05.03.1957
Efri deild: 64. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

116. mál, félagsheimili

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara og vil gera grein fyrir því, í hverju sá fyrirvari er fólginn.

Ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga, að sú breyting sé gerð á l. um félagsheimili, sem hér er farið fram á, að verkalýðsfélög og búnaðarfélög geti einnig orðið aðilar að styrk úr félagsheimilasjóði. Hins vegar tel ég, að eigi að breyta þessu á þá lund, sem frv. greinir, þá sé rétt að taka þar inn fleiri aðila, og mun ég flytja um það brtt. við 3. umr.

Sams konar frv. og þetta, eða a.m.k. að því er snertir verkalýðsfélög, hefur legið fyrir hv. Alþ. áður, m.a. árið 1954. Þá lét fræðslumálastjóri og íþróttanefnd ríkisins álit sitt í ljós um frv., og lagði fræðslumálastjóri og meiri hluti íþróttanefndar á móti því að l. yrði breytt á þessu lund. Rökstuðningur þeirra var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Fræðslumálastjóri og meiri hl. íþróttanefndar líta svo á, að verkalýðsfélög séu fyrst og fremst hagsmuna- og stéttarfélög og að þótt stjórnmálaskoðanir takmarki ekki þátttöku, þá séu þau annars eðlis en þau félög, sem upp eru talin og við mun átt í 1. gr. laga um félagsheimili. Telja báðir aðilar, að tekjur félagsheimilasjóðs mundu hrökkva skammt, ef fara ætti inn á þá braut að veita verkalýðsfélögum styrk úr sjóðnum til þess að byggja félagsheimili út af fyrir sig. Yrði þeim veitt aðstaða til sérbygginga félagsheimila með styrk úr félagsheimilasjóði, hlytu önnur hagsmunasamtök launþega að fylgja á eftir, svo sem iðnaðarmannafélög, félög verzlunarfólks, starfsmannafélög ríkis og bæja o.fl., o.fl.“

Nú vil ég taka fram, að ég er ekki andvígur því, að þessar tvær félagstegundir, verkalýðsfélög og búnaðarfélög, séu teknar inn í lögin, en tel rétt, að þá séu l. einnig rýmkuð að öðru leyti og ýmis þau samtök, sem fræðslumálastjóri og meiri hl. íþróttanefndar hér gátu um, verði tekin þar inn líka. Nú skal ég að vísu taka fram, að mér er ekki alveg ljóst, og ég ætla, að öðrum nefndarmönnum sé það ekki heldur, hvað nákvæmlega felst í hugtakinu verkalýðsfélag. Það er notað í ákaflega mismunandi víðtækri merkingu og hefur mér vitanlega ekki að lögum neina ákveðna merkingu. Stundum er það notað eingöngu um félög verkamanna, en stundum miklu víðtækara um samtök launþega ýmissa. Þó ætla ég, að það taki alls ekki til allra samtaka launþega. Í l. um stéttarfélög og vinnudeilur er rætt um stéttarfélög og það skýrt, hvað við er átt með þeim, og þau lög fjalla um stéttarfélög. Ég skal ekkert um það fullyrða, hvort hugtakið verkalýðsfélög yrði hér túlkað á sama hátt og stéttarfélög eða ekki. Hvað sem því líður, þá ætla ég, að t.d. starfsmannafélög ríkisins, ríkisstofnana, bæjar- og sveitarfélaga falli ekki undir hugtakið verkalýðsfélög, þannig að ef slíkir starfsmannahópar ættu að fá aðild að félagsheimilasjóði, sem ég tel sjálfsagt, ef þetta frv. verður samþykkt, þyrfti að taka sérákvæði upp um það, sem sagt taka fleiri félög inn í þessa upptalningu en hér er gert. Mér hefur ekki unnizt tími, frá því að n. afgreiddi þetta mál í gær, til þess að ganga frá slíkri brtt., því að það er nokkur vandi á höndum, bæði hvaða félög eru sambærileg eða ætti að taka og um orðun þess, og mun ég því ekki flytja brtt. fyrr en við 3. umr.

Í öðru lagi er fyrirvari minn byggður á því, að ég tel alveg nauðsynlegt, í rauninni hvort sem l. er breytt eða ekki, en þó alveg sérstaklega ef fjölgað er aðilum að styrk úr félagsheimilasjóði, að efla sjóðinn og afla honum aukinna tekna. Hv. þm. V-Sk. hefur flutt frv., sem er 77. mál Ed., um að auka tekjur félagsheimilasjóðs. Nú fær félagsheimilasjóður 35% af skemmtanaskatti, en hv. þm. V-Sk. leggur til, að það sé hækkað upp í 50%. Við umr. hér í þessari hv. deild lýsti hæstv. menntmrh. yfir, að það væru til athugunar hjá ríkisstj. ráðstafanir til að auka tekjur félagsheimilasjóðs og mundi eitthvað verða lagt fyrir þetta þing. Ég hefði talið ákaflega æskilegt, áður en þetta frv. fer út úr deildinni, ef unnt væri að fá einhverjar ákveðnar upplýsingar frá hæstv. ríkisstj. eða menntmrh. um það, í hverju þessi tekjuöflun er fólgin og hve miklu muni nema þær tekjur, sem með þeim er ætlað að sjóðurinn fái.