08.03.1957
Efri deild: 66. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

116. mál, félagsheimili

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru örfá orð út af brtt. á þskj. 319, sem mér skilst að sé eins konar fleygur í málið. Það er þess að gæta, að þegar fjárl. eru afgreidd, þá er gengið frá tekjuhlið og gjaldahlið eftir áætlunum í mörgum greinum, því að ekki eru nándar nærri allar fjárhæðir á gjaldahlið fjárl. fastákveðnar, heldur er mjög mikið af þeim áætlunarfjárhæðir. Af þessu leiðir, eins og reynslan ólygnust sýnir, að hversu vel sem á hefur verið haldið, hafa ætíð orðið nokkrar umframgreiðslur, stundum mjög miklar. Því er áreiðanlegt, að fari tekjur fjárl. ekki fram úr áætlun, þá er alveg vonlaust, að hallalaus ríkisbúskapur geti orðið. Það er þess vegna meira en hál braut að fara inn á, ef hv. Alþ. ætlaði, þegar búið væri að ganga frá fjárlögum, að fara að ráðstafa einstökum tekjustofnum ríkissjóðs í annað. Slíkt væri með öllu óhæfileg afgreiðsla og hlyti að leiða til stórra óhappa, því að fjárlögin eru beinlínis byggð á því, að það verði einhverjar umframtekjur. Það er óhugsandi, að þau geti staðizt öðruvísi. Þetta er vitaskuld flm. þessarar till. mætavel ljóst, þó að þeir kasti henni fram til þess að sýna í stjórnarandstöðunni, hvað þeir séu miklu skeleggari um framlög heldur en þeir, sem eiga að bera ábyrgð á fjárhag ríkisins. En till. er á hinn bóginn náttúrlega í samræmi við annan þeirra tillöguflutning í sambandi við flest mál um þessar mundir.

Ég vil þess vegna mjög alvarlega biðja hv. dm. að hafa það í huga, að við erum nýbúnir að afgreiða fjárlögin með samtökum meiri hl. og að það mundi valda stóróhöppum, ef farið væri að fleyga fjárlögin, eins og gert væri í raun og veru, ef slíkar till. sem þessar væru samþykktar.