11.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

Rannsókn kjörbréfa

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera grein fyrir afstöðu Alþýðubandalagsins í þeirri deilu, sem nú fer fram um kjörbréf þeirra þm. Alþfl, hinna landskjörnu, sem meirihluta- og minnihlutaframsögumenn í kjördeildunum nú hafa rætt allýtarlega um.

Það er álit okkar, að fyrirmæli stjórnarskrárinnar um, að allt að 11 þm. skuli kosnir til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þingflokkanna hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar, sé það sjónarmið, sem eigi að ráða, þegar ákveðið er um, hvernig landslistum sé hagað við kosningar. Við álítum, að andi stjórnarskrárinnar í þessum efnum sé ótvíræður. Hins vegar skal það vissulega viðurkennt, að kosningalögin, eins og þau eru, eru allgötótt. Ég skal meira að segja gjarnan viðurkenna það, að það muni vera allerfitt að gera kosningalögin þannig úr garði, að maður geti alltaf verið öruggur um, að þessum anda stjórnarskrárinnar sé framfylgt, þó að hins vegar sé sjálfsagt að reyna að gera slíkt.

Hvað snertir alveg sérstaklega afstöðuna í sumar við kosningarnar, sem þá fóru fram, þá gerði það að áliti Alþýðubandalagsins það ótvírætt, að landskjörstjórn ætti að úrskurða lista Alþfl. og Framsfl, sem einn lista, að þessir flokkar höfðu þá lýst því yfir, að þeir hefðu með sér algert kosningabandalag, buðu fram saman í öllum kjördæmum, stóðu hvergi hvor á móti öðrum, lýst yfir, að þeir mundu raunverulega vera einn þingflokkur, og höfðu eina stefnuskrá. Ég skal viðurkenna, að það hefði strax verið miklu erfiðara fyrir landskjörstjórn að kveða upp þann úrskurð t. d. og ómögulegt að öllum líkindum, að þessir flokkar væru skoðaðir sem einn landslisti, svo framarlega sem þeir hefðu í einu einasta kjördæmi boðið fram hvor á móti öðrum. Það var þess vegna okkar skoðun, að landskjörstjórn bæri að úrskurða þessa flokka þá sem einn þingflokk.

Við verðum í þessu efni að gá að því, að landskjörstjórn hefur fengið það mikla verkefni í hendur að standa vörð um anda stjórnarskrárinnar í þessum efnum, að leggja þannig grundvöll að kosningunum, haga þannig til með sérstaklega landslistana, sem hún á að dæma um, að kjósendurnir viti, að hverju þeir ganga. Það er á ábyrgð landskjörstjórnar að sjá um, að allur undirbúningur undir kosningarnar, allur tilbúningur landslista o. s. frv., sé í samræmi við stjórnarskrána. Það er landskjörstjórnar að sjá um, að kosningin fari fram í samræmi við tilgang stjórnarskrárinnar, og það er landskjörstjórnar að sjá um, að kjósendur geti treyst því, að það, sem þeir kjósa, standist líka á eftir. Þetta er það veigamikla verkefni, sem landskjörstjórn hefur. Hennar vald og hennar ábyrgð er í þessu mjög mikil. Einmitt einn landskjörstjórnarmaður, Vilmundur Jónsson, segir í sínu áliti, þegar hann kvað upp og lét álit sitt í ljós á þessum málum:

„Landskjörstjórn hlýtur að telja sér skylt að halda vörð um þau fyrirmæli stjórnarskrár og kosningalaga svo og anda þeirra fyrirmæla og tilgang, að uppbótarsætum verði úthlutað til raunhæfrar jöfnunar milli þingflokka.“

Það er þess vegna engum efa bundið, að vald og ábyrgð landskjörstjórnar í þessum efnum er mjög mikið og ábyrgð þeirra aðila, sem þar ráða, þess vegna mjög þung, því að við verðum að gá að því, að eins og þeir leyfa listana og ganga frá þeim, eins verður eðlilega kosið af kjósendum. Þeir skapa staðreynd, sem kjósendur nokkurn veginn vita að þeir muni verða að halda sér við. Allra mest er þó ábyrgð landskjörstjórnar í einu efni í þessu sambandi, og það er að tryggja, að ekki sé hægt að misnota kosningalögin þannig, að hægt sé að ná meiri hluta á þingi með minni hluta hjá þjóðinni. Með slíku og með því að seilast eftir slíku er sjálfu lýðræðinu, sjálfum rétti meiri hluta kjósenda til þess að ráða landinu, hins vegar stefnt í voða. Og framar öllu ber að hafa í hyggju að afstýra slíku, þegar verið er að kveða upp dómana, hvort heldur er hjá landskjörstjórn eða á Alþingi, um þessa hluti. Vald og ábyrgð landskjörstjórnar er þess vegna mjög mikil í þessum efnum, eins og ég nú hef greint.

Nú hefur einn þm, Sjálfstfl. verið nokkuð að sveigja að Alþýðubandalaginu í þessum efnum um, hvernig nú muni standa til um afstöðuna hvað snerti hvernig litið verði á kjörbréf þessara umdeildu þingmanna. Ég vil svara því til: Hvaða aðili var það, sem fyrst og fremst fór með vald landskjörstjórnar í sumar, þegar ákvörðunin var tekin um, á hvaða grundvelli menn skyldu fá að kjósa? Hvaða aðili var það, sem réð þeim úrskurði, sem þá var kveðinn upp og kjósendur þess vegna auðsjáanlega hafa gengið út frá að þeir gætu haldið sér að, þó að ýmsir væru á þeirri skoðun, eins og m. a. við, að úrskurðurinn væri ekki réttur? Sá aðili, sem réð úrskurði landskjörstjórnar í sumar, var Sjálfstfl. og hans fulltrúar. Það er vitanlegt, að fulltrúar Framsfl. stóðu þar á því, sem fulltrúar Framsfl. og Alþfl. hér hafa haldið fram, að þeir væru að vinna löglega, Það voru fulltrúar Sjálfstfl., sem réðu því í landskjörstjórn, hvernig grundvöllurinn yrði lagður að kosningunum, og undan því verður ekki komizt. Sjálfstfl. átti tvo fulltrúa í landskjörstjórn. Þeir réðu úrskurðunum, þeir réðu niðurstöðunum, þeir mynduðu þann meiri hluta, sem þeim sýndist. Það voru fulltrúar Sjálfstfl. í kosningunum, sem lögðu grundvöllinn að því, að kjósendur voru látnir kjósa í þeirri trú, að Framsfl. og Alþfl. hefðu hvor sinn landslista, en ekki einn sameiginlegan, eins og við hefðum álitið rétt að gera. Það var Sjálfstfl. og hans fulltrúar í landskjörstjórn, sem hindruðu, að það væri úrskurðaður einn landslisti fyrir báða þessa flokka og að kjósendurnir fengju að ganga að kjörborðinu í vitund þess, Og það var Sjálfstfl, og hans fulltrúar í landskjörstjórn, sem þar með sköpuðu þá hættu bókstaflega, að minni hluti hjá þjóðinni gæti náð meiri hluta á Alþingi. Og hvernig hefði farið, ef það hefði orðið ofan á, ef það hefði tekizt, sem bandalag Framsfl. og Alþfl. stillti upp sem sinni von í kosningunum í sumar, að það bandalag, þó að það hefði minni hluta þjóðarinnar að baki sér, hefði fengið meiri hluta á þingi? Hvernig hefði þá farið? Þá hefðum við staðið frammi fyrir því, að sá meiri hluti, sem þeir hefðu fengið á þingi, hefði samþykkt hér, að það væri löglegt.

Ég vil draga þetta fram til þess að minna á, hve þung ábyrgð Sjálfstfl. í landskjörstjórn er í þessu sambandi. Það er ekki honum að þakka, að þessu var afstýrt. Og það má máske minna á það í þessu sambandi um leið, að Sjálfstfl, hefur áður beitt þeim áróðri í kosningum, að hann þyrfti ekki að fá nema 300–400 atkv. í vissum kjördæmum til þess að geta haft meiri hluta á þingi, þó að hann hefði minni hluta hjá þjóðinni.

Við skulum þess vegna alveg gera okkur ljóst, einmitt í sambandi við þær fullyrðingar, sem hérna hafa komið fram, að þessar tilraunir, sem þarna eru hættulegastar, þ. e. að minni hluti þjóðarinnar reyni að fá meiri hluta á þingi, — þar eru þeir samsekir, það kosningabandalag, sem Frams.- og Alþfl. höfðu í sumar, og Sjálfstfl, sjálfur, sem hér deilir nú allskarpt á allt slíkt. Það sást líka í sumar, eftir að úrskurður landskjörstjórnar hafði verið kveðinn upp, að Morgunblaðið sagði það í sinni fyrirsögn, að Hræðslubandalagið, eins og bandalag Frams. og Alþfl. þá var oft kallað, „lafir á bókstafnum“, og sagði í sínum leiðara þá, að meiri hluti landskjörstjórnar hefði álitið, að ekkert beint bann lægi við atferli Hræðslubandalagsins. Það var greinilegt, að það var Sjálfstfl., sem sleppti þessu í gegn, þannig að kjósendur urðu að ganga að þeim grundvelli eins og meiri hluti Sjálfstfl. í landskjörstjórn hafði gengið frá þessu.

Hv. þm, A-Húnv. sagði hér áðan í sinni ræðu, að það hefði verið að brjóta helgustu lög og stjórnarskrá landsins í sambandi við þessa hluti. Það var okkar álit, að Sjálfstfl. í landskjörstjórn hefði átt að standa vörð um stjórnarskrána og hennar anda í þessu sambandi. Hins vegar vil ég minna hv. þm. A-Húnv. á það, ekki sízt út frá því, sem hann var að sveigja að okkur Alþýðubandalagsmönnum, að Sjálfstfl. hefur hingað til ekki orðið bumbult af að taka alla þingmenn á Alþ. gilda, þó að enginn þeirra hafi haft kjörbréf og enginn þeirra hafi verið kosinn. Ég vil minna hann á, hvað gert var 1941. Hv. þm. A-Húnv. var að óskapast yfir, að það væri nú vont, ef einn flokkur reyndi svona, og enn þá verra, ef þeir væru tveir. En það voru þrír, sem höfðu samsæri um það þá að framlengja þingsetu allra þingmanna, án þess að nokkur þeirra hefði verið kjörinn og nokkur þeirra hefði kjörbréf. Ég álít þess vegna, að það sé rétt að tala alveg rólega um þá hluti. Ég held satt að segja, að Sjálfstfl, hafi haft í frammi nokkurn skollaleik í þessum efnum.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði hér áðan, að meiri hlutinn í landskjörstjórn hefði ekki getað komið sér saman um, hvað væri ólöglegt, og vildi ekki fjölyrða um úrskurð landskjörstjórnar, því að hann heyrði fortíðinni til. En það er nú einmitt þessi úrskurður, sem mótaði alla aðstöðuna við kosningarnar í sumar. Við hinir, sem álítum hann rangan, gátum haft í frammi allan mögulegan áróður í sambandi við kosningarnar út frá þessu, en við vissum ósköp vel, að meiri hluti landskjörstjórnar var búinn að skapa staðreynd, sem svo og svo mikill hluti kjósenda mundi taka tillit til, hvernig þeir kysu.

Hv. þm. A-Húnv. sagði, að það væri krafa Sjálfstfl., að báðir flokkar, Framsfl. og Alþfl., væru teknir sem einn. Þessari kröfu gat Sjálfstfl. framfylgt í sumar í landskjörstjórn. Þá var staður og stund til þess. Það er ekki vert að vera að sveigja neinu að okkur Alþýðubandalagsmönnum, sem engan fulltrúa áttum þar, eftir að Sjálfstfl. hefur látið undir höfuð leggjast að grípa til á réttum tíma og gera það, sem þá var rétt.

Það, sem við nú eftir þá aðstöðu, sem nú er sköpuð, verðum að gera upp við okkur, er, hvað sé hægt að gera og hvað sé ekki hægt að gera, eins og nú er komið málum. Hafi það verið skollaleikur af hálfu Sjálfstfl., eins og mönnum liggur við að gruna, að ganga svo frá í landskjörstjórn sem hann gerði, þá hefur hann fallið á sínu eigin bragði. Það var hans sök, að gengið var til kosninganna á þeim grundvelli, sem hans meiri hluti í landskjörstjórn mótaði. Og landskjörstjórn hefur síðan úrskurðað í samræmi við þann grundvöll, sem var lagður af henni 28. maí.

Hver er nú aðstaða Alþ. til þess að geta breytt þessu eða gera gott það, sem Sjálfstfl. í landskjörstjórn gerði rangt 28. maí? Það hefði verið auðvelt að eiga við þetta, ef það hefði verið um kjörbréf kjördæmakjörinna þingmanna að ræða. Það hefði verið auðvelt að láta fram fara uppkjör, nýjar kosningar í þeim kjördæmum, sem slíkir þm. hefðu verið kosnir í. En hér er um að ræða athugasemdir við sjálft landskjörið og deildar meiningar um það, um heildarkjörið. Stærsta atriðið í þessu sambandi er það, að kjósendur hefðu greitt atkv. allt öðruvísi í sumar, svo framarlega sem það hefði legið fyrir, að úrskurðað hefði verið af landskjörstjórn, eins og rétt hefði verið, að Alþfl. og Framsfl. skoðuðust sem einn flokkur og hefðu einn landslista. Kjósendur um allt land hefðu greitt atkv. allt öðruvísi, og það hefði allt annað komið út úr kosningunum. Við stöndum frammi fyrir þessari staðreynd, og ég býst ekki við, að það treystist neinn til þess að mótmæla því. Kjósendur hafa kosið í góðri trú út frá þeim úrskurði, sem ekki hvað sízt sjálfstæðismenn í landskjörstjórn felldu 28. maí. Það er staðreyndin, sem við stöndum frammi fyrir.

Ef við ættum núna að gera ráðstafanir til þess að skapa rétt hlutföll á milli þingflokka samkvæmt úrskurði, sem við Alþýðubandalagsmenn hefðum helzt óskað eftir að hefði verið kveðinn upp í landskjörstjórn í sumar, þá yrði að kjósa Alþingi upp að nýju, eftir nýjum kosningalögum, með landskjörstjórn, sem stæði á verði um anda stjórnarskrárinnar og stæði betur í stöðu sinni en sú gerði, sem nú fjallaði um þessi mál, landskjörstjórn, sem legði réttan grundvöll fyrir kjósendur, þannig að þeir vissu, að hverju þeir væru að ganga.

Það er ekki hægt að leiðrétta það, sem landskjörstjórn gerði rangt í sumar, með því að ógilda kjörbréf hinna landskjörnu þingmanna Alþfl. núna. Það, sem raunverulega liggur fyrir okkur, er fyrst og fremst að reyna að sjá til þess, að svona hlutir geti ekki gerzt að nýju.

Því versta, sem hefði getað hlotizt af afstöðu Sjálfstfl. í landskjörstjórninni í sumar, var afstýrt. Hv. þm. A-Húnv. sagði hér áðan, að stjórn okkar lýðveldis væri byggð á skökkum grundvelli. Svo er ekki. Stjórn okkar lýðveldis er byggð á réttum grundvelli. Alþingi það, sem nú situr, er að því leyti rétt mynd af þjóðarviljanum, að sú stjórn, sem nú situr að völdum, þeir flokkar, sem nú stjórna landinu, hafa ótvíræðan og mikinn meiri hluta þjóðarinnar að baki sér, þrátt fyrir þær aðgerðir Sjálfstfl. í landskjörstjórninni í sumar að stofna raunverulega lýðræðinu í landinu í hættu með sínum skollaleik þá. Og ég verð að segja það, að aðkoman að þjóðarbúinu eftir forustu Sjálfstfl. undanfarin ár er ekki slík, að það sé neinn gamanleikur að vera að leggja út í hverjar kosningarnar á fætur öðrum núna aðeins til þess að leiðrétta hlutfallið á milli þingflokkanna innbyrðis.

Það, sem hlýtur að vera höfuðverkefnið nú eftir þessa reynslu, sem við höfum haft í sambandi við kosningalög og úrskurð landskjörstjórnar í sumar, er að vinna að því, að þeirri höfuðhættu verði afstýrt, að þjóðarminnihluti geti fengið þingmeirihluta, og að reyna að sjá til þess að bæta þannig um, að næst þegar gengið verður til kosninga á Íslandi, geti ekki slík aðstaða myndazt sem núna var. Og ef á að tryggja það, þá hlýtur höfuðverkefnið að vera í fyrsta lagi að semja slík kosningalög, að þau séu í samræmi við þann anda og tilgang stjórnarskrárinnar, að þingflokkar hafi þingsæti í sem réttustu hlutfalli við sinn styrk hjá þjóðinni, semja jafnframt kosningalög, sem séu ekki það götótt, að slungnir lögflækjumenn geti leikið sér að því að smjúga í gegnum þau, eftir því sem e. t. v. vissum flokkum kann að henta á vissu tímabili. Ég veit, að samning slíkra kosningalaga er vissulega erfitt verk, en það er verk, sem verður að reyna að vinna. Í öðru lagi er vitanlegt, að það þarf að reyna að undirbúa þannig slíka breytingu á sjálfri stjórnarskránni, að það verði tryggt, að sjálfur bókstafur stjórnarskrárinnar sé í hvívetna í samræmi við hennar anda og hennar tilgang, þann sem vakti fyrir upphaflega, þegar þau ákvæði 31. gr. voru sett, sem mest er vitnað í. Í þriðja lagi þarf að reyna að sjá til þess, að hægt sé að kjósa landskjörstjórn, sem standi í stöðu sinni um að halda vörð um anda stjórnarskrárinnar og tilgang, Þetta eru þeir hlutir, sem þarf að vinna að á því kjörtímabili, sem nú er hafið, Það þarf að tryggja, að stjórnarskrá og kosningalög tryggi hið pólitíska lýðræði í landinu, tryggi rétt hlutfall á milli flokkanna og afstýri hættu á því, að þjóðarminnihluti geti náð meiri hluta á þingi.

Alþýðubandalagið hefur samið um það við sína samstarfsflokka, að á starfstíma þessarar stjórnar verði kosningalögin og stjórnarskráin endurskoðuð af þar til kjörinni nefnd, og Alþb. mun reyna þar að tryggja, að þau sjónarmið þess og þær skoðanir, sem ég hef skýrt og öllum eru kunnar, móti þá endurskoðun, að hún verði í samræmi við það að tryggja pólitískt lýðræði í landinu, tryggja, að þingflokkar fái þingsæti í sem réttustu hlutfalli við þeirra styrkleik, og sérstaklega afstýra því, að minni hluti hjá þjóðinni geti náð meiri hluta á þingi.

Þetta er það, sem þarf að vinna að á næstunni. Þetta er það verkefni, sem alveg sérstaklega liggur fyrir, og það verkefni, sem ég vil leyfa mér að vona að hægt verði að finna lausn á á þessu kjörtímabili, sem nú er hafið. Þess vegna álítum við, að það sé veigamest að geta unnið að þessu, geta tryggt, að stjórnarskrá og kosningalög verði í framtíðinni þannig úr garði gerð á Íslandi, að slíkar deilur eins og þær, sem nú hafa átt sér stað, slík hætta eins og leidd var yfir þjóðina með úrskurði landskjörstjórnar í sumar þurfi ekki að koma fyrir aftur, og út frá því vil ég leyfa mér að lesa eftirfarandi grg., sem þm. Alþb. gera fyrir þeirri afstöðu sinni að taka núverandi kjörbréf hinna umdeildu landskjörnu þm. gild. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í 31. gr. stjórnarskrárinnar segir, að á Alþingi skuli eiga sæti allt að 11 þingmenn til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar.

Ákvæði þetta er byggt á því grundvallarsjónarmiði íslenzkra stjórnskipunarlaga, að kjósendur skuli hafa jöfn áhrif á skipun Alþingis, hvar sem þeir greiða atkvæði og hverjum stjórnmálaflokki sem þeir greiða atkvæði.

Ákvæði kosningalaganna um kjör landskjörinna þingmanna og úthlutun uppbótarþingsæta her að skýra með hliðsjón af þessu ákvæði stjórnarskrárinnar.

Alþýðubandalagið telur, að kosningabandalög flokka eða einstakra frambjóðenda og flokka í þeim tilgangi að afla fleiri þingmanna en rök standa til samkvæmt atkvæðatölum þeirra brjóti í bága við anda stjórnarskrárinnar og kosningalaganna. Hins vegar er það skylda landskjörstjórnar að undirbúa almennar kosningar þannig, að þessum tilgangi stjórnarskrárinnar verði náð og að kjósendum sé ljóst, þegar kosið er, eftir hvaða reglum þingsætum verði úthlutað milli stjórnmálaflokka.

Alþýðubandalagið telur, að kosningabandalag Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins í kosningunum 1956 hafi verið þess eðlis, að rétt hefði verið að telja þá í kosningunum og við úthlutun uppbótarþingsæta sem einn þingflokk.

Landskjörstjórn hefur hins vegar úrskurðað og birt fyrir kosningar, að Alþfl. og Framsfl. hefðu hvor sinn landslista í kosningunum og uppbótarþingsætum skyldi úthlutað á þeim grundvelli. Landslistarnir voru því undirbúnir á þeim grundvelli, sem lagður var með úrskurði landskjörstjórnar, og kjósendur reiknuðu með því á kjördegi, að þingsætum yrði úthlutað samkvæmt úrskurði landskjörstjórnar, og greiddu atkvæði samkvæmt því. Landskjörstjórn hefur síðan gefið út kjörbréf til landskjörinna þingmanna á grundvelli úrskurðar síns, sem hún birti fyrir kosningar.

Að þessu athuguðu telur Alþýðubandalagið ekki fært að ógilda kjörbréf þeirra þm. Alþýðuflokksins, sem náð hafa kosningu á þeim grundvelli, sem landskjörstjórn hafði lagt, en leggur þó ríka áherzlu á, að með endurskoðun stjórnarskrárinnar og kosningalaganna verði komið í veg fyrir kosningabandalög, sem raska eðlilegri úthlutun uppbótarþingsæta milli þingflokka,

Með hliðsjón af framansögðu og með tilliti til þess, að í stjórnarsamningi núverandi ríkisstj. er svo ákveðið, að skipa skuli nefnd til að endurskoða á starfstíma þessarar stjórnar kosningalög og stjórnarskrá, telur því Alþýðubandalagið, eins og nú er komið, að staðfesta verði hin umdeildu kjörbréf landskjörinna þingmanna, sem landskjörstjórn hefur gefið út.“