08.04.1957
Efri deild: 84. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

157. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt samkv. tilmælum Háskóla Íslands og hefur verið undirbúið af sérstakri nefnd.

Í ársbyrjun 1954 tók til starfa fimm manna n., sem háskólaráð skipaði og falið var að endurskoða lög og reglugerðir um Háskóla Íslands. Haustið 1955 skipaði þáverandi menntmrh., Bjarni Benediktsson, sjötta nefndarmanninn í n., og var hann jafnframt skipaður formaður nefndarinnar. Í n. áttu upphaflega sæti, tilnefndir af háskólaráði, prófessorarnir Ármann Snævarr, Björn Magnússon, Júlíus Sigurjónsson, Leifur Ásgeirsson og Þorkell Jóhannesson. Þeir prófessorarnir Leifur og Þorkell viku úr n. eftir nokkurn tíma, en háskólaráð kvaddi þá í nefndina í staðinn þá prófessorana Finnboga R. Þorvaldsson og Steingrím J. Þorsteinsson. Fulltrúi menntmrh., sem jafnframt var formaður í n., var dr. Benjamín Eiríksson.

Í þessu frv. eru ýmis nýmæli. Er um að ræða heildarendurskoðun á gildandi lögum um háskólann og þá jafnframt felld úr gildi öll þau mörgu lög, sem nú gilda um stofnunina. Mun ég í fáeinum orðum rekja helztu breytingarnar, sem í frv. felast, frá núgildandi lögum.

Í II. kafla frv. eru ákvæði um stjórn háskólans. Þau eru allmiklu fyllri en ákvæðin, sem nú gilda um þessi efni í lögum og reglugerð.

2. gr. frv. fjallar um starfssvið rektors. Hér er um nýmæli að ræða, því að ákvæði um starfssvið rektors eru ekki í gildandi lögum eða reglugerð.

Í 4. gr. eru ákvæði um varamenn deildarforseta, er taki sæti í háskólaráði, ef deildarforseti er forfallaður eða vanhæfur til að taka þátt í úrlausn mála. Það er og nýmæli í þessari sömu gr., að heimilt sé að kveðja fulltrúa stúdenta á fundi háskólaráðs, og skulu þeir hafa þar málfrelsi. Fyllri ákvæði eru og um starfssvið háskólaráðs en þau, sem nú gilda. Gert er ráð fyrir, að háskólaráð teljist ekki ályktunarfært, nema 2/3 hlutar háskólaráðsmanna sæki fund, en skv. núgildandi lögum nægir, að helmingur ráðsmanna sæki fund, til þess að hann sé lögmætur. Þá eru í kaflanum ákvæði um almenna kennarafundi, og eru þau ákvæði nýmæli. Ályktanir slíkra funda eru þó ekki bindandi fyrir háskólaráð, aðeins ráðgefandi.

III. kafli frv. fjallar um háskólakennara og háskóladeildir. Í kaflanum eru nokkur nýmæli. Skv. 9. gr. frv. eru deildir háskólans taldar fimm, en samkv. gildandi lögum eru þær taldar sex. Skv. frv. er því atvinnudeild háskólans ekki talin með deildum skólans, enda hefur hún ekki verið í neinum skipulagslegum tengslum við háskólann, þó að hún hafi verið kölluð háskóladeild skv. lagabókstaf. Þá er og breytt um nafn á laga- og hagfræðideild og hún nefnd laga- og viðskiptadeild, sem er eðlilegra, samkvæmt hlutverki viðskiptafræðikennslunnar í deildinni. Þá er og það nýmæli í þessari sömu grein, að laga- og hagfræðideild skuli skipt, þ.e. viðskiptadeild skilin frá lagadeild, þegar þrjú föst kennaraembætti hafa verið stofnuð þar, en nú eru föstu kennaraembættin aðeins tvö.

Í 10. gr. eru talin kennaraheiti við háskólann. Auk kennaraheitanna prófessor, dósent og aukakennari, sem eru í núgildandi lögum, eru þar nefnd kennaraheitin lektor, aðstoðarkennari og erlendur sendikennari. Er hlutverk hverrar kennarategundar um sig skýrgreint nokkru nánar. Aðalatriðið í þessu efni er, að gert er ráð fyrir, að eðli dósentsembætta breytist mjög verulega frá því, sem verið hefur. Nú eru föst kennaraembætti við háskólann tvenns konar, prófessorsembætti og dósentsembætti, og nokkur launamunur á, en munur að því er snertir starfsskyldu enginn og réttarstöðu nær enginn, í raun og veru aðeins sá, að prófessorar einir eru kjörgengir við rektorskjör. Nú er gert ráð fyrir, að reglulegir kennarar við háskólann, hinir eiginlegu háskólakennarar, verði prófessorar. Dósentsheitið er hins vegar ætlað þeim háskólakennurum, sem að vísu eru skipaðir til ótiltekins tíma, en gegna þó jafnframt öðru aðalstarfi.

Í 11. gr. er fjallað um veitingu prófessorsembætta og annarra kennaraembætta við háskólann. Þess er í því sambandi fyrst að geta, að gert er ráð fyrir, að háskólaráð annist ráðningu lektora, aukakennara og aðstoðarkennara skv. tillögum háskóladeilda. Skv. núgildandi lögum ræður ráðherra slíka aukakennara á eindæmi. Þó er gert ráð fyrir, að ráðh. ráði tölu þessara aukakennara. Hins vegar eru látin haldast að mestu óbreytt núgildandi reglugerðarákvæði um veitingu prófessorsembætta, en þau hins vegar gerð að lagaákvæðum. Ákvæðin eru þó færð til samræmis við framkvæmd reglugerðarákvæðisins á undanförnum árum.

Reglurnar um veitingu kennaraembætta við háskólann voru löngum mikið deiluefni, en fullur friður og algert samkomulag hefur undanfarin ár verið milli menntmrn. annars vegar og háskólans hins vegar um þá skipun, sem fyrir nokkrum árum var upp tekin í reglugerð. Vegna þeirrar góðu reynslu, sem á þessa skipun er fengin, þykir eðlilegt, að þessar reglur verði teknar í löggjöfina sjálfa.

Í 12. gr. eru tvenns konar nýmæli. Þar er ráðherra heimilað að bjóða vísindamanni að taka við kennaraembætti við háskólann, án þess að það sé auglýst laust til umsóknar. Hitt nýmælið er það, að ráðh. er heimilað að auglýsa kennaraembætti laust til umsóknar, svo að embættið verði veitt ári áður en hinn nýskipaði kennari hefur kennslu sína. Notkun beggja heimildanna er þó bundin við, að samþykki viðkomandi háskóladeilda komi til.

Í 13. gr. frv. er kveðið svo á, að deildarforsetar skuli kjörnir til tveggja ára í senn, en skv. núgildandi lögum eru þeir aðeins kjörnir til eins árs í einu. Þá eru og nýmæli um kjör varaforseta deilda svo og fyllra ákvæði en nú er um kjör deildarforseta.

Í 15. og 16. gr. eru ýtarleg ákvæði um deildarfundi, hverjir eigi rétt á að sitja þá, og er þar m.a. heimilað að leyfa fulltrúum stúdenta setu á deildarfundum.

IV. kaflinn fjallar um kennslu og nemendur. Í 17. gr. er gert ráð fyrir, að háskólaráð geti með samþykki ráðherra ákveðið aðra missiraskiptingu en nú er fyrir tilteknar greinar eða deildir. Þetta er nýmæli. Annars er núverandi kennsluári og missiraskiptingu haldið.

Skv. núgildandi lögum ákveður hver háskóladeild, hve margar stundir hver háskólakennari skuli kenna, en skv. 18. gr. þessa frv. ákveður háskólaráð, að fenginni umsögn háskóladeilda, kennsluskyldu einstakra háskólakennara. Úrskurði háskólaráðs í þessu efni má áfrýja til ráðherra. Í 18. gr. er annað nýmæli, það, að rektor á rétt á að vera leystur undan allt að helmingi þeirrar kennslu, sem honum var skylt að hafa með höndum, er hann tók við rektorsembætti, en svo sem nú er, mun rektor háskólans vera eini skólastjóri í landinu, sem gert er ráð fyrir að hafi óbreytta kennsluskyldu þrátt fyrir skólastjórnarstörf sín.

Í 19. gr. eru ýtarlegri ákvæði en nú eru í gildi um lausn undan kennsluskyldu um lengri eða skemmri tíma.

20.–26. gr. fjalla um skyldur og réttindi stúdenta. Eru þessi ákvæði allmiklu fyllri en ákvæði núgildandi laga og reglugerðar. Stefna ákvæði frv. að því að heimila stjórn háskólans aukið aðhald að nemendum, en jafnframt að hinu að auka réttaröryggi stúdenta, t.d. að því er varðar brottrekstur úr skóla.

V. kafli fjallar um próf.

Í 28. gr. er það nýmæli, að heimilt er að mæla svo fyrir í reglugerð, að missirisleg eða árleg próf skuli haldin í deild skv. till. deildarinnar í þeim námsgreinum, sem kenndar hafa verið á tímabilinu, öllum eða nokkrum.

Skv. 32. gr. geta einstakar deildir samþykkt að hafa einn prófdómara úr hópi deildarkennara, en gert er ráð fyrir, að ráðherra skipi þá prófdómendur, sem eru ekki háskólakennarar, samkv. tillögum háskóladeildar, eins og verið hefur.

Gert er ráð fyrir í frv., að skipunartími prófdómenda skuli vera þrjú ár, en hann er sex ár skv. núgildandi lögum.

VI. kafli fjallar um doktora og meistara. Samkv. 34. gr. frv. má aðeins veita doktorsnafnbót í heiðursskyni með einróma samþykki atkvæðisbærra deildarmanna og með samþykki háskólaráðs. Ákvæði frumvarpsins um, að samþykki deildarmanna skuli vera einróma, er nýmæli.

Í 38. gr. er háskólaráði skv. tillögum háskóladeilda veitt heimild til að leyfa kandídötum að ganga undir svonefnt meistarapróf, og er því ætlað að verða hliðstætt svonefndu licensiatprófi, sem tíðkast sums staðar á Norðurlöndum.

VII. kaflinn fjallar um stofnanir háskólans og eigur hans. Þar segir, að háskólaráð skuli hafa yfirumsjón með einstökum háskólastofnunum, svo sem háskólabókasafni, happdrætti og kvikmyndahúsi. Hér er ekki um að ræða breytingu frá því, sem verið hefur. Í gr. er hins vegar það nýmæli, að svo er kveðið á, að ef háskólabókavörður kenni bókasafnsfræði við háskólann, taki hann sömu laun og prófessorar, en samkv. núgildandi launalögum tekur háskólabókavörður laun einum launaflokki fyrir neðan prófessora. Þetta er einungis samkv. nýjustu launalögunum. Samkv. þeim, sem áður giltu, samkv. l. frá 1946 um háskólabókavarðarembættið, er það var stofnað, átti háskólabókavörður að fá sömu laun og prófessorar. Þetta mundi þó ekki hafa neinn kostnaðarauka í för með sér, vegna þess að búið er að gera bókasafnsfræði að skyldunámsgrein til BA-náms og aukakennsla í þeirri grein mundi kosta meira keypt að en nemur mismun á launum háskólabókavarðar, eins og þau eru nú, og prófessorslaunum.

Annað ákvæði miðar og að því að gera háskólabókavörð jafnsettan prófessorum, þ.e. að hann skuli framvegis skipaður af forseta Íslands, en ekki ráðh. eins og nú er.

VIII. kafli frv. fjallar um kennaraembætti og kennarastöður við háskólann. Gert er ráð fyrir því í frv., að tala prófessora við háskólann haldist óbreytt að öðru leyti en því, að stofnað verði eitt nýtt prófessorsembætti í lyfjafræði í læknadeild, og stendur það í sambandi við sameiningu Lyfjafræðingaskóla Íslands við háskólann, svo sem ég mun nánar víkja að á eftir.

Stofnun þessa prófessorsembættis hefur engan kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð, ef gert er ráð fyrir því, að sú skipan haldist, að tengsl séu á milli lyfjafræðikennslunnar í háskólanum og stjórnar lyfjaverzlunar ríkisins. Svo sem kunnugt er, gegnir nú sami maðurinn þessum tveimur störfum, þ.e. forstöðu lyfjaverzlunar ríkisins og kennslu í lyfjafræði við háskólann, og mundu launakjör hans ekki breytast, þó að þessi skipun yrði upp tekin, ef skipulagsháttunum verður haldið óbreyttum.

Þá er það nýmæli í 40. gr., að ef skipaður prófessor óskar eftir, að aðalkennslugrein hans verði breytt, er prófessorsembætti verður laust í deild hans, getur ráðh. heimilað breytinguna með samþykki hlutaðeigandi háskóladeildar.

Í 41. og 43. gr. eru síðan nýmæli um kennslu í lyfsölufræði við háskólann. Þessi kennsla er með frv. tengd háskólanum, en til þessa hefur hún verið í höndum sjálfstæðs skóla, Lyfjafræðingaskóla Íslands. Skólastjóri hans hefur verið kennarinn í lyfjafræði við háskólann, en kennsluna hefur einkum annast eftirlitsmaður lyfjabúða. Gert er ráð fyrir því, að sú skipun haldist óbreytt, að eftir sameiningu lyfjafræðingaskólans við háskólann verði kennslan eftir sem áður í höndum eftirlitsmanns lyfjabúða, sem þá væntanlega mundi verða dósent, en prófessornum í lyfjafræði, ef sú breyting nær fram að ganga, er ætlað að hafa yfirstjórn lyfjafræðikennslunnar með höndum, svo sem nú á sér stað, þar sem hann er skólastjóri Lyfjafræðingaskóla Íslands.

Í nokkrum atriðum er þetta frv. frábrugðið því, sem nefnd háskólans hafði lagt til. Meginbreytingin, sem menntmrn. gerði á till. háskólanefndarinnar, var fólgin í því, að í þessu frv. er gert ráð fyrir að láta haldast þá skipun, sem nú um hríð hefur verið á veitingu kennaraembætta við háskólann, þar sem ég tel, að sú skipun hafi þegar hlotið nokkra hefð og hafi gefizt vel. Nefndin vildi gera nokkrar breytingar á þessum ákvæðum.

Í frv. n. var þannig gert ráð fyrir því, að menntmrh. skipaði dósenta samkv. till. háskóladeilda. í stað orðanna „samkv. tillögum“ stendur í frv.: að fengnum tillögum. —– Í frv. n. var enn fremur það ákvæði, að dómnefnd skyldi skipa umsækjendum í röð eftir hæfni og að veitingavaldinu væri skylt að veita umsækjanda prófessorsembætti, ef dómnefnd hefði einróma talið hann hæfastan, enda hafi meiri hluti atkvæðisbærra deildarkennara lagt til, að þessi umsækjandi yrði skipaður. Ég tel heppilegra að hafa um þetta sömu reglu og gilt hefur og varhugavert að taka inn í lög ákvæði, sem bindi veitingavaldið algerlega. Slík ákvæði hefðu orðið einsdæmi í lögum, og hefði mátt gera ráð fyrir deilum um þetta efni. Þær tel ég ekki heppilegt að vekja upp og því skynsamlegast að halda þeirri skipan, sem verið hefur undanfarin ár og virðist hafa gefið góða raun. Þó hafa ákvæði frv. verið færð til samræmis við framkvæmd reglugerðarákvæðisins, og ætti það ekki að geta valdið neinum ágreiningi.

Í frv. n. var ákvæði um, að heimilt væri að mæla svo fyrir í reglugerð, að nemendum, sem brautskráðir yrðu frá Kennaraskóla Íslands, sé rétt að stunda tilteknar námsgreinar til BAprófs. Þetta ákvæði er ekki tekið í frv. það, sem hér liggur fyrir, og stendur það í sambandi við það, að menntmrn. hefur í hyggju að láta á sumri komanda endurskoða fræðslulögin og lögin um menntun kennara og þá um leið námsefni til kennaraprófs og bætt skilyrði til framhaldsmenntunar kennara. Finnst mér eðlilegra, að þessi atriði komi til athugunar í sambandi við hina almennu endurskoðun fræðslulaganna og laganna um menntun kennara en að um þau séu ákvæði í lögum um háskólann.

Í frv. n. var einnig ákvæði um, að engan kennara mætti þiggja undan kennsluskyldu lengur en 4 ár í senn. Þetta ákvæði var fellt niður úr frv.

Þar var einnig ákvæði um, að prófessorar í læknisfræði skyldu vera sjö. Hins vegar er lagt til í frv., að þeir séu átta, í samræmi við það, sem ég áðan ræddi um stofnun nýs prófessorsembættis í lyfjafræði.

Þá var og bætt inn í frv. þeim ákvæðum, sem ég áðan lýsti og leiðir af fyrirætlunum um að sameina lyfjafræðingaskólann læknadeild háskólans.

Með þessum orðum hef ég gert grein fyrir því tvennu, hvaða meginbreytingar felast í þessu frv. frá gildandi lögum og hvaða munur er á þessu frv. og till. þeirrar nefndar, sem háskólaráð hafði skipað á sínum tíma.

Þess er mjög óskað, bæði af menntmrn. og háskólaráði, að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi. Á grundvelli þess mundi síðan vera samin reglugerð, sem mjög æskilegt er að gæti tekið gildi, áður en kennsla hefst næsta haust.

Það eru því tilmæli mín til þessarar hv. d. og þeirrar nefndar, sem málinu verður væntanlega vísað til og ég legg til að verði menntmn., að afgreiðslu málsins verði hraðað, þannig að það geti hlotið afgreiðslu á þessu þingi.