08.03.1957
Efri deild: 66. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

116. mál, félagsheimili

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér finnst sú barátta, sem hér fer fram af hálfu hv. þm. N-Ísf. fyrir bættum hag félagsheimilasjóðs, vera að fá á sig næsta spaugilega mynd. Við 2. umr. er borin fram till. um að veita fé beint úr ríkissjóði í félagsheimilasjóð. Nú við 3. umr. er borin fram till. um að veita fé úr ríkissjóði óbeint til félagsheimilasjóðs.

Um málið í heild skal ég ekki ræða að þessu sinni, en af því að umr. er frestað, vil ég leyfa mér að koma fram með eina fsp., eina ábendingu til hv. fyrsta flm. þessarar till., sem hann getur þá búið sig undir að svara, þegar umr. verður haldið áfram. Ég vildi biðja hann um að koma með upplýsingar um það hingað í deildina, hvaða till. fyrrverandi menntmrh., sem eru flokksmenn hans, hafa gert til þess að bæta hag félagsheimilasjóðsins. Ég bið hann um að koma með alveg skýrar upplýsingar um það: Hvaða till. hafa þeir gert um auknar fjárveitingar í sjóðinn, annaðhvort úr ríkissjóði eða á annan hátt, og hvaða till. hefur hann sjálfur flutt, meðan hann hefur verið í stjórnarandstöðu eða stuðningsmaður stjórna undanfarin ár til að rétta hag sjóðsins? Hann hefur sjálfur staðið fyrir því, að umr. væri frestað, og hann getur ráðið því, hvað umhugsunartíminn verður langur til þess að koma með þessar upplýsingar. Ég veit svarið við þeim, en ég hlakka til þess að heyra hv. þm. hér úr þessum ræðustóli lesa upp og lýsa nákvæmlega þeim till., sem flokksmenn hans eða bann sjálfur hefur flutt undanfarin ár. Það má ná til ársins 1950. Sá lestur verður ekki langur.