24.05.1957
Neðri deild: 108. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

175. mál, vísindasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og var samþ. þar við 3. umr. síðdegis í dag með shlj. atkv. deildarmanna.

Ég ætla ekki að fjölyrða um meginefni frv., en læt mér nægja að vísa í þessu sambandi til þeirrar grg., sem frv. fylgir. Ég skal aðeins geta þess, hvaða breyt. hv. Ed. gerði á frv., allar með shlj. atkv. Bætt var inn í frv. ákvæði um, að a.m.k. 5% af árlegum tekjum sjóðsins skuli lagt í sérstakan sjóð, er nefnist stofndeild vísindasjóðs. Höfuðstólinn á aldrei að skerða, en heimilt er að verja vöxtum af fé stofndeildar til almennrar starfsemi sjóðsins. — Þá var bætt þremur greinum inn í upptalningu þeirra fræðigreina, sem raunvísindadeild sjóðsins skal ætlað að styrkja. — Þá var fækkað í yfirstjórn sjóðsins, úr 7 mönnum í 5. — Að síðustu var gerð smávægileg breyting á stjórn annarrar deildar sjóðsins, hugvísindadeildarinnar, þannig að þeim fulltrúum, sem tilnefndir skyldu vera af heimspekideild háskólans, var fækkað úr 2 í 1, en í staðinn gert ráð fyrir, að einn sé kosinn af fundi fulltrúa frá vísindastofnunum og félögum, sem fást við rannsóknir á sviði hugvísinda.

Þessar breytingar allar voru samþ. shlj. í hv. d. og frv. afgreitt shlj. úr deildinni.

Ég vil því leyfa mér að óska þess, að frv. fái greiðan gang gegnum þessa deild, og vænti þess, herra forseti, að því verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. menntmn.