15.02.1957
Sameinað þing: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2395 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

Varamenn taka þingsæti

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hv. stjórnarandstæðingar hafa rekið sig á það í þessu máli, að ein syndin býður annarri heim. Þeir hafa nú þurft að glíma við afleiðingarnar í þessu máli eins og öðrum málum hér fyrr á þinginu við kosningasvikin frá því í sumar. Allt þeirra framferði nú gerir eiginlega kosningasvikin þá öllu ljósari og ógeðfelldari, því að reykvískir kjósendur mega vita það nú, að þegar Alþfl. stillti upp lista og hafði á honum ungfrú Rannveigu Þorsteinsdóttur, sem vafalaust hefur aflað þeim lista einhverra atkv., þá var það ákveðið á bak við tjöldin hjá þessum háttvirtu herrum, að þessi kona skyldi aldrei á þing komast, enda þótt hún væri boðin fram. Og endirinn á þessum deilum um varaþingmanninn verður nokkuð einkennilegur, þegar hv. stjórnarandstæðingar eru orðnir svo forhertir, eins og hv. 6. þm. Reykv. vék að, að telja nú allt annað stjórnarskrárbrot heldur en að afgreiða þetta mál með þeim hætti, sem þeir vilja, en þeir vikum og mánuðum saman hafa verið að velta fyrir sér, hvernig þeir gætu afgreitt, án þess að afgreiðslan væri stjórnarskrárbrot. Þessir menn hafa talað við okkur, þm. Sjálfstfl., einslega fram og aftur um þetta mál og hvort ekki væri hægt að finna einhverja skaplega samstöðu um lausn þessa máls án þess að gerast sekir um að brjóta stjórnarskrána, og þeir vita ósköp vei, að það er engan veginn af neinni andstöðu okkar sjálfstæðismanna gegn því, hvorki að Eggert Þorsteinsson komi hér á þing né að Alþfl. haldi sinni þingmannatölu, sem við höfum ekki viljað fallast á afgreiðslu þessa máls, eins og nú er, heldur vegna þess, að við höfum fyrr og síðar sagt: Það er ekki hægt með þessum hætti vegna ákvæða laga og stjórnarskrár.

Yfirkjörstjórnin í Reykjavík er búin að kveða upp úrskurð sinn um það fyrir sitt leyti, að það sé ekki hægt á grundvelli laga né í samræmi við stjórnarskrána að gefa út kjörbréf þessa varaþingmanns, sem hér um ræðir. Og sjálft Alþingi er búið að fella það að taka gilda kosningu þessa manns sem varaþm. Þm. Ak. taldi upp nokkra atburðaröð í þessu máli og hvað hér hefði gerzt og að nú væri komið að lokadeginum. Þá gleymdi hann einum lið, og það var sú ákvörðun Alþingis, meiri hl. Alþingis, að fella till. um að taka gilda kosningu Eggerts Þorsteinssonar, eins og málið lá fyrir. En það er ekki aðeins, að yfirkjörstjórnin standi enn við þann skilning sinn, hafi sagt, að það sé ekki hægt að gefa út kjörbréf handa varaþingmanni eins og hér um ræðir, og það er ekki aðeins, að Alþingi sjálft hafi svo fellt að taka kosningu þessa þm. gilda, heldur hafa, eins og hv. 6. þm. Reykv. benti á, komið fram í fjöldamörgum tilfellum öðrum hliðstæður, sem sanna, að hér er rangt að farið, og kenningar lögfræðinga fyrr og síðar, eins og vitnað var til í Réttarsögu Alþingis eftir Einar Arnórsson. og kenningar, sem stuðzt hefur verið við og fluttar hafa verið í Háskóla Íslands. Og það hefur aldrei, svo að vitað sé, a.m.k. er mér ekki kunnugt um það, og hv. stjórnarsinnar hafa ekki bent á neitt tilvik þess, að nokkru sinni hafi verið vefengt eða haldið fram, að þessar kenningar væru rangar eða farið hafi verið ranglega að við landskjörið 1926 og þar hafi verið brotin stjórnarskráin. Það er einkennileg tilviljun, að það skuli aldrei hafa komið fram nein skoðun eða sjónarmið um það fram að þessu, að þessar kenningar, sem vitnað hefur verið til, væru rangar eða brotin hafi verið stjórnarskráin 1926, en það er fyrst nú, að málflutningur hv. stjórnarsinna hnígur allur að því, að þar hafi verið framið stjórnarskrárbrot og að allt sé það rangt, sem áður hefur verið kennt af fræðimönnum í þessu efni.

Ég skal ekki elta ólar við einstök atriði í ræðu hv. þm. Ak. En eins og áður hefur verið vikið að, má segja, að það sé nokkuð mikil forherðing að draga nú loksins fram þá niðurstöðu, sem hann gerði, að allt annað en það, sem hér er verið að vandræðast með, sé brot á stjórnarskránni.

Um varaþingmennina, sem hér hefur verið aðallega deilt, er það svo, að þegar stjórnarskráin ákveður, að þeir skuli vera jafnmargir og kosnir samtímis og á sama hátt, þá hefur það verið, eins og ég sagði, skýrt þannig, að það þýddi, að þeir væru ekki fleiri kosnir en aðalmennirnir á hverjum lista. Og þegar nauðsyn þykir og menn eru sammála um að breyta þessu í framkvæmd, vegna þess að í sjálfu sér fallast allir á, að þetta er óeðlilegt varðandi sveitarstjórnirnar, þá er samt sem áður fyrst í stað það mikill vafi á ákvæðunum, þegar þau eru flutt inn í þingið, að þá er talað um takmarkaða tölu varamannanna, sem hins vegar endar svo í meðferð þingsins þannig, að allir frambjóðendurnir á listanum teljast varamenn.

Auðvitað er það ljóst, að löggjöfin og þörf löggjafar í sambandi við kosningar á sveitarfulltrúum eða bæjarfulltrúum styður og sannar í raun og veru, að það er ekki hægt að fara að í sambandi við þingmennina eins og hér er ráð fyrir gert, og hún sannar einnig, að það er ekki hægt að gera þá breytingu, sem lagt er til hér í þinginu í frumvarpsformi, heldur — ef menn óska að breyta aðferðinni í þessum efnum — verður að gera það varðandi þm. með stjórnarskrárbreytingu.

Hv. 6. þm. Reykv. benti á það mjög réttilega, að meginuppistaðan í málflutningi stjórnarsinna hefur byggzt á því, hvað menn teldu eðlilegt og hvað menn teldu sanngjarnt og rétt í þessu efni. En um það atriði er ekki hér deilt, og sjálfstæðismenn eru í sjálfu sér sammála um það, að það sé knýjandi ástæða til að breyta þeim ákvæðum, sem nú eru í stjórnarskránni um kjör varaþingmanna. En við verðum í þessu sambandi, eins og réttilega hefur verið haldið fram, meðan ekki er búið að breyta stjórnarskránni, að halda okkur við ákvæði hennar, og alveg eins og það er nú brot á stjórnarskránni að ætla sér þrátt fyrir ákvæði hennar að viðhafa þann hátt, sem lagt er til af meiri hluta kjörbréfanefndar, þá er það einnig brot á stjórnarskránni að ætla sér að breyta ákvæðum hennar með einföldum lögum, eins og einnig er farið fram á. Og það er þeim mun alvarlegra, finnst mér, að þingmenn leggi út í slíkt ævintýri, þar sem það er engin knýjandi nauðsyn til þess að fara þannig að málum. En svo óhöndulega hefur hv. stjórnarsinnum farizt í þessu máli, að þegar þeir eru búnir að velta því fyrir sér, eins og ég sagði áðan, vikum saman og mánuðum, hvernig hægt sé að losna við afleiðingarnar af klækjunum frá kosningunum í sumar, og þegar þeir loksins koma inn í þingið, þá ern þeir sjálfum sér sundurþykkir á fyrsta stigi málsins, og meiri hluti þings er þá með því að fella till. um að taka kosningu Eggerts Þorsteinssonar sem varaþingmanns gilda. En þegar þetta er búið. er aftur setzt á rökstóla og reynt að fínna nýjar leiðir, og þá er farin sú leið að reyna að ná settu marki með því, að Alþingi fyrirskipi yfirkjörstjórninni með þál. að gefa út kjörbréf. En það er ekki nóg, vegna þess að það virðist ekki fullnægja samlyndinu á stjórnarheimilinu, og þess vegna er svo loksins látið reka lestina frv. um það, hvernig með þessi mál skuli fara, frv., sem felur í sér breytingu á beinum ákvæðum stjórnarskrárinnar og verður því ekki með neinum rétti tekið fyrir hér á þinginu öðruvísi en sem stjórnarskrárbreyting.