23.05.1957
Neðri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1797 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá hv. Ed. Það felur í fyrsta lagi í sér breytingar á gildandi reglum um undanþágur undan skemmtanaskatti eða um innheimtu skemmtanaskattsins. Gildandi ákvæði um það, hvaða skemmtanir skuli vera skemmtanaskattsskyldar, hafa verið harla óskýr, svo að nokkur vafi hefur leikið á því, hvernig bæri að túlka þau. Gildandi lagaákvæði gera ráð fyrir því, að undanteknar skemmtanaskatti skuli skemmtanir, ef tekjum af þeim er varið til almenningsheilla. Reynslan hefur sýnt, að erfitt hefur verið að túlka það, hvað telja skuli almenningsheill, þannig að öllum hafi fundizt sanngirni ráða. Er því mjög aðkallandi að setja um þetta skýrari og ótvíræðari ákvæði.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að gildan3i undanþáguákvæðum um tilteknar tegundir skemmtana skuli haldið, en til viðbótar eru taldar kvikmyndasýningar sáttmálasjóðs og bæjarsjóðs Akraness og Hafnarfjarðar, enda sé tekjunum varið á sama hátt og nú. Þessar kvikmyndasýningar hafa verið undanþegnar skemmtanaskatti samkvæmt hinu almenna undanþáguákvæði gildandi laga, svo að hér er um enga breytingu að ræða frá því, sem verið hefur í reynd. Það er hins vegar nýjung í þessu frv., að ráðh. er heimilað að undanþiggja skemmtanaskatti eitt kvikmyndahús, sem rekið sé af opinberum aðila, í öðrum kaupstöðum landsins. Ástæða til þessa nýmælis er sú, að í skjóli gildandi undanþáguheimildar hafa verið rekin án skemmtanaskattsskyldu þrjú kvikmyndahús hér í Reykjavík og eitt á Akureyri, auk þeirra tveggja, sem ég nefndi áðan, í Hafnarfirði og á Akranesi. Enn fremur veitti fyrrv. menntmrh. með tilvísun til nefnds lagaákvæðis Vestmannaeyjakaupstað beimild til þess að reka kvikmyndabús á vegum bæjarsjóðs, ef tekjunum yrði varið til þess að byggja eða reka sjúkrahús þar á staðnum. Umsókn liggur og í menntmrn. nú frá Ísafjarðarkaupstað um að mega reka kvikmyndahús, enda yrði tekjum þess varið til rekstrar elliheimilis þar á staðnum.

Ég sé enga skynsamlega leið í þessu máli, að því er kaupstaðina varðar, aðra en þá að setja þá alla við eitt og sama borð, þ.e. að heimila þeim öðrum kaupstöðum, sem nú hafa ekki slíkan rekstur með höndum, að njóta undanþágu, ef þeir koma sér upp kvikmyndahúsi og eru reiðubúnir til þess að nota tekjurnar af því með sama hætti og þau bæjarkvikmyndahús hafa gert, sem notið hafa undanþágunnar undanfarin ár.

Þá er það annað nýmæli varðandi þetta, að hljómleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands skuli undanþegnir skemmtanaskatti. Þykir réttlátt og sanngjarnt, að sama gildi um hljómsveitina í þessu efni og um þjóðieikhúsið.

Ýmis félög og stofnanir hafa notið undanþágu frá skattinum samkv. gildandi almennri undanþáguheimild. Í þessu frv. er ráðh. heimilað að láta flestar þessar undanþágur haldast að nokkru eða öllu leyti. En í frv. er það mikilvæga ákvæði, að óheimilt sé að veita nýjar undanþágur frá skattinum. Með því móti ætti að verða unnt að stemma stigu við þeirri þróun, að stöðugt fleiri aðilar sleppi við að greiða skattinn, en sú þróun hlýtur að hafa í för með sér, að tekjur af skattinum dragist saman og menningarstarfsemi sú, sem skattinum er ætlað að styðja, biði ýmislega hnekki sökum fjárskorts. Skatttekjunum hefur fyrst og fremst verið varið til rekstrar þjóðleikhúss og til byggingar félagsheimila.

Í öðru lagi felur þetta frv. í sér breytt ákvæði um skiptingu tekna af skemmtanaskatti. Samkvæmt gildandi l. renna nú 42% skemmtanaskattsins í rekstrarsjóð þjóðleikhússins, 35% í félagsheimilasjóð, 15% til greiðslu á byggingarskuldum þjóðleikhússins og 8% til lestrarfélaga og kennslukvikmyndasjóðs. Þá er og innheimtur 10% viðauki við skemmtanaskattinn, og er honum varið til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Samkv. þessu frv. skal tekjum af skemmtanaskatti skipt til helminga milli rekstrarsjóðs þjóðleikhússins og félagsheimilasjóðs. Til greiðslu byggingarskulda þjóðleikhússins hefur, eins og ég gat um áðan, verið varið 15% skemmtanaskattsins og auk þess tekjuafgangi viðtækjaverzlunar ríkisins árin 1951–56. Í byrjun þessa árs átti ríkissjóður eftir að fá endurgreiddar 3 millj. kr. vegna byggingarskulda þjóðleikhússins. Í þessu frv., bráðabirgðaákvæðum þess, er ráðgert, að hagnaður viðtækjaverzlunarinnar renni áfram í ríkissjóð á árunum 1957–61. Er gert ráð fyrir því, að 3/4 hlutum hans verði varið til að greiða eftirstöðvar byggingarskulda þjóðleikhússins, en heimilt sé að verja 2/5 hlutum hans til rekstrar sinfóníuhljómsveitarinnar. Byggingarskuldir þjóðleikhússins yrðu þá að fullu greiddar á árinu 1961, og tel ég þá eðlilegt, að sú upphæð, sem þá hefur gengið til greiðslu byggingarskuldanna, renni aftur til ríkisútvarpsins til þess að standa undir bráðnauðsynlegum byggingarframkvæmdum þess.

Samkvæmt l. nr. 42 frá 1955, um almenningsbókasöfn, er nú veitt til lestrarfélaga í fjárl., en þau nutu áður 4% skemmtanaskatts. Sömuleiðis befur kennslukvikmyndasjóður notið 4% skattsins, en á þessu frv. er gert ráð fyrir því, að frá og með næstu áramótum verði kostnaður vegna fræðslukvikmynda greiddur með fjárveitingu í fjárl., svo sem annar skólakostnaður, og er þess vegna ekki gert ráð fyrir, að neinn hluti skemmtanaskatts renni til kennslukvikmynda. Af þessu munu þó ekki hljótast nein ný útgjöld fyrir ríkissjóð.

Á gildandi fjárl. er heimilt að greiða 450 þús. kr. rekstrarhalla þjóðleikhúss á yfirstandandi ári, en fái þjóðleikhúsið hluta sinn af skemmtanaskatti aukinn úr 42% í 50%, munu tekjur þess væntanlega aukast um a.m.k. 400–500 þús. kr., og ætti sú tekjuaukning fyllilega að geta komið í stað fjárlagagreiðslunnar, og þess vegna ætti að vera hægt að taka upp fjárveitingu á fjárl. til kennslukvikmynda í stað þeirrar upphæðar, sem nú hefur verið og væntanlega hefði að öllu öðru óbreyttu orðið að vera áfram á fjárl. til að greiða rekstrarhalla þjóðleikhússins, þann halla, sem er umfram tekjur af skemmtanaskatti.

Eins og kunnugt er, er félagsheimilasjóði brýn þörf á verulega auknum tekjum. Fái sjóðurinn í sinn hlut helming skemmtanaskattsins, mun hann geta fullnægt aðkallandi verkefnum á sómasamlegan hátt. Tekjur hans hafa undanfarin ár verið 1.8–1.9 millj. kr., en fái hann helming skemmtanaskattsins, má búast við, að tekjur af honum verði árlega framvegis 2.8 millj. kr., svo að þetta frv., ef samþ. verður, mun færa félagsheimilasjóði um 900 þús. kr. tekjuaukningu. Er það í fyllsta samræmi við það, sem forráðamenn félagsheimilasjóðs hafa talið æskilegt og nauðsynlegt, til þess að sjóðurinn geti fullnægt aðkallandi verkefnum á næstunni á sómasamlegan hátt.

Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því, að lagt verði gjald á aðgöngumiða að kvikmyndasýningum, öðrum en barnasýningum og dansleikjum, og renni það í menningarsjóð, 1 kr. gjald af aðgöngumiðum að kvikmyndasýningum og 2 kr. gjald af aðgöngumiðum að dansleikjum.

Í frv. um menningarsjóð, sem var til 1. umr. í þessari hv. deild í gær, er gerð grein fyrir því, hvernig gert er ráð fyrir að verja tekjum af þessu gjaldi, þ.e., hvernig gert er ráð fyrir, að menningarsjóður ráðstafi þessum auknu tekjum. Skal ég þess vegna ekki í þessu sambandi fjölyrða um það, aðeins láta þess getið, að þrátt fyrir þetta smávægilega aukagjald á aðgangseyri kvikmyndasýninga og dansleikja mun aðgangseyririnn eftir sem áður vera hlutfallslega talsvert lægri en hann var fyrir stríð og allmiklu lægri en aðgangseyrir er að hliðstæðum skemmtunum í nálægum löndum.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að þessu frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.