29.05.1957
Efri deild: 116. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

116. mál, félagsheimili

Sigurður Bjarnason:

Það getur vel verið, herra forseti, að hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ), sem hér talaði síðast, finnist það hofmóður, að menn bendi á þá staðreynd, að með þessu frv. er verið að fremja tilræði við eina þörfustu stofnun í félagsmálum strjálbýlisins. Það getur vel verið, að honum finnist þetta hofmóður. En því fólki, sem á aðstöðu sína í félagslegum efnum komna undir því, að viturlega sé á þessum málum haldið, finnst þetta réttmæt aðvörun og gagnrýni.

Ég var ekkí með nein brigzlyrði í garð hæstv. menntmrh. Ég sagði hreint út mína skoðun á því, sem hér væri verið að gera, á þeirri ráðleysu, sem hér væri verið að fremja. Og ég vildi spyrja hv. 4. þm. Reykv. að því, hvers vegna hann haldi, að á 3 þingum í röð á undanförnum árum hafi þetta mál ekki fengizt afgr. úr n. af hálfu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Hver heldur hv. þm. að ástæðan sé? Hún var engin önnur en sú, að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn höfðu þá sameiginlegu afstöðu þá, að þetta væri óþarft yfirborðsmál og ekkert annað og jafnframt tilræði við sveitirnar og strjálbýlið, sem fyrst og fremst áttu að njóta félagsheimilasjóðsins.

Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að þreyta hæstv. forseta á síðasta fundi hv. þd. með löngum ræðum um þetta, málið er rætt í botn og staðreyndirnar standa ljósar, og svo sker auðvitað hv. þd. úr.