21.05.1957
Efri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forsett. Það er aðeins eitt atriði. Það bar ekki að skilja orð mín um samráð við ríkisútvarpið áðan svo, að útvarpsstjóri hafi verið samþykkur því ákvæði, sem er í frv. um ráðstöfun á tekjuafgangi viðtækjaverzlunar ríkisins. Mér var vel kunnugt og er kunnugt, að hann var því og er mjög andvígur. Sama máli gegnir og um formann útvarpsráðs, sem einnig var kunnugt um þetta ákvæði, áður en frv. var lagt fram.

Það, sem ég vil undirstrika, er aðeins það, að lagaákvæði um framlengingu á ráðstöfun á tekjum viðtækjaverzlunar ríkisins eru nú ekki sett með sama hætti og síðast, þ.e. 1950, þar sem það gerðist, eins og hv. þm. lýsti réttilega í ræðu sinni áðan, að tekjuafganginum var ráðstafað að ríkisútvarpinu og forráðamönnum þess algerlega fornspurðum. Það gerist ekki núna, því að bæði útvarpsstjóri og form. útvarpsráðs fylgdust með undirbúningi þessa frv., m.a. að því er snerti þetta ákvæði. Hitt er rétt, að þeir létu báðir í ljós andstöðu sína við þetta ákvæði. Er mjög skiljanlegt, að þeir vilji heldur fá tekjurnar til ráðstöfunar í þágu sinnar eigin stofnunar heldur en láta þær ganga til annarra þarfa. Það varð niðurstaðan í ríkisstj. samt sem áður að leggja til við hið háa Alþ., að tekjuafganginum yrði ráðstafað svona næstu 5 ár, sem er í meginatriðum í samræmi við það, hvernig honum hefur verið ráðstafað s.l. 5 ár. Vil ég mega treysta, að hið háa Alþ. fylgi enn um næstu 5 ár þeirri sömu reglu sem það hefur fylgt undanfarin 5 ár hvað þetta snertir eða þangað til skuldir þjóðleikhússins eru að fullu greiddar, því að þær þarf að sjálfsögðu að greiða.