28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

175. mál, vísindasjóður

Frsm. meiri hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta felur í sér nýmæli, að stofna skuli sérstakan sjóð, sem ber nafnið vísindasjóður, og skulu tekjur sjóðsins a.m.k. vera 800 þús. kr. árlegt framlag. Þessara tekna verður aflað samkvæmt ákvæðum um skemmtanaskatt í frv., sem verið var að afgr. hér á þessum fundi. Tekjum þeim, sem safnast í þennan sjóð, verður varið til þess að styðja vísindarannsóknir, bæði svonefnd raunvísindi og hugvísindi, en stjórn sjóðsins ákveður skiptingu fjárins milli þessara deilda.

Það getur ekki leikíð á tveim tungum, að verkefni á því sviði, sem sjóðnum er ætlað að styrkja, eru mjög mikil og margþætt í þessu landi. Í sambandi við aukna tækni og nýjar vísindagreinar hljóta þau verkefni að verða æ fjölþættari, eftir því sem tímar liða. Þegar litið er til þess m.a., að nú eru aðeins um það bil 50 ár síðan raforkan var fyrst tekin í þjónustu þessarar þjóðar, og borið er saman við það, hve mikil áhrif hún hefur nú á líf manna og veitir mikil þægindi, þá má gera sér í hugarlund, hve kjarnorkan geti orðið ríkur þáttur í lífi manna á næstu áratugum. En með frv. þessu er einmitt að því stefnt að hlynna að þeim rannsóknum, sem eru á byrjunarstigi í okkar þjóðfélagi á sviði kjarnorkuvísindanna. Ég hygg því, að það muni engum hv. þm. blandast hugur um, að hér er um mjög merkilegt mál að ræða, og er það till. meiri hl. menntmn. þessarar deildar, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.