24.05.1957
Efri deild: 109. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

175. mál, vísindasjóður

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hv. d. og hæstv. ráðh. fyrir, að hann gerði ekki aðalatvinnuveg landsins algerlega hornreka fyrir því að geta nokkurn tíma fengið nokkuð til vísindarannsókna úr þessum sjóði. Það var að mínum dómi mikil framför frá því, sem frv. kom fyrir d. Hins vegar virðist ekki hafa náð fyrir augum ráðh. eða n. að lofa þeim að vera neitt „representeraðir“ í sjóðsstjórninni, það á að halda þeim alveg utan við. Það er vitnað í, að rannsóknaráð ríkisins sé þar, og það mun eiga að vera þar sem fulltrúi atvinnulífsins í landinu. Í lögum um náttúrurannsóknir frá 1940 eru þau ákvæði, sem til eru um rannsóknaráð ríkisins. Þar er sagt, að skipa skuli þriggja manna n. til þriggja ára í senn og hún skal skipuð eftir tilnefningu þriggja stærstu þingflokkanna. Alþingi á ekki að kjósa hana. Hún á að skipast á flokkslegum grundvelli. Það á hver þingflokkur af þeim þremur stærstu, hverjir sem þeir eru hverju sinni á Alþ., að ráða sínum manninum hver í n., og hún er skipuð til þriggja ára. Hvert er svo hennar verkefni? Hennar verkefni er það fyrst og fremst að vinna að eflingu á rannsóknum á náttúru landsins. Það er númer eitt. Það er náttúra landsins, sem hún á að vinna að. Annað: Að vera ríkisstj. til aðstoðar um yfirstjórn þeirrar rannsóknastarfsemi, sem ríkið heldur uppi, og aðstoða ríkisstj. á annan hátt, eftir því sem æskilegt þykir. Hún á að aðstoða ríkisstjórnina. Og það þriðja: Hún á að gæta hagsmuna íslenzkra náttúrufræðinga gagnvart útlendingum, sem vilja rannsaka landið. Og það fjórða: Henni er skylt að leyfa þeim útlendingum, sem hér vilja koma upp og gera einhverjar rannsóknir, að gera það, hafa eftirlit með, hvað þeir geri, og halda þeim niðurstöðum, sem þeir komast að, saman. Þetta er það, sem rannsóknaráðið á að gera. Og þessi þriggja manna n., sem kosin er til þriggja ára, á svo að kjósa í stjórn til deildarinnar til að „representera“ atvinnulífið í landinu. Það er dálagleg „representasjón“, sem á að koma þar inn.

Þess vegna hef ég lagt til, að í staðinn fyrir þetta kæmi atvinnudeild. Það eru þá þrjár sjálfstæðar deildir, ein, sem á að sjá um allí, sem viðkemur landbúnaðinum, önnur fiskiðnaðinum og þriðja iðnaðinum, hver með sínum forstjóra. Þær eru að vinna að þeim málum, sem koma við þessum atvinnuvegum, og þeir eru náttúrlega ekki heldur lýðræðislega kosnir til þess, þeir eru skipaðir til þess af viðkomandi ráðherra. Það eru embættismenn ríkisins. Það eru þó fastir menn, sem hafa ákveðin tengsli við atvinnulífið, en ekki hlaupamenn, sem koma sitt árið hver, eins og er í rannsóknaráðinu.

Þess vegna sér hver heilvita maður, þó að þeir fáist ekki til að breyta þessu kannske núna af einhverri hræðslu við einhverja menn einhvers staðar úti í bæ, sem hafa unnið að samningu nál., að það er engin „representasjón“ fyrir atvinnulífið í landinu, þó að rannsóknaráðið sé þarna.

Þar að auki er það svo, að síðan rannsóknaráðið, — nei, það er of mikið sagt, það væri rétt að segja, að síðan Emil Jónsson fór úr rannsóknaráðinn, hafi það ekki reynt að hafa áhrif á nokkurn skapaðan hlut annað en útlendingana, sem koma hingað til náttúrurannsókna. Það hefur haft samband við þá. Það hefur leyft þeim, hvað þeir mættu gera, og það var reynt að fá upp þær niðurstöður, sem þeir hafa komizt að, og halda þeim saman. Það hefur gert það, annað ekki. En mér þætti gaman, ef ráðh. vildi nefna eitt, bara eitt dæmi um það, að þeir hafi að einhverju leyti einhvern tíma skipt sér af atvinnulífinu í landinu, síðan Emil Jónsson fór úr því, að þeir hafi t.d. óskað eftir því, að það væri tekin upp einhver ákveðin rannsókn um eitthvert ákveðið viðfangsefni, sem atvinnulífið kallar á, að þeir hafi t.d. lagt grundvöllinn að því, að það væri farið í síldarleit, farið að rannsaka fiskimið, rannsaka átuna í kringum landið eða að þeir hafi átt frumkvæðið að því, að rannsakað væri gagnvart mæðiveikinni, hvernig hún breiddist út og hvernig hún ætti að heftast og hvernig væri hægt að lækna hana. Ef hann getur bent á eitt atriði, sem rannsóknaráðið hefur gert og sýnir, að það sé í tengslum við hið lifandi þjóðlíf í landinu og atvinnugreinarnar, þá skal ég undireins slaka til meira eða minna af minni till. En ég skal ábyrgjast, að hann mun ekki finna eitt einasta dæmi, ekki eitt einasta. Ég er því það kunnugur. Þess vegna er það alveg út í loftið og sýnir ekkert annað en fyrirlitningu á atvinnulífinu og lítilsvirðingu, að þeir vilja láta koma inn í deildina, inn í „representasjónina“ á þessari deild, mann frá rannsóknaráði, sem hefur engin tengsl við það lifandi líf, atvinnuvegina. Það er ekkert annað.

Ég geri ráð fyrir, að þessi till. mín verði felld. Ég fell ekki frá henni og óska, að hún komi undir atkv.

Þá skal ég benda á annað atriði, úr því að ég stend upp og er farinn að tala um frv. almennt. — í 6. gr. frv. stendur: „Stjórn deildar getur þó boðið vísindamanni eða forráðamanni rannsóknarstofnunar fjárstyrk til ákveðinna rannsókna.“

Er það meiningin, að forráðamenn vísindastofnana eigi ekki að vera vísindamenn? Það getur boðið vísindamönnum það eða þá forráðamönnunum. Þeir eru ekki vísindamenu, þeir eru bara forráðamenn stofnananna. Ég hélt, að þeir ættu að vera vísindamenn líka og að það væri bara hortittur þarna í lögunum og ekkert annað.