19.03.1957
Efri deild: 72. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

116. mál, félagsheimili

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Að loknum fundi í þessari hv. deild, þegar þetta mál var til umr. síðast, komu þeir til mín hv. 2. þm. Árn. og hv. 6. þm. Reykv., sem háðir eiga sæti í menntmn., og óskuðu eftir, að leitað væri álits íþróttanefndar ríkisins í þessu máli, en sú ósk hafði ekki komið fram í n. áður.

Ég taldi ekki ástæðu til að boða til fundar út af þessu, en kvaðst skyldi verða við þessum tilmælum þeirra þá strax, að óska eftir þessu áliti, þótt við hefðum haft álit frá því árinu áður frá þessari sömu nefnd. Þeir tjáðu sig ánægða með það, ef ég gerði þetta, og það gerði ég samdægurs og bað um, að þessi umsögn íþróttanefndar bærist þinginu, áður en málið kæmi á dagskrá, sem yrði væntanlega næsta fundardag, sem bar upp á mánudag. Þetta álit kom, og ég fékk þeim það í hendur (hv. 6. þm. Reykv. tók við því af mér), til þess að þeir gætu kynnt sér það, og það munu þeir báðir hafa gert. En mér hefur ekki borizt það í hendur aftur. Ég held, að ég hafi gert þarna skyldu mína, að láta þeim í té þetta álit, fyrst að fá það eins fljótt og hægt var og síðan að láta þeim það í té, til þess að þeir gætu kynnt sér það.

Ég vænti þess, að þetta álit íþróttanefndar sé einhvers staðar tiltækt og að þeir hv. þm. hafi kynnt sér málið, því að það er orðið nokkuð langt síðan þetta var á dagskrá.