22.05.1957
Efri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. minni hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls mælti ég á móti hinum nýja skatti, sem gert er ráð fyrir að leggja á aðgöngumiða að kvikmyndasýningum og dansleikjum skv. 4. gr. frv., þ.e. að leggja eina krónu á hvern seldan aðgöngumiða að kvikmyndasýningum og tvær krónur á hvern seldan aðgöngumiða að dansleik. Þessi till. mín var felld og frv. samþykkt og gjaldið þar með ákveðið.

Ég skal ekki fara langt út í þetta mál núna. Ég talaði um það í gær við 2. umr. málsins, og þ. á m. minntist ég á það., að ef þetta gjald yrði lagt á, væri eðlilegt, þar sem um nýjan skatt væri að ræða, að það gengi til viðkomandi sveitarsjóða.

Nú hef ég flutt brtt. á þskj. 587 í samræmi við þetta, en fer þó ekki lengra en það í þessari till. að leggja til, að gjald þetta renni að hálfu í menningarsjóð og að hálfu í sveitarsjóð, þar sem það fellur til.

Þetta skýrir sig sjálft. Ég þarf ekki að fara mörgum fleiri orðum um það.

En ég vænti, að hæstv. forseti álíti það ekki neitt brot á þingsköpum, þó að ég minnist aðeins á í þessu sambandi frv. til l. um menningarsjóð og menntamálaráð, sem var samþ. hér út úr deildinni í gær, vegna þess að í þessum lögum og í þessu frv., sem hér er til umr., er það ákveðið í 4. gr., að gjald þetta skuli renna óskipt í menningarsjóð.

Í greinargerð fyrir frv. um menningarsjóð segir, að hann hafi 500–600 þús. kr. tekjur á ári eða hafi haft það undanfarin ár. Nú er í fjárl. þessa árs í 14. gr. styrkur veittur menningarsjóði til þess að gefa út Íslandssögu, 12 þús. kr., og einnig til þess að gefa út Íslandslýsingu, 20 þús. kr. Þetta eru fjárveitingar til vissrar útgáfustarfsemi, sem ekki er nema sjálfsagt að styrkja, þar sem um útgáfu er að ræða, sem trúlega getur ekki borið sig, þar sem samning ritanna mun vera vinnufrek og þar af leiðandi dýr. En þar að auki er á heimildagrein fjárl. þessa árs heimilað að greiða menningarsjóði það, sem á kann að vanta, að tekjur sjóðsins verði 1 millj. 550 þús. kr. á árinu 1957. Þetta eru ekki svo litlar tekjur, og þess vegna virðist, ef þessum fjárveitingum yrði haldið áfram til sjóðsins, sem ekki er mikil hætta á að ekki verði gert, ekki mikil þörf á því að leggja á nýja skatta til að auka tekjur sjóðsins, einkum þar sem um er að ræða að skattleggja ódýrustu skemmtanir fólksins, kvikmyndasýningarnar. Ég sé því ekki, að ástæða sé til þess að amast við því, að helmingur hins nýja skatts renni til sveitarsjóðanna. Það virðist vera sæmilega séð fyrir menningarsjóði, þótt hann fái ekki nema helming af hinum nýja skatti, þ.e. eina milljón króna, því að gert er ráð fyrir, að skattur þessi nemi um 2 millj. samtals. Ég vænti því, að hv. dm. geti fallizt á þessa brtt. mína á þskj. 587.

Ég vil aðeins minnast á það í þessu sambandi með menningarsjóð, að starf hans er nauðsynlegt og ágætt. Ég skal ekki draga úr nauðsyn þess og menningargildi. En það er mikið lagt upp úr því starfi menningarsjóðs, sem snertir bókaútgáfu, í grg. fyrir frv. og að það sé nauðsynlegt að hafa mikið fé til þeirra hluta. Nú er það vitað, að menningarsjóður hefur gefið út ýmsar bækur, sem ættu áreiðanlega að standa sjálfar undir sínum útgáfukostnaði. Það er ekkert að athuga við það, þó að styrkt sé útgáfustarfsemi, sem er mjög fjárfrek, t.d. eins og Íslandslýsing og Íslandssaga, sem maður gerir ekki ráð fyrir að geti borið sig fjárhagslega. En ýmsar þær bækur, sem menningarsjóður hefur gefið út á undanförnum árum, eiga áreiðanlega að geta borið sjálfar sinn útgáfukostnað, og það er mjög óeðlilegt að vera að setja mjög miklar fjárhæðir í það að styrkja almenna bókaútgáfu, eins og menningarsjóður hefur haft með höndum að sumu leyti. Þetta er ekki undantekningarlaust, því að sumar þessar útgáfur, sem hann hefur staðið að, eru auðvitað dýrar í útgáfu og ágætar og sjálfsagt að styrkja. Bókaútgáfa menningarsjóðs er mikið útbreidd og er mikið keypt á fjöldamörgum heimilum um allt land, og þær bækur eru svo ódýrar, að það væri alveg óhætt að hækka áskriftargjaldið lítið eitt. Það mundi ekki vera neitt tilfinnanlegt fyrir þá menn, sem eru áskrifendur að bókum menningarsjóðs, þó að þeir ættu að borga nokkrum krónum meira, til þess að útgáfan væri örugg um það að standa undir sér, a.m.k. það, sem getur heitið að mestu leyti almenn bókaútgáfa.