13.05.1957
Efri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

157. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs í tilefni af þeim ummælum hv. 6. þm. Reykv., að brtt. þær, sem hann ásamt öðrum hv. þingmanni hefur flutt á þskj. 523, séu fluttar skv. óskum háskólaráðs, og endurtekningu hans á því aftur í niðurlagi ræðu sinnar, að með því einu móti að samþykkja þessar brtt. væri fullnægt óskum háskólans varðandi þetta mál. Þykir mér rétt að segja frá því, hvernig það frv., sem hér er til umr., varð til og hvaða viðræður fóru fram á milli háskólans og menntmrn. í því sambandi.

Frv. er upphaflega undirbúið og samið af sérstakri nefnd, sem háskólinn einn hafði í fyrstu tilnefnt menn í. Síðar hafði fyrrv. menntmrh. skipað sérstakan formann í nefndina utan háskólans, dr. Benjamín Eiríksson bankastjóra. Frv. þeirrar n. gekk til háskólaráðs, og samþykkti háskólaráð frv. n. og sendi það síðan með bréfi til menntmrn. Þegar ráðuneytið hafði farið yfir frv., komst það í raun um, að í því voru nokkrar breytingar, sem ráðuneytið taldi varhugavert að lagðar yrðu fyrir Alþ. og samþykktar þar. Þess vegna var efnt til fundar með fulltrúum frá háskólaráði og nefnd þeirri, sem unnið hafði að undirbúningi frv. Það, sem sérstaklega var um að ræða þar, var einmitt það atriði, sem brtt. 2. b á þskj. 523 fjallar um, þ.e. aðferðin við veitingu kennaraembætta við háskólann.

Eins og hv. þm. tók fram, er hér um að ræða viðkvæmt deilumál og engan veginn nýtt. Hann rakti það í ræðu sinni alveg réttilega, hver háttur er nú á hafður um þessi mál, og skal ég ekki endurtaka það. Jafnframt rakti hann einnig réttilega, hvernig ákvæðin voru í tillögum nefndarinnar, sem háskólaráð í fyrstu sendi til ráðuneytisins. En við þessar skýringar hv. 6. þm. Reykv. vil ég aðeins bæta því, að sú skipan, sem nú er á þessum málum, var tekin upp árið 1942 með reglugerð, sem Magnús Jónsson prófessor setti þá í fullu samráði við þáverandi háskólaráð og skv. beinni ósk þess. Eins og ég hef tekið fram áður í þessari hv. d., hefur verið fullur friður um þessa skipan s.l. 14 ár, um þá skipan, sem einn af starfsmönnum háskólans, sem þá um skeið gegndi embætti menntmrh., setti í fullu samráði við stofnunina og að því er ég held eftir beinum tillögum hennar. Síðan hafa þrír menntmrh. setið, þeir Einar Arnórsson, Björn Ólafsson og Bjarni Benediktsson. En af hálfu þingflokka hafa ekki fleiri menn gegnt embætti menntmrh. en Björn Ólafsson og Bjarni Benediktsson. Hvorugur þeirra hefur nokkru sinni stungið upp á því, að slík breyting yrði gerð á þessari skipan sem lagt er til í þessari till., að gerð yrði. Háskólinn hefur mér vitanlega ekki borið fram um það neina ósk á þessu skeiði síðan 1942, — það liggur a.m.k. ekki fyrir í menntmrn., — að þessum reglum um embættaveitingar verði breytt.

Um þetta ræddum við fulltrúar háskólans á fundi, sem við áttum um málið, og tjáði ég þeim þar, að ég væri reiðubúinn fyrir mitt leyti til þess að stuðla að því, að þau ákvæði, sem nú eru aðeins reglugerðarákvæði og ráðherrar geta því breytt hvenær sem er, skuli gerð að lagaákvæðum, eins og gert er í frv. hér. Hins vegar treysti ég mér ekki til þess að gera viðtækari breytingu á málinu, enda væri ég þess fullviss, að með till. um það væri vakið upp mjög viðkvæmt deilumál, sem mundi valda miklum umræðum í þinginu og mjög líklegt væri til þess að stefna öllu málinu í hættu. Þetta varð til þess, að samkomulag varð um það á fundi, sem haldinn var í menntmrn., þar sem staddir voru rektor háskólans, prófessor Þorkell Jóhannesson, og prófessor Ármann Snævarr, sem er einn aðalhöfundur frv. og átti sæti í nefndinni, sem það samdi, að frv. skyldi lagt fram í því formi, sem stjórnarfrumvarpið nú hefur.

Í umsögn þeirri, sem hv. 6. þm. Reykv. vísaði til, var aðeins rætt málefnalega, hvaða munur væri á stjfrv. og upphaflegu nefndartillögunum, sem háskólaráð hafði í upphafi samþykkt, áður en það sendi málið til menntmrn. Hins vegar kom í því bréfi ekki fram, að viðræður hefðu farið fram milli menntmrn. og háskólans, þar sem samkomulag varð um að hafa málið í því formi, sem stjfrv. hefur. Á þessu var ráðin bót með öðru bréfi, sem hv. 6. þm. Reykv. gat ekki um í ræðu sinni og ég vildi því, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa eina setningu úr, en hún hljóðar svo:

„Háskólaráð benti í fyrri umsögn sinni á fáein atriði, sem eru á annan veg í frv. um Háskóla Íslands en hinu upphaflega frv. nefndar þeirrar, sem í fyrstu fjallaði um málið. Þetta var fyrst og fremst gert í því skyni, að hv. menntmn. gæti betur áttað sig á þessum breytingum, sem að vísu er vikið að í greinargerð, en ekki raktar þar nánar. En þótt hér komi fram nokkur skoðanamunur um fáein atriði, fæst þó mikilvæg nema 7. gr. og 1. og 4. málsgr. 11. gr. frumvarpsins, vill háskólaráðið taka það fram, að það vill fyrir sitt leyti ekki láta ágreining um þessi atriði tefja framgang þess.“

Samkv. þessu bréfi og raunar viðræðum við forvígismenn háskólans ber að líta svo á sem stuðningur háskólans sé fyrir hendi við málið, í þeim búningi, sem það hefur í stjfrv. Ef málið hefði ekki haft stuðning háskólans, eins og það var lagt fram, hefði ég ekki lagt það fram.

Ég skal annars ekki ræða það gamla deiluatriði, hvort veitingarvaldið eigi frekar að vera í höndum ráðherra eða háskólans sjálfs. Það má ýmis rök fram færa fyrir báðum þeim skoðunum, sem uppi eru og alkunnar eru. Það, sem ég þó tel hafa úrslitaþýðingu í þessu sambandi, er, að ég tel pólitískan aðila hljóta að verða að bera hina endanlegu ábyrgð á ráðstöfun jafnmikilvægra embætta og háskólakennaraembætti eru. Ef hið raunverulega veitingarvald væri algerlega í hendi háskólans, og á í rauninni sama við um ýmsar aðrar hliðstæðar stofnanir, þá er þess að gæta, að þeir aðilar, sem þá bæru ábyrgð á veitingu embættanna, geta ekki borið neina pólitíska ábyrgð á ráðstöfunum sínum. Þótt þeir gerðu rangt, eins og alla menn getur hent, þá eru engin skilyrði til þess að gera þá ábyrga fyrir gerð sinni. Þeir eru skipaðir embættismenn og halda skipun sinni, halda þeim rétti sínum, hvað svo sem þeir kunna að hafa gert. Jafnframt er ekki til almennur vettvangur til að gagnrýna þá fyrir þá ráðstöfun, sem öðrum aðilum í þjóðfélaginu kann að þykja röng og þeir vilja gagnrýna. Allt öðru máli gegnir um stjórnmálamann, um pólitískan ráðherra. Honum er skylt að gera grein fyrir gerðum sínum varðandi embættaveitingar — sem og öðrum gerðum sínum — á Alþingi. Þar ber hann pólitíska ábyrgð. Þar er hann opinn fyrir gagnrýni, opinberri gagnrýni, og ef hann gerir verk, sem er talið rangt, sem meiri hl. á Alþingi telur rangt, þá eru skilyrði til þess að láta hann gjalda þess verks með því að fella hann. Þetta er eðli hinna pólitísku valdhafa í lýðræðisþjóðfélagi.

Þetta tel ég vera úrslitarökin fyrir því, að höfð er sú skipun, sem hér er og annars staðar í lýðræðisþjóðfélögum, að hið endanlega vald er hjá pólitískum aðila, sem er opinn fyrir gagnrýni og ber ábyrgð, þá þyngstu ábyrgð, sem hægt er að bera á því sviði, þ.e. þá að verða að una því að vera sviptur völdum, ef hann misbeitir þeim.

Hitt er svo allt annað mál, að ég tel sjálfsagt af hinu pólitíska valdi að taka fullkomin fagleg tillit við beitingu þessa valds, raunar ekki aðeins við veitingu háskólakennaraembætta, heldur við veitingu allra embætta.

Það hafa ekki, síðan núv. skipun var upp tekin, orðið neinar alvarlegar deilur milli veitingarvaldsins og háskólans, og ég hygg, að ekki þurfi að óttast þær, ef þessi skipun, sem nú er, fær að þróast í friði. A.m.k. hygg ég, að engin ástæða sé til þess að óttast deilur milli háskólans og veitingarvaldsins, meðan ég gegni því embætti, sem ég gegni núna. Það haggar ekki þeirri staðreynd, að ég tel samkv. venjulegum og heilbrigðum lýðræðisreglum hið endanlega vald hljóta að vera hjá stjórnmálaaðila, sem hefur skyldu til þess að bera á gerðum sínum fullkomna pólitíska ábyrgð.