22.02.1957
Efri deild: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

116. mál, félagsheimili

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég sé ekki betur en það rýri alla möguleika félagsheimilasjóðs, ef ekki verður gert annað en að fjölga stórlega þeim aðilum, sem eiga aðgang að sjóðnum. Ég sé ekki betur en það verði til þess að rýra sjóðinn. Hæstv. ráðh. segir, að það eigi að koma þarna meira, og þá er það gott og blessað.

Það er alger misskilningur hjá hæstv. ráðh., að ég hafi verið að leggja til að rýra tekjur þjóðleikhússins. Mitt frv. á þinginu í fyrra og aftur nú gekk einungis í þá átt, að félagsheimilasjóður fengi aftur það, sem hann hafði, en sett var í þjóðleikhúsið. Það er ekki verið að tala um að rýra tekjur þjóðleikhússins, þar sem ríkissjóður hefur af fúsum vilja alltaf tekið vel í það að greiða tekjuhalla þjóðieikhússins. Félagsheimilin eiga enga slíka sjóði í að hlaupa. Ég man ekki betur en að það sé í fjárlögum heimild til að greiða rekstrarhalla þjóðleikhússins, 450 þús. kr. En þó að þjóðleikhúsið hirti allan skatthluta félagsheimilasjóðs, dygði það ekki mikið til að reka þjóðleikhúsið.

Það er ágætt að hafa glæsilegt þjóðleikhús. En ég held nú satt að segja, að það sé ekki allt fengið með því, ef ekki má gera sveitunum mögulegt að halda uppi félagsstarfsemi innan sinna vébanda. Nú er þjóðleikhúsið farið að senda leikflokka út í sveitirnar. En það verður að gera þessum flokkum mögulegt að sýna leikrit í sveitunum. Það er útilokað, eins og nú standa sakir, víðast hvar. Þess vegna er ekki allt fengið með því að fullkomna allt hér í þjóðleikhúsinu, ef ekkert verður gert til þess að bæta félagslífið í sveitunum.