29.05.1957
Efri deild: 116. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

116. mál, félagsheimili

Sigurður Bjarnason:

Ég álít það léttvæg rök fyrir því, að þessi hv. þd. eigi að skipta um skoðun frá þeirri atkvgr., sem fór fram fyrir örstuttu, að menn í menntmn. hv. Nd. hafi verið sammála um að fella niður þá till., sem hér var samþ. Ég vil benda á, að þeir hv. þm. Sjálfstfl. í n., sem greiddu atkv. með því, voru báðir kaupstaðarþingmenn, og flestir þm. Sjálfstfl., sem telja sig fulltrúa dreifbýlisins og þekkja, eins og hv. þm. V-Sk., bezt þarfirnar í þessum efnum úti í sveitum og kauptúnum landsins, greiddu atkv. gegn því að fella þetta niður.

Það er bezt, að það fari ekkert á milli mála, að hér er tilræði á ferðinni af hálfu hæstv. menntmrh. við félagsheimilasjóð. Það er bezt, að menn geri sér ljóst, að það er verið að beita ýmsum brögðum til þess að koma þessu tilræði fram, og hæstv. menntmrh. skal a.m.k. vita það, og þau orð skulu sögð, áður en þetta frv. fer út úr d. og þetta tilræði heppnast, að það eru þó til menn, sem vita, hvað er að gerast í þessum efnum. Það var aldrei ætlunin með félagsheimilasjóði, að hann ætti fyrst og fremst að fara til þess að hjálpa til að byggja samkomuhús í stærstu kaupstöðum landsins, sem búa við allt aðra og betri aðstöðu í þessum efnum en kauptún og sveitir úti á landi, og það er alveg óþarfi fyrir hæstv. menntmrh. og hans stuðningsmenn að vera að setja einhverja verkalýðsgloríu um sig í þessu máli.

Verkalýðsfélögin hafa samkvæmt l. fullan rétt á þeim stöðum, þar sem fyrst og fremst þarfnast stuðnings félagsheimilasjóðs til þess að fá styrk úr sjóðnum, og það er kjarni málsins. Til þess þarf engum l. að breyta. Það þarf aðeins að breyta l. til þess að fá einhverja skrautfjöður í stél þeirra manna, sem ekkert þekkja inn á þarfir strjálbýlisins, ekkert vita, hvað þeir eru að gera með þessari breytingu. Ég álít, að hæstv. menntmrh. hefði ekki átt að minnast á, að það hafi verið afgreidd l. í Nd., sem tryggi félagsheimilasjóði auknar tekjur, vegna þess að þessi sömu lög eru svo sniðuglega útbúin, að jafnhliða er ráðh. veitt heimild til þess að undanþiggja mikinn hluta kvikmyndahúsarekstrarins í landinu greiðslu skemmtanaskatts, þannig að þessi nýju l. geta þýtt það, að tekjur félagsheimilasjóðs minnki.

Ég veit ekki, hvað þessi hæstv. ráðh. heldur að hann geti boðið mönnum. Því fer víðs fjarri, að hér sé verið að gæta hagsmuna félagsheimilasjóðs og þess fólks, sem hann á að njóta. Það er verið að fremja tilræði við hann.