28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

175. mál, vísindasjóður

Björn Ólafsson:

Herra forseti. 1. gr. þessa frv. kveður svo á um, að hér skuli stofna sjóð, sem nefnist vísindasjóður. Tekjur sjóðsins eru árlegt framlag frá öðrum sjóði, sem heitir menningarsjóður, og í viðbót við þennan vísindasjóð á svo að stofna enn annan sjóð, sem á að nefnast stofndeild vísindasjóðs. Ekki er skýrt frá, í hvaða skyni sá sjóður er stofnaður. En því tek ég þetta upp úr 1. gr., að mér finnst öll þessi bygging æði einkennileg. Það er orðið áberandi bjá okkur, hversu miklar krókaleiðir eru notaðar til þess að afla fjár í alls konar sjóði, sem hið opinbera eða aðrir vilja stofna.

Auðvitað eru þessar krókaleiðir til komnar af því, að allir eru í vandræðum með að afla fjár til þeirra mörgu og ég vil segja stundum þörfu og óþörfu stofnana, sem menn vilja stofna. Þetta er aðeins staðfesting á því, að við viljum í fjárvana landi koma upp stofnunum hér á öllum sviðum, sem venjulega aðeins stóru þjóðirnar eru færar um að koma á fót og færar um að halda uppi. En við leggjum fram frumvörp, og þar ákveðum við, að þessi sjóður skal leggja fé í annan sjóð, svo að hann geti starfað, og svo á þessi sjóður að leggja fé í þriðja sjóðinn, m.ö.o., að þessi sjóður á að sjá öðrum sjóði fyrir sjóði.

Menningarsjóður, sem hér var til umr. fyrir stundu, á að sjá þessum sjóði fyrir fé. Ég tók ekki til máls, þegar menningarsjóður var til umr., en mér hefur oft runnið til rifja að sjá, á hvaða grundveill sá sjóður er byggður. Honum er nú ætlað að fá meira fé en áður, en frá byrjun hans hefur hann raunverulega lifað á eymd þjóðfélagsins. Hann hefur lifað á eymd þjóðfélagsins, og þannig er honum ætlað að lifa áfram, og honum er ætlað að halda uppi og borga 800 þús. kr. a.m.k., eftir því sem frv. segir, í vísindasjóðinn. Og þessir sjóðir, sem eiga að bera upp menninguna og vísindastarfið í landinu, standa því báðir á þeim grundvelli eymdarinnar, sem þeim er ætlað að ná fé úr til sinna starfa. — En nú er svo komið. að gert er ráð fyrir að afla menningarsjóði fjár með talsvert virðulegri hætti en verið hefur hingað til. Hann hefur að vísu haft þá heimild að fá andvirði þeirra skipa, sem boðin yrðu upp, en tekin hafa verið í sambandi við áfengismál, Það eru víst liðin mörg ár, síðan menningarsjóður hefur fengið hvalreka á sínar fjörur úr þessari átt. En nú á að afla sjóðnum miklu virðulegri tekna með því að skattleggja almennustu og ódýrustu skemmtun alls fólksins í landinu og þá sérstaklega skemmtun þeirra, sem fátækari eru. Þetta út af fyrir sig sýnir, hvað við erum komnir í miklar ógöngur með að afla þessari starfsemi til menningar og vísinda nauðsynlegs fjár. Við ætlum að leggja ofan á þá skatta, sem þegar eru fyrir og eru þungir, álag á þessar skemmtanir almennings, kvikmyndasýningarnar. Hvernig sem menn kunna að líta á það mál yfirleitt, hvort kvikmyndasýningar séu þarfar eða óþarfar, þá verður ekki fram hjá því gengið, að þetta er ein aðalskemmtun almennings, bæði ungra og gamalla, og ég verð að segja það, að ef þessar skemmtanir væru hér ekki, þá þætti skemmtanalífið afar fáskrúðugt.

Tilgangurinn með þessu frv. er vafalaust góður, mér dettur ekki í hug að hallmæla honum á nokkurn hátt. Hitt er svo annað mál, á hvaða grundveili þetta er reist. Þessi sjóður á sýnilega að vera talsvert mikið bákn. Hann á að vera skipaður 5 mönnum og af þeim eru 4 kosnir á Alþ., eins og bankastjórarnir okkar verða, áður en langt um líður. En það er ekki nóg. Sjóðurinn á ekki að gera sig ánægðan með að hafa stjórn með 5 mönnum, það á að vera 5 manna stjórn fyrir hvorri deild, 5 manna stjórn fyrir raunvísindadeildinni og önnur 5 manna stjórn fyrir hugvísindadeildinni. Svo eiga að sjálfsögðu að vera jafnmargir varamenn. Ég hef ekki séð neins staðar annars staðar svona þungt höfuð lagt á jafnveikan búk og hér er til stofnað. Kosning í aðalstjórn sjóðsins á að fara fram í Sþ. Út af fyrir sig skal ég ekki lasta það. En ég vil benda á hitt, að það er engin trygging fyrir því, þó að Sþ. kjósi þessa 4 menn, að hæfir menn séu valdir til þess að veita þessari merkilegu vísindastofnun forstöðu.

En framtíðin verður að sjálfsögðu að sýna það, hvort hér er vel ráðið að láta Sþ. kjósa á flokkspólitískan hátt menn í stjórn þessa fyrirtækis. Sjóðnum er ætlað að fá, eins og ég gat um áðan, 800 þús. kr. a.m.k. frá menningarsjóði. Mér kom í hug, þegar ég sá þetta, hvort meiningin væri, að starfsemi menningarsjóðs væri haldið áfram einungis til þess að afla tekna í þennan sjóð. Þó að menningarsjóður fái talsverðar tekjur með þeim aðferðum, sem í frv. greinir, þá tel ég mjög vafasamt, að mikið verði eftir í hans sjóði, þegar búið er að taka 800 þús. kr. eða meira til vísindasjóðs. Og ég segi þess vegna: Er þá verið að veikja starfsemi menningarsjóðs til þess að stofna þennan nýja sjóð? Úr því verður að sjálfsögðu reynslan að skera í framtíðinni, hvort svo er. En ef svo væri, þá tel ég heldur óviturlegt að haga fjáröflunaraðferðinni eins og hér er gert.

En ég vil þá spyrja: Hvað eru 800 þús. kr. fyrir svona stofnun með þremur stórum nefndum eða ráðum til þess að stjórna henni, stofnun, sem á að standa undir allri vísindarannsókn og vísindaframkvæmd í landinu? Ætli það komi ekki á daginn, að þessar 800 þús. kr. muni hrökkva skammt og ekki sízt, þegar krónan er alltaf að minnka með hverjum mánuði?

Ég er út af fyrir sig ekki að deila á þá hugmynd, sem liggur til grundvallar fyrir þessu frv. eða fyrir þessum sjóði, eða deila á þá aðferð, sem höfð er til þess að stofna slíka sjóði sem þessa. En það er eins og ég sagði í byrjun, að okkur hættir við að halda, að við getum leyft okkur það sama og milljónaþjóðirnar, og viljum halda uppi sjálfstæðu þjóðfélagi á borð við þær, þótt við séum minnsta þjóð heimsins. Okkur hættir til þess að ætla að halda uppi öllu, sem hin stóru þjóðfélag verða að halda uppi. Það hefur líka komið á daginn, að við höfum oft reist okkur hurðarásinn um öxl með slíkum framkvæmdum, sem hefur komið fram í því, að sett hafa verið lög og ákveðnar hafa verið tekjulindir í sambandi við ýmsar framkvæmdir, en aldrei orðið neitt úr þeim, vegna þess að ekki var bolmagn til þess.

Ekki er því furða, þótt spurt sé, hvort þetta sé ekki ný yfirbygging á okkar yfirbyggða þjóðfélagi. Ég held því miður, að þetta, sem hér er til stofnað, verði a.m.k. fyrst um sinn hvorki fugl né fiskur, og eins og hv. frsm. minni hl. tók fram, væri æskilegt. að málið gæti fengið frekari athugun. Málið hefði gott af því að sofa í eitt ár. Margt lagfærist meðan sofið er. Ég segi ekki þetta af því, að málið sé ekki í sjálfu sér gott, heldur vegna þess, að það er ekki nógu vel undirbúið.