07.03.1957
Efri deild: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

116. mál, félagsheimili

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég veitti því athygli, að þegar hæstv. ráðh. mælti gegn till. hv. 6. þm. Reykv. á þskj. 317, þá fann hann það að því máli, að það væri ekki undirbúið. Hins vegar væru hin málin, sem í frv. felast, verkalýðsfélögin og búnaðarfélögin, gamalt baráttumál, sagði hæstv. ráðh.

Ég hefði gjarnan viljað spyrja hann: Hvenær hafa búnaðarfélög og hvaða búnaðarfélög hafa sótt um að fá sérstaka aðild að félagsheimilasjóði? Eins og ég hef getið um margsinnis, veit ég ekki betur en öll búnaðarfélög úti um land séu með öðrum félagasamtökum um félagsheimilin þar. Ég veit ekki betur. En svo veitti ég því eftirtekt, að þegar hæstv. ráðh. var að svara 6. þm. Reykv., voru það aðeins tilmæli frá búnaðarmálastjóra, sem nú liggja fyrir, að búnaðarfélögin yrðu tekin inn. Það liggur nær að halda, að þessi tilmæli frá búnaðarmálastjóra væru komin samkvæmt pöntun, til að breiða yfir verkalýðsfélögin. Það liggur nærri að líta þannig á, því að það getur ekki verið gamalt baráttumál, þó að það séu núna komin einhver tilmæli frá búnaðarmálastjóra um það, að þau fengju aðild að sjóðnum.

Mig undrar það, ef hæstv. ráðh. hefur áhuga fyrir því að bæta hag félagsheimilasjóðs, hvers vegna í ósköpunum hann dregur það að koma fram með frv., sem hann er búinn að marglofa. Hví þarf endilega að hrinda þessu frv. fyrst fram, en hitt komi kannske ekki fyrr en í þinglokin, þannig að það dagi uppi, — mér kæmi það ekkert á óvart?

Ég skil ekki þetta. Hví má þetta mál ekki bíða og sjá, hvernig fjárhagsafkoman leysist? Ég skal síður en svo hafa á móti því að bæta þessum félagasamtökum við, bæði verkalýðsfélögunum og starfsmannafélögum ríkisins og sveitarfélögum og verzlunarmannafélögum, ef sjóðnum er séð fyrir nægilegu fé.

Ég sé ekki, að það hafi neina þýðingu að vera að þessum — ég vil segja skrípaleik, ef ekki kemur nein úrbót hvað fé snertir. Ég skil það ekki. Og þótt það kunni að vera nauðsyn, að þessi félagasamtök í kaupstöðunum — fjölmennu og sterku félagasamtök — fái aðgang að sjóðnum, þá vil ég fullyrða, að nauðsynin er margfalt brýnni í sveitum landsins. Félagasamtökin þar eru ekki eins sterk og þessi fjölmennu félög í kaupstöðum og hafa ekki sömu aðstöðu, en þeim ríður á að koma upp félagsheimilum hjá sér. Víða í sveitum er ekki nokkurt hús til þess að halda samkomu í og því síður að taka á móti góðum leikkröftum eða öðrum listamönnum. Þetta er það, sem háir sveitunum mest. Þess vegna er þörfin þar brýnust, og mér finnst, að það eigi sannarlega að ganga fyrir fyrst og fremst að koma upp félagsheimilum í sveitunum.