05.03.1957
Efri deild: 64. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

116. mál, félagsheimili

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. þm. V-Sk. (JK) var nokkuð hvass í garð n. út af afgreiðslu á málinu og fór fram á, að það yrði tekið út af dagskrá og að mér skildist visað aftur til n., eða var það ekki rétt? (JK: Ekki veitir af því, segi ég.) Ja, n. hefur nú athugað þetta frv. á tveimur eða þremur fundum, og samkvæmt ósk hv. 2. þm. Árn. (SÓÓ) var afgreiðslu frestað einu sinni. Þegar svo kom til næsta fundar, var hv. þm. veikur og er líklega enn og gat því ekki verið við lokaafgreiðsluna.

Ég sé ekki, að það sé hægt að kvarta um það við n., að það hafi ekki farið fram athugun á þessu máli þar. Aftur á móti hefur hv. 6. þm. Reykv. (GTh) þá afsökun, að hann var veikur á fyrra stigi afgreiðslunnar eða á fyrra fundi, en mætti á seinni fundinum, en hann óskaði ekki eftir neinni frestun, þó að hann hefði þennan fyrirvara, sem hann er búinn að gera hér grein fyrir. Ég held því, að það sé alls ekki hægt að kvarta undan afgreiðslu á málinu hjá n. hvað þetta snertir.

Það, sem mér skildist að hv. þm. V-Sk. væri óánægður með, er fjárhagur félagsheimilasjóðs, þ.e., að hann geti ekki risið undir þeim kröfum, sem eru á sjóðinn gerðar nú þegar og auðvitað í framtiðinni. Þetta frv. mun ekki hafa verið komið til, þegar hann flutti sitt frv. í vetur, og það sýnir bezt, að það er full þörf, bæði að hans áliti og ég held okkar allra, að auka möguleika félagsheimilasjóðs til að standa undir þeim óskum, sem fram til hans koma.

En það er að mínum dómi ekki nægileg ástæða til þess að hafa á móti þessu frv., þó að svo sé ástatt, að sjóðurinn þurfi á meiri peningum að halda árlega heldur en hann hefur nú. Ég er alveg sammála hv. þm. nm, að það er aðkallandi nauðsyn að auka möguleika sjóðsins til að standa undir þeim skuldbindingum, sem á honum hvíla, og auðvitað enn fremur vegna samþykktar þessa frv. En ég vil ekki fallast á, að það auki svo mjög byrðar sjóðsins. Þessi þörf er fyrir, og það þarf að leysa þetta mál og engin ástæða til þess að setja fótinn fyrir þetta frv., þó að hitt sé enn óleyst, en fyrirheit er um það frá hæstv. ríkisstj., að ráðin verði bót á því á þessu þingi.

Hv. þm. V-Sk. vildi deila á fulltrúa dreifbýlisins um afstöðu þeirra til frv. Ég tel mig einn af þessum fulltrúum dreifbýlisins, alveg eins og hann er, en ég sé ekki, að við séum að vinna dreifbýlinu hið minnsta tjón með því að samþ. þetta frv., alls ekki. Og hv. 1. þm. Eyf. (BSt) hefur einnig tekið þetta atriði fram, að þó að það sé fjölgað þeim félögum, sem nefnd eru í lögunum og eiga að njóta styrks úr sjóðnum, þá þýðir það alls ekki, að þar með séu auknar fjárkröfur á sjóðinn. Það eru að vísu fleiri félög, sem hafa rétt til að vera þátttakendur um byggingu félagsheimills, en þar með er ekki sagt, að félagsheimili þurfi að vera stærra, þó að fleiri félög standi að því. Þar að auki léttir þetta undir heima fyrir, að fleiri félög eru aðilar að byggingunni og leggja fram til þess fé. Þá verður léttara um að fullnægja þeim hlutanum, sem heiman frá á að koma.

Það er því á misskilningi byggt, að það sé neitt víð það að athuga hvað snertir dreifbýlið, þó að þessar tvær tegundir félaga séu teknar inn í lögin. Það eykur ekki á fjárkröfur þaðan, þó að svo sé gert. Frekar er það í þéttbýlinu, og þaðan gæti ég búizt við að kæmu frekari kröfur til félagsheimilasjóðs á eftir.

Út af hinu, sem hv. 1. þm. Eyf. spurði, hvort það væri tilgangurinn, að hvert af þessum félögum, sem þarna eru nefnd, eigi að hafa rétt á að byggja félagsheimili, þá held ég að það sé öðru nær. Ég veit ekki betur en framkvæmdin sé þannig, að þau félög í hverju héraði, sem rétt hafa til að vera þátttakendur um félagsheimilisbyggingu, þurfi að sameina sig. (BSt: Er ákvæði um það í lögunum?) Nei, ekki man ég eftir því, að það sé í lögunum, en framkvæmd laganna held ég að hafi verið þannig, að þau þurfa að sameina sig um bygginguna, og þá fyrst er veitt leyfi til byggingarinnar, þegar félögin hafa sameinazt um bygginguna. Þetta hygg ég að sé reglan í framkvæmd. Það er engin sérstök stjórn fyrir félagsheimílasjóð, en ráðh. hefur ráðunauta sér við hlið, og þannig mun hafa verið framkvæmdin í þessum málum, eftir því sem íþróttafulltrúi ríkisins hefur tjáð mér, þegar ég hef rætt við hann um þessi mál.

Nú skulum við segja, að í einhverju héraði bætast við bæði verkalýðsfélag og búnaðarfélag.

Það breytir engu öðru en því, að þessi tvö félög þurfa að vera þátttakendur um leið með hinum, sem fyrir eru, ef þau vilja byggja félagsheimili. Ég sé engan annan mun á þessu. En að hvert félag fái styrk til þess að byggja félagsheimili, það held ég að hafi ekki komið fyrir. (BSt: Mundi það geta komið fyrir?) Ég vil ekki fullyrða neitt um það, hvort það getur komið fyrir, en ég veit, að þannig hefur framkvæmdin á þessu verið. Því segi ég það, að þó að fleiri félög bætist þarna inn í lögin, á það ekki að þurfa að auka fjárkröfur á hendur félagsheimílasjóði, nema þá kannske í þéttbýli, þar sem ekki er hægt að sameina mörg og stór félög um eitt heimill. Þar kann það sennilega að verða.

Ég vil svo að lokum segja það, sem ég nefndi áðan, að ég sé ekki ástæðu til að vísa þessu máli aftur til n., en að sjálfsögðu getur hv. d. tekið af skarið um það.