og kvikmyndahúsum hefur hækkað miklu minna en svarar til hinnar almennu verðlagshækkunar og er núna tiltölulega mun lægri en hann var á árunum fyrir stríð.

Þegar það er einnig haft í huga, að aðgangseyrir að slíkum skemmtunum hér er miklu lægri en hann tíðkast í nálægum löndum, m.a. af því, að skemmtanaskattur er hærri þar, þótti mér það aðeins viðbótarrök fyrir því að fara nú einmitt þessa leið til að afla fjár til þessara viðurkenndu nauðsynjamála.

Spyrja mætti, og við þeirri spurningu hefði ég gjarnan getað búizt: Hvers vegna var ekki sú leið farin einfaldlega að auka hinn almenna skemmtanaskatt? Skýringin á því er sú, að ef það hefði verið gert, hefði enginn nýr gjaldaauki komið á alla þá mörgu aðila, sem nú njóta undanþágu frá skemmtanaskatti, og það fyrst og fremst hin stóru kvikmyndahús. Það taldi ég ástæðulaust og óeðlilegt.

Þetta nýja, litla gjald munu allir aðilar greiða, einnig þeir, sem undanþágunnar njóta, og er þetta einmitt í samræmi við þá meginstefnu, sem hv. þm. N-Ísf. virðist hallast að, þ.e., að undanþágurnar yfirleitt séu óeðlilegar. Það eiga engar undanþágur að vera til undan þessu nýja, litla gjaldi. Með það finnst mér, að hv. þm. N-Ísf. og hv. 2. þm. Árn. ættu að geta verið ánægðir, af því að um þetta gjald er einmitt fylgt þeirri stefnu, sem þeir halda fram í ræðum sínum. — Það er skýringin á því, að ekki er farin sú leið að hækka einfaldlega skemmtanaskattinn, þótt ýmis rök lægju til þess, vegna þess, hve miklu minna hann hefur hækkað en önnur hliðstæð gjöld.

Þegar við þetta bætist, að aðgangseyrir að kvikmyndasýningum a.m.k. hefur verið háður ströngu verðlagseftirliti lengst af síðan á styrjaldarárunum, hefur það m.a. orðið til þess, að greidd leiga fyrir erlendar kvikmyndir hefur hækkað minna en átt hefur sér stað t.d. í nálægum löndum, þannig að tiltölulega lægra gjald er nú greitt hér fyrir leigu á erlendum kvikmyndum en á sér stað t.d. á Norðurlöndum. Þetta hefur eitt með öðru orðið til þess, að aðgangseyrir að kvikmyndasýningum hér hefur hækkað minna en á sér stað t.d. á Norðurlöndum og í Bretlandi.

Öll þessi rök virðast mér hníga að því, að engin ástæða sé til þess að hika við að bæta þessu litla gjaldi við aðgangseyri að kvikmyndasýningum og dansleikjum. Þrátt fyrir þessa litlu aukningu verða kvikmyndasýningar nú framvegis, ef samþ. verður, ódýrari en þær voru fyrir stríð tiltölulega og ódýrari en þær eru á Norðurlöndum, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Ég vil því aðeins endurtaka það, sem ég sagði við 1. umr. málsins, að ég tel þetta litla viðbótargjald vera svo lítilfjörlegt, miðað við þan góðu málefni, sem efla má með stuðningi þess, að ég tel ekkert áhorfsmál, að þessa leið eigi að fara.

Ég bið hv. þm. N-Ísf. afsökunar á því, að ég skuli ekki hafa minnzt þess, að fyrir 8–9 árum var hér á Alþ. flutt frv. frá honum og öðrum hv. þm. um að afnema allar undanþágur undan greiðslu skemmtanaskatts að því er kvikmyndasýningar snertir. En ég vil aðeins minna á það, sem hann gat raunar sjálfur um í sinni ræðu, að því fór á sínum tíma víðs fjarri, að þessi hugmynd hefði meirihlutafylgi hér á Alþingi. Einn ötulasti andstæðingur þessarar hugmyndar var einmitt og er einn ágætur flokksbróðir hv. þm. N-Ísf., hv. þm. Borgf. (PO).

Hv. þm. spurði, hvaða ástæða væri til þess að veita nokkrar undanþágur undan skemmtanaskattinum yfirleitt, og sum ummæli hans mátti jafnvel skilja svo, að kvikmyndahús hefðu einhverja sérstöðu í þessum efnum. Það er ekki rétt.

Eins og gildandi lagaákvæði eru, þá er undanþáguheimildin fyrir skemmtanaskatti bundin við það, að tekjum hlutaðeigandi fyrirtækja, tekjum af hlutaðeigandi skemmtunum sé varið í þágu menningar- eða mannúðarmála, þ.e. þeim sé varið til almenningsheilla. Rökin fyrir þessu upphaflega eru auðvitað þau, að skemmtanaskattinum á að verja til almenningsheilla, til stuðnings menningar- og mannúðarmála, og þess vegna hafi verið talið óeðlilegt að láta fyrirtæki, sem ætla að verja öllum sínum tekjum í sama skyni og skemmtanaskattinum á að verja, greiða slíkan skemmtanaskatt.

Opinber kvikmyndahús almennt hafa ekki undanþágu undan greiðslu skemmtanaskatts. Ef eitthvert bæjarfélag vill stofna kvikmyndahús, þá fær það ekki undanþágu undan greiðslu skemmtanaskatts, nema það verji tekjum þess í þágu menningar- eða mannúðarmála. Við það er undanþáguheimildin bundin, en ekki við hitt, að kvikmyndahús sé opinber eign.

Varðandi hina nýju undanþáguheimild til hinna annarra kaupstaða er þess að geta, að stöðugt hefur verið haldið lengra og lengra á þessari braut. Hv. þm. á að vera kunnugt um, að fyrrv. menntmrh. veitti með bréfi Vestmannaeyjakaupstað slíka heimild, þannig að það er á misskilningi byggt hjá honum, að nú lægi fyrir umsókn um slíka heimild frá Vestmannaeyjakaupstað. Hún er þegar veitt með ráðuneytisbréfi af fyrirrennara mínum. Hins vegar liggur fyrir umsókn frá Ísafjarðarkaupstað, og ég verð að játa hreinskilnislega, að ég fann ekki rökin fyrir því að neita Ísafjarðarkaupstað um slíka undanþáguheimild, þegar fyrirrennari minn fyrir einu ári hefur veitt Vestmannaeyjakaupstað slíka heimild. Ísafjarðarkaupstaður sækir um leyfi til þess að nota tekjur af skemmtanaskatti bæjarbíósins, ef stofnað yrði, í sama skyni og Vestmannaeyjakaupstaður hefur fengið leyfi til að nota tekjur af skemmtanaskatti bæjarbíós, ef stofnað yrði. Ég teldi það vera mestu rangsleitni að láta ekki Ísafjarðarkaupstað fylgja t kjölfar Hafnarfjarðarkaupstaðar og teldi, að það væri að gera rangt.

Þá sagði hv. þm., að með þessari undanþáguheimild væri án efa verið að draga mjög úr tekjuskilyrðum félagsheimilasjóðs og þjóðleikhúss.

Ég vil aðeins benda á, að allir stærstu kaupstaðirnir hafa nú þegar slíka undanþágu nema Kópavogskaupstaður. Reykjavík hefur þetta fyrir þrjú bíó, Akureyri befur hana, Hafnarfjörður hefur hana, Akranes hefur hana, Vestmannaeyjar hafa hana. Þeir kaupstaðir, sem þá eru eftir fyrir utan Kópavogskaupstað, eru allir meðal hinna smærri kaupstaða, svo að ég tel hér ekki geta orðið um neina verulega breytingu að ræða á tekjuskilyrðum félagsheimilasjóðs og þjóðleikhúss, auk þess sem búast má við og raunar alveg öruggt er, að það hlýtur að taka nokkurn tíma fyrir þessa kaupstaði að koma sér upp skilyrðum til þess að reka kvikmyndahús og þannig nota sér undanþáguheimildina. Ég endurtek það, sem ég sagði áðan: Ég geri ekki ráð fyrir því, að tekjumissir félagsheimilasjóðs og þjóðieikhúss vegna þessara nýju undanþáguheimilda verði meiri en nemur hinni almennu aukningu, sem áreiðanlega verður á tekjum af skemmtanaskattinum, eins og hún hefur orðið undanfarin ár, en skatttekjurnar hafa á undanförnum árum aukizt um allt að því 1/2 millj. kr. á ári, og svo mikil verður tekjurýrnun áreiðanlega ekki, af þessum sökum.

Þá má og geta þess, að eins og frá frv. þessu er gengið, er gert ráð fyrir því, að það sé á valdi ráðh., hvort þær undanþágur haldast að nokkru eða öllu leyti, sem veittar hafa verið undanfarið ýmsum aðilum, sem reka almennar skemmtanir, „kabaret“-sýningar og því um líkt. Ég sé enga ástæðu til annars en láta koma skýrt fram, að það er mín skoðun og að því leyti erum við hv. þm. N-Ísf. alveg sammála, að það sé mjög vafasamt, að það eigi að láta allar þessar undanþágur haldast, og alls ekki að leyfa þar nýjar.

Einnig af þessum sökum held ég, að gera megi ráð fyrir, að tekjur af skemmtanaskatti muni aukast allverulega á næstunni.

Að síðustu vildi ég svo víkja að því, sem hv. þm. sagði um bráðabirgðaákvæðin, þar að lútandi, að verja skuli tekjum af viðtækjaverzlun í þar greindu skyni. Hv. þm. virtist gera ráð fyrir því, að þessi ákvæði hefðu verið sett í frv. án nokkurs samráðs við ríkisútvarpið. Ég vildi í því sambandi aðeins minna á það, sem raunar hefur komið fram áður, að útvarpsstjórinn átti sæti í þeirri n., sem ég m.a. hafði falið að fjalla um endurskoðun á skemmtanaskattslögunum, og var því að sjálfsögðu vel kunnugt um þetta ákvæði. Það var rætt á að minnsta kosti sumum af þeim fundum, sem ég átti með nefndinni.

Það var rétt, sem hv. þm. sagði um húsnæðismál útvarpsins, að þau eru í hinum mestu vandræðum, og ber brýna nauðsyn til að bæta þar úr. Hitt taldi ég aftur á móti óhjákvæmilegt, að framlengja hliðstæða ráðstöfun á hagnaði viðtækjaverzlunarinnar og verið hefur í gildi s.l. 5 ár. Það er hins vegar mín skoðun, að að þeim tíma loknum væri eðlilegt, að tekjur viðtækjaverzlunarinnar rynnu í byggingarsjóð útvarpsins. Útvarpið hefur nú þegar yfir að ráða allmiklu fé til ráðstöfunar í útvarpsbyggingu, þegar heimild fæst til hennar, og svo miklu fé, að framkvæmdir ættu ekki að þurfa að stranda á fjárskorti næstu árin. Þegar það tímabil er útrunnið, sem hér er gert ráð fyrir að tekjum viðtækjaverzlunarinnar verði varið til þess að greiða byggingarskuldir þjóðleikhússins, verða þær skuldir að fullu greiddar og þar af leiðandi tekjur viðtækjaverzlunarinnar a.m.k. að 3/5 hlutum til almennrar ráðstöfunar. Endurtek ég það, að þá tel ég eðlilegast, að þeim tekjum sé varið í þágu útvarpsins sjálfs og þá fyrst og fremst í þágu þess til byggingarmála. Hitt var hins vegar misskilningur hjá hv. þm., að þetta ákvæði hefði verið sett í frv. án samráðs við ríkisútvarpið. Það hafði á því fyllsta kunnugleika.