31.01.1957
Efri deild: 48. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (1951)

98. mál, veð

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Allshn. hv. d. hefur haft frv. þetta til meðferðar og leggur einróma til, að það verði samþykkt.

Eins og lýst var í framsögu um frv. við 1. umr., felast í því tvær breytingar á 7. gr. veðlaganna. Önnur þeirra er um það, að þinglýsa skuli veðskjölum þeim, sem greinin ræðir um, á bæjarþingi í kaupstöðum. Er þetta gert með það fyrir augum að samræma þessi lagaákvæði við frv. til laga um breytingar á lögum um þinglýsing skjala og aflýsing, sem hér var til 2. umr. áðan. Verði það frv. að lögum, er þessi breyting á veðlögunum nauðsynleg til samræmis.

Hin breytingin, sem frv. fjallar um, er um annað atriði í sambandi við þinglýsingu á lausafjárveði. í 7. gr. veðlaganna er kveðið svo á, að þinglýsing á lausafjárveði skuli fara fram í Rvík á fyrsta eða öðru bæjarþingi eftir útgáfudag veðskjalsins og annars staðar á næsta manntalsþingi. Að öðrum kosti er veðið ógilt. Þetta gildir aðeins um þessa sérstöku tegund veðskjala, lausafjárveð, en annars ekki um önnur skjöl, sem þinglesin eru. Í frv. er ekki ætlazt til þess, að nein breyting verði á þessu í sveitum, en hins vegar verði sú breyting í kaupstöðum, að lausafjárveði skuli þinglýsa á 1., 2. eða 3. bæjarþingi frá útgáfudegi skjalsins, í stað þess að nú er það á 1. eða 2. Þarna er fresturinn lengdur um eina viku, miðað við það, að bæjarþing séu háð vikulega, svo sem lögákveðið er í kaupstöðum landsins í lögunum um meðferð einkamála í héraði. Þessi frestur hefur f einstökum tilfellum reynzt of stuttur, og þykir eftir atvíkum ekki varhugavert að lengja hann um eina viku, en hins vegar er ekki talið rétt að lengja hann meir, því að nauðsynlegt er vegna almenns viðskiptaöryggis, að nokkurt aðhald sé í þessu efni.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en legg til, að málinu verði vísað til 3. umr. og eins og ég lét getið í upphafi, er hv. allshn. sammála um að leggja til, að frv. verði samþykkt óbreytt.