15.02.1957
Sameinað þing: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

Varamenn taka þingsæti

Friðjón Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. mikið og lofa að vera stuttorður, en vil aðeins í örfáum dráttum rekja efni þess máls, sem hér er á dagskrá, frá mínu sjónarmiði.

Forsendur málsins eru í fáum orðum þessar:

1) Fyrsti maður á lista Alþfl.. í Reykjavík við síðustu kosningar til Alþingis, hv. 4. þm. Reykv., var kjörinn þingmaður.

2) Annar maður á listanum hlaut kosningu sem landsk. þm.

3) Þriðji maður á listanum, frk. Rannveig Þorsteinsdóttir, hefur skriflega sagt af sér varaþingmennsku, og ekki var gefið út kjörbréf til hennar af þeim sökum.

4) Hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson, hefur óskað eftir því, að varaþingmaður taki sæti sitt um 6–8 vikna skeið, meðan hann er fjarvistum.

5) Yfirkjörstjórn skaut því til úrskurðar hins háa Alþingis, samkv. heimild í 46. gr. stjórnarskrárinnar, hvort 4. maður á listanum, Eggert Þorsteinsson, skyldi taka sæti á Alþingi sem varamaður.

6) Alþingi hefur samþykkt ályktun um, að það telji rétt, að kjörbréf sé gefið út til handa Eggert Þorsteinssyni sem varaþm. af lista Alþfl., og yfirkjörstjórn hefur samkv. því gefið þetta kjörbréf út, og liggur nú hér fyrir til umr. till. meiri hl. hv. kjörbréfanefndar um það, að kjörbréfið verði samþykkt.

Mál þetta hefur þegar verið rætt mikið hér á Alþingi, bæði í sambandi við áður fram komna till. frá minni hluta kjörbréfanefndar og í sambandi við þáltill. hæstv. forsrh., sem samþ. var fyrir fáum dögum.

Afstaða hv. þm. Sjálfstfl. er sú, að hér sé verið að fremja gróft brot á stjórnarskránni, ef kjörbréfið verði tekið gilt, enginn varamaður sé til fyrir hv. 4. þm. Rvíkur og enginn eigi að taka sæti hans, meðan hann er fjarvistum. Færi hins vegar svo, sem haft hefur verið á orði, að hann segði af sér þingmennsku, eigi að kjósa upp aftur í Reykjavík, ekki alla þm., heldur aðeins einn og væntanlega einn til vara. Þetta telja hv. þm. Sjálfstfl. að sé í fullu samræmi við lög og stjórnarskrá. Þetta hefur að vísu verið hrakið rækilega með augljósum rökum í umr. hér á Alþingi, en ég mun aðeins lauslega rekja þessi rök með fáum orðum til glöggvunar og yfirlits og bæta þar nokkru við.

Það skal að sjálfsögðu viðurkennt, að hvergi er að finna í stjórnarskrá, kosningalögum né öðrum lögum bein fyrirmæli um það, hvernig með skuli fara, þegar svo á sér stað sem nú hefur við borið, að varaþingmaður gengur úr skaftinu. En vitanlega verður að leysa þetta mál sem önnur, þótt engin slík bein fyrirmæli sé við að styðjast. Annaðhvort er að samþykkja kjörbréf Eggerts Þorsteinssonar eða hafna því. En áður en það er gert, verður að sjálfsögðu að rannsaka ákvæði kosningalaga og stjórnarskrár um varaþingmenn og öll þau atriði, sem máli skipta um þetta efni, svo og hvert sé eðli málsins og almenn lagarök.

Um einn hlut í máli þessu virðist mér allir vera á einu máli, enda munu fræðimenn vera sammála um það, en það er, að þingmaður — og þá líka varaþingmaður — hafi fullar heimildir til að segja af sér. Hér er því ekki um þann möguleika að ræða að gefa út kjörbréf til þriðja manns á lista Alþfl., sem sagt hefur af sér varaþingmennsku.

Þá er um þrjár leiðir að ræða í málinu aðeins, og fleiri munu ekki til, en þessar þrjár leiðir eru:

1) Að enginn varamaður komi í stað hv. 4. þm. Reykv. og ekki heldur, þótt hann segði af sér.

2) Að uppkosning fari fram í Reykjavík.

3) Að fjórði maður á lista Alþfl. taki sæti á Alþingi sem varamaður, eins og meiri hluti hv. kjörbréfanefndar leggur til.

Ef maður athugar hverja af þessum leiðum fyrir sig, er fyrst fyrir hendi sú leið, að enginn taki sæti hv. 4. þm. Reykv. Samkvæmt 31. gr. stjórnarskrár, sem oft hefur verið vitnað til, eiga sæti á Alþingi allt að 52 þjóðkjörnir þingmenn. Af öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar verður ráðið með augljósum rökum, að því aðeins geta þeir eða mega vera færri en 52, að uppbótarþingmenn séu færri en 11, en slíkt getur átt sér stað, ef viss skilyrði eru fyrir hendi. Af þessum 52 þingmönnum skulu 8 kosnir í Reykjavik.

Ákvæði kosningalaga eru í fullu samræmi við þetta og óþarfi að rekja þau. Þm. skulu vera 52, þar af 8 í Reykjavík.

Það væri því bersýnilegt stjórnarskrárbrot, ef út af þessu væri brugðið, ef þm. væru aðeins 51, þar af 7 í Reykjavík. Sú leið kemur því ekki til greina, enda vænti ég þess, að allir geti verið sammála um það, og mér hefur raunar skilizt, að þeir, sem hér hafa tekið þátt í umr., muni vera á einu máli um það.

Þá kemur til álita önnur leiðin í málinu. Það er uppkosning í Reykjavík.

Í fljótu bragði gæti maður hugsað sér, að slíkt gæti orðið með tvennum hætti: 1) að kosnir yrðu allir 8 þm. Reykjavíkur og 8 varamenn, og 2) að kosinn yrði aðeins einn þm. í Reykjavík og einn varamaður, ef gert væri ráð fyrir því, að hv. 4. þm. Reykv. segði af sér, eða aðeins einn varamaður, ef svo yrði ekki.

Að sjálfsögðu tel ég, að ekki komi til greina að kjósa upp í Reykjavík að nýju að öllu leyti. Engin heimild er til að svipta löglega kjörna þm. Reykjavíkur, sem kosnir eru til fjögurra ára, þingmennskuumboði nema með þingrofi, og um slíkt er ekki að ræða hér.

Þá er hin leiðin, að kjósa einn mann aðeins í Reykjavík. Það er sú leið, sem hv. þm. Sjálfstfl. virðast helzt hallast að og telja þá einu réttu. Vitanlega sjá þeir fram á, að ef svo yrði gert, þá eru allar líkur til, að þeim bættist einn maður við þingflokk sinn og einum Alþfl: manni yrði færra á þingi. Þeir halda því mjög á loft, að fordæmi sé fyrir uppkosningum slíkum sem þessum. Hv. 1. þm. Reykv. nefndi í þessu tilfelli þrjú dæmi: tvö frá 1926 og eitt frá 1932. Annað dæmið frá 1926 og dæmið frá 1932 eru um uppkosningar í Reykjavík. En á þessum árum voru engir varaþm. í Reykjavík. Ákvæði um varaþm. í Reykjavík komu ekki í stjórnarskrána fyrr en 1934, eins og kunnugt er, og er því alveg út í hött að nefna þessi dæmi í sambandi við það tilfelli, sem hér er um að ræða. Hitt dæmið frá 1926, sem nefnt hefur verið í þessu sambandi, er um uppkosningu landskjörins þm. Í fljótu bragði gæti virzt sem líkt hefði staðið á þá og nú. Svo er þó ekki, þegar nánar er aðgætt. Það liggur í því, að með stjórnarskrárbreytingunni 1934 voru tekin upp ákvæði í stjórnarskrána, sem viðurkenndu í ríkara mæli en áður hafði verið rétt flokkanna til áhrifa á Alþingi í nokkru hlutfalli við kjósendafjölda í landinu. Sú grundvallarregla yrði þverbrotin, ef kjósa ætti einn mann í Reykjavík í stað hv. 4. þm. Reykv., og þess vegna tel ég, að ekki sé hægt að líkja dæminu frá 1926 við það, sem nú er fjallað um.

Um þetta eru því engin fordæmi til. En jafnvel þótt hv. þingmenn Sjálfstfl. vilji enn halda því fram, að svo sé, þá eru önnur stjórnarskrárákvæði en það, sem ég þegar hef nefnt, sem beinlínis og óbeinlínis banna slíka uppkosningu.

Ég veitti því athygli áðan, að hv. 6. þm. Reykv. sagði það í ræðu sinni, að engin ákvæði væru um uppkosningar í stjórnarskránni. En þetta er misskilningur eða gáleysi hjá honum, því að í 2. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Deyi þingmaður, kosinn í einmenningskjördæmi, eða fari frá á kjörtímanum, þá skal kjósa þingmann í hans stað fyrir það, sem eftir er kjörtímans.“

Stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir uppkosningum í öðrum tilfellum. Þetta er eini staðurinn í stjórnarskránni, þar sem um uppkosningar er fjallað. Í tvímenningskjördæmum og í Reykjavík eru fyrirmæli um varamenn, og einnig skulu vera varamenn fyrir landskjörna þingmenn. Það verður því ekki komizt hjá gagnályktun frá 2. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar, að uppkosningar skuli ekki fara fram í öðrum tilfellum en þar greinir. En jafnvel þótt hv. þingmenn Sjálfstfl. telji ekki öruggt, að slík gagnályktun eigi hér við, og bendi í því sambandi, eins og hv. síðasti ræðumaður, 6. þm. Reykv., á 135. gr. stjórnarskrárinnar, sem fjallar um uppkosningar í einmennings- eða tvímenningskjördæmum, ef frambjóðandi deyr eða þingmannssæti verður af öðrum ástæðum autt, áður en kjörtímabil er á enda, jafnvel þótt þeir vilji enn bera það fyrir sig, sem mér virðist þó vera að fara beint í bága við þetta ákvæði 31. gr. stjórnarskrárinnar, þá er enn eitt ákvæði í stjórnarskránni, sem tekur af öll tvímæli um þetta og eitt út af fyrir sig nægði til þess, að uppkosning eins manns í Reykjavík gæti ekki átt sér stað. Og þetta ákvæði er einnig í 31. gr. stjórnarskrárinnar. Í þeirri gr. segir nefnilega í a-lið, að í Reykjavík skuli kjósa átta þingmenn og kosning þeirra sé hlutbundin. Það væri í algeru ósamræmi við þetta ákvæði, ef aðeins sjö þingmenn væru kosnir hlutbundinni kosningu, en einn kosinn með sama hætti og á einmenningskjördæmum, svo sem hv. þingmenn Sjálfstfl. láta í veðri vaka að þeir vilji. Þeir skulu allir átta vera kosnir hlutbundinni kosningu, eins og segir í þessari grein.

Þetta ákvæði kosningalaganna sýnist mér því kollvarpa með öllu þeirri kenningu, sem hinn ágæti fræðimaður Einar Arnórsson virðist hallast að í bók sinni um réttarsögu Alþingis. Það virðist alveg kollvarpa þeirri kenningu, að þegar svo stendur á sem nú, skuli einn maður kosinn í Reykjavik, því að sá maður væri ekki kosinn hlutbundinni kosningu. Og það væri brýnt brot á þessu stjórnarskrárákvæði, auk þeirra sem ég áður nefndi, og fram hjá því verður ekki komizt.

En þá er komið að þriðju leiðinni, sem ég nefndi í upphafi og meiri hl. kjörbréfanefndar leggur til, að farin verði, að fjórði maður á lista Alþfl. taki sæti á Alþingi sem varamaður hv. 4. þm. Reykv.

Stjórnarskrárákvæði eru ekki fyrir hendi um þetta. En mér virðist 117. gr. kosningalaganna skera hér úr. Þar segir, að framboðslisti í kjördæmi, þar sem kosið er hlutbundnum kosningum, sem hlotið hefur þingmann eða þingmenn kjörna, hafi rétt til jafnmargra varaþingmanna. Og í sömu gr. segir, að ef varaþingmaður, kosinn hlutbundinni kosningu, hljóti uppbótarþingsæti, skuli yfirkjörstjórn sú, sem í hlut á, gefa næsta frambjóðanda af þeim lista, ef til er, kjörbréf varaþingmanns.

Nú vil ég spyrja: Liggur ekki beint við að álykta, að ef varaþingmaður fellur frá eða segir af sér, þá skuli sama regla gilda? Er það ekki beinlínis undirskilið, að þegar varamenn hafa sagt af sér, látizt o.s.frv., þá skuli þeir taka við, sem næstir eru í röðinni á listanum? Mér virðist hér vera um vafalausa lögjöfnunarheimild að ræða. Þetta fer engan veginn í bága við nein stjórnarskrárákvæði frekar en bein ákvæði 117. gr. um, að gefa skuli út kjörbréf varaþingmanns þeim, sem næstur er, ef varaþingmaður hefur hlotið uppbótarþingsæti.

Það liggur líka í augum uppi, að önnur ályktun mundi leiða til ranglátrar niðurstöðu og beinlínis gegn ákvæðum stjórnarskrár um tölu þingmanna eða gegn ákvæðum stjórnarskrár, sem óheimila uppkosningar í Reykjavík.

Nú er því haldið fram af hv. þingmönnum Sjálfstfl. og nú síðast af hv. 6. þm. Reykv., að slíkir varamenn væru ekki kosnir samtímis og á sama hátt. Einnig þetta virðist mér rangt. Þar sem talað er um í 31. gr. stjórnarskrárinnar, að þeir skuli kosnir samtímis og á sama hátt, er verið að undirstrika það, að þetta skuli gerast í sömu kosningum. Þessir menn eru einmitt kosnir á framboðslistunum samtímis og á sama hátt, og nákvæmlega hið sama sýnist mér gilda um landskjörna þm. samkv. 129. gr. kosningalaganna.

Hér ber því allt að sama brunni. Leið sú, sem hv. sjálfstæðismenn benda á, er ólýðræðisleg og brýnt brot á stjórnarskránni. Hins vegar styðst leið sú, sem meiri hluti hv. kjörbréfanefndar leggur til, við augljós lagarök. Með því er haft í heiðri það ákvæði stjórnarskrár, að rétt tala þingmanna er á þingi og rétt þingmannatala í Reykjavík, allir kosnir hlutbundnum kosningum, samtímis og á sama hátt. Varamenn yrðu á hverjum tíma jafnmargir kjörnum alþingismönnum og þannig í heiðri hafður réttur flokkanna, sem þeim er áskilinn í 117. gr. kosningalaganna, og sömuleiðis réttur þingmanna til þess að láta varamenn taka sæti sitt í forföllum sínum, sem þeim er áskilinn í 3. mgr. 144. gr. kosningalaganna. Till. hv. meiri hl. kjörbréfanefndar er auk þess fullkomlega lýðræðisleg, og hún ein leiðir til réttlátrar og eðlilegrar niðurstöðu.