08.03.1957
Efri deild: 66. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

116. mál, félagsheimili

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. þm. N-Ísf. (SB) átaldi mjög menntmn. fyrir afgreiðslu málsins hvað það snerti, að hún hefði ekki sent frv. til umsagnar stjórn félagsheimilasjóðs. Ástæðan fyrir því, að það var ekki gert, er sú, að það er engin sérstök stjórn fyrir félagsheimilasjóði önnur en ráðherra. Þetta er þannig orðað í lögunum um félagsheimilasjóð, 3. gr., þ.e. lögum nr. 77 frá 5. júní 1947: „Stjórn félagsheimilasjóðs er í höndum menntmrh.“ o.s.frv. Frv., sem liggur hér fyrir, er stjórnarfrv., svo að það að senda frv. stjórn sjóðsins er að senda ráðh. það. Hins vegar hefur ráðh. ráðunauta, sem eru íþróttanefnd ríkisins og fræðslumálastjóri. Þeir höfðu áður sent umsögn sína um sams konar frv., og sú umsögn lá fyrir n., svo að okkur var alveg kunnugt um sjónarmið þessara ráðunauta ráðherrans.

Ég get ómögulega séð, að það sé réttmæt ádeila á n., þetta, sem þarna kom fram, þar sem stjórn sjóðsins er í höndum ráðh. og ráðh. flytur málið. Ég held, að þetta hljóti að vera misminni eða á misskilningi byggt.

Út af því, að þörf sé á að vísa málinu aftur til n., hef ég út af fyrir sig ekkert á móti því í sjálfu sér, en við 2. umr. nefndi einn hv. þm. þetta, það var hv. þm. V-Sk. (JK), hann impraði á því, en hann flutti enga till. um það, og þar af leiðandi kom það ekki einu sinni til atkv., hvort því skyldi vísað aftur til n. Nú skilst mér, að hv. þm. N-Ísf. vilji, að þetta sé gert, og ég hef ekkert á móti því, en þá er náttúrlega að láta d. skera úr um það.