29.05.1957
Efri deild: 116. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

116. mál, félagsheimili

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur mikla fyrirhöfn við að reyna að koma þessu máll í gegn, skemmdu að vísu, eins og hann leggur nú áherzlu á. Það er augljóst mál, að þar sem hæstv. ráðh. og ríkisstj. snúast gegn öllum brtt. um hækkun á tekjum félagsheimilasjóðs, þá þýðir þessi fjölgun ekkert annað en það, að það gengur út yfir sveitirnar og fámennu kauptúnin. Ef þetta er stefna Alþ., verður svo búið að standa, en ég skil bara ekki, að þetta sé stefna Alþ. Ég skil það ekki.

Þegar hæstv. ráðh. lagði þetta mál fyrir þingið, upplýsti hann í grg. frv., að þær auknu tekjur félagsheimilasjóðs, sem hann fær samkvæmt frv. hans, mundu rétt nægja til þess að fullnægja brýnustu þörf, eins og fyrir liggur í dag. Hvernig haldið þið, að það verði, þegar fjölmennir kaupstaðir koma inn og eiga aðgang að sjóðnum? Þeir mundu hirða sjóðinn.

Ég leyfði mér í dag að flytja brtt. á þá lund, að á meðan félagsheimilasjóður getur ekki fullnægt hlutverki sínu sakir fjárskorts, skuli félagsheimili í sveitum og kauptúnum sitja fyrir um styrk úr sjóðnum. Og ég leyfi mér, hæstv. forseti, að flytja þessa till. á ný. Hún þýðir ekki það, að ég sé á móti því, að þessi félagasamtök í kaupstöðum fái að njóta styrks, en hún getur orðið til þess að ýta undir hæstv. ráðh. að sjá félagsheimilum borgið með fé. Ég leyfi mér að leggja till. fram, herra forseti.