28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

175. mál, vísindasjóður

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til 2. umr., um stofnun vísindasjóðs, er mjög merkileg hugmynd, og það er vissulega mikil þörf á því, að til sé einhver sjóður í landinu, sem hlynnt geti að íslenzkum vísindarannsóknum á margvíslegum sviðum. Það hafa verið mjög litlir möguleikar til þess að stuðla að slíkum rannsóknum nema þá á þann máta, að einstakar smáfjárhæðir hafa verið veittar í fjárl. til styrktar ýmsum mönnum til vissra athugana, en þó er þetta í mjög litlum stíl. Jafnframt mun hafa a.m.k. einu sinni í fjárl. verið veitt fjárhæð til háskólans til þess að skapa möguleika á því, að sérfræðingar gætu sinnt ákveðnum athugunum í sinni grein, eftir að þeir hafa lokið lokaprófi, en gallinn hefur verið sá, að hér hefur þess naumast verið kostur fyrir menn, sem hafa haft áhuga á að halda áfram rannsóknum í sínu fagi, eftir að þeir hafa lokið háskólaprófi, að stunda slíkar rannsóknir. Þetta byggist á því, að þeir hafa ekki haft neina möguleika til fjáröflunar í þessu skyni, og það hefur vantað sem sagt tilfinnanlega aðstöðu fyrir þá í þessu sambandi. Þeir hafa því orðið, flestir sem prófi hafa lokið, að snúa sér að því að afla sér einhvers lífsstarfs og ráða sig þá oftast nær í þjónustu ríkisins, ef þess hefur verið kostur. Þessir menn hafa síðan verið störfum hlaðnir við sín skyldustörf og því haft miklum mun minni möguleika en ella til þess að geta sinnt ákveðnum rannsóknarefnum.

Það er vitanlega brýn nauðsyn fyrir Íslendinga, ekki síður en aðrar þjóðir, að efla hér margvíslega vísindastarfsemi, bæði raunvísindi og hugvísindi, og reyna að skapa mönnum skilyrði til þess að leita sem mestrar þekkingar í þessum vísindum.

Af þessum sökum er það mjög mikilvægt spor að mynda sjóð, sem sérstaklega hafi þetta hlutverk með höndum.

Nú er það að vísu svo varðandi styrkína til rannsóknarstofnana, að flestar þær rannsóknarstofnanir, sem hér er um að ræða, munu nú vera reknar á vegum ríkisins, eða allar slíkar stofnanir, þannig að það má segja, að það ætti að vera hlutverk fjárveitingavaldsins hverju sinni að veita slíkum stofnunum nauðsynleg fjárráð til þess að efla sína starfsemi. Ég tel því, að það sé e.t.v. ekki mikilvægasti þáttur sjóðsins að efla slíka starfsemi, heldur fyrst og fremst, eins og ég áðan gat um, að reyna að tryggja það, að efnilegir vísindamenn geti aflað sér sem viðtækastrar þekkingar og fræðslu í sínum sérgreinum og aflað þjóðinni þannig vísindaþroska, sem henni gæti að miklu gagni komið á þessari tækniöld.

Ég tel því, að það sé tvímælalaust spor í rétta átt, að sérstakur vísindasjóður sé settur á stofn. Það er hins vegar svo, eins og ég áðan gat um og áður hefur verið bent á hér í umr. um öll þessi þrjú frv., sem eru tengd hvert öðru, að þetta eru yfirgripsmikil mál, uppbygging þessarar starfsemi allrar, sem hér er um að ræða, og hefði því verið mjög mikill fengur að því, ef auðið hefði verið að athuga þessi mál betur. Mjög mikill fengur að því, ef auðið hefði verið að athuga þessi mál betur.

Nú kemur það t.d. í ljós eftir upplýsingum hv. 8. þm. Reykv. (RH), að Háskóli Íslands, sem tvímælalaust hefur þó mesta þekkingu í þessum efnum, hafi talið, að tilhögun um stjórn þessa vísindasjóðs sé ekki á allan hátt æskileg. Þegar þetta liggur fyrir og þess er gætt, að hér er um stofnun að ræða, sem tvímælalaust er eðlilegt að hlusta á till. frá og íhuga þær af gaumgæfni, þá verður því varhugaverðara að flana mjög að setningu löggjafar sem þessarar, sem lengi á að standa, því að það er vitanlega mikilvægt, að þegar frá byrjun sé fundið sem heppilegast form fyrir þá starfsemi, sem hér er um að ræða, því að það býr lengi að fyrstu gerð, eins og þar segir, og því mikil nauðsyn, að undirstaðan sé sem traustust undir þessari nýju starfsemi, sem hér er að fara af stað.

Þess hefur ekki verið kostur, eins og hv. frsm. minni hl. gat um í ræðu sinni áðan, að kynnast þeim sjónarmiðum, sem fram komu í fylgískjölum þeim, sem mér skilst að séu prentuð með nál. minni hl., og má gera ráð fyrir, að þar hefði verið að finna ýmiss konar fróðleik um þessi efni.

Ég tel það mjög miður, ef það reynist óumflýjanlegt og ef það er ætlunin að hraða svo 2. umr. um þetta mál, að ekki séu áður tök á að athuga þetta nál. Ég vil því mjög mega vænta þess, að hæstv. forseti sæi sér fært að fresta afgreiðslu málsins við þessa 2. umr. eða fresta 2. umr., þangað til þdm. hefðu haft aðstöðu til þess að kynna sér þetta nál. Það var að vísu vikið að ýmsum atriðum úr því í framsöguræðu hv. frsm. minni hl., en þó tekið fram í mörgum efnum, að í nál. eða fskj. með því væri að finna nánari upplýsingar og rökstuðning fyrir þeim sjónarmiðum, sem þar komu fram.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið, en kvaddi mér aðallega hljóðs til þess að benda á þessa staðreynd, sem hér liggur fyrir, að það virðist sem sagt svo sem háskóli landsins sé ekki alls kostar ánægður með þá skipan, sem hugsað er að hafa á þessum efnum, og mér sýnist, að það sé vissulega þess virði að kynna sér sem rækilegast það álit háskólans, áður en Alþingi afgr. löggjöf sem þessa, sem hér hefur aðeins verið til meðferðar örskamman tíma og gildir sama um eins og það frv., sem var hér rætt áðan og ég minntist á, að það er ekki tekið til umr. í þingi fyrr en á síðustu dögum þess, þegar annir eru að verða sem mestar og því erfitt um vik að setja sig svo inn í málið sem skyldi.