28.02.1957
Efri deild: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (1968)

98. mál, veð

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið hingað aftur til hv. d. vegna smábreytingar, sem nauðsynlegt reyndist að gera á því í Nd. til þess að samræma það sérákvæðum laga um þinglýsingar í Reykjavík. Þetta sást okkur, sem fluttum frv., yfir, og ber að sjálfsögðu að viðurkenna það, að það var fyrst og fremst mín sök.

Borgarfógetinn í Reykjavík mun hafa bent á þetta, og í samráði við hann gerði ég uppkast að brtt. við 1. mgr. 1. gr., sem síðan var flutt í hv. Nd., — ég ætla af hv. 2. þm. Eyf., — og var samþ. þar.

Sérreglan um þinglýsingar í Reykjavík, sem taka þurfti með í reikninginn, þegar frv. var útbúið, er sú, að þar fer þinglýsing ekki fram fyrir dómi eins og annars staðar á landinu, heldur aðeins með þeim hætti, að þinglýsingarskjöl eru innrituð í afsals- og veðmálaskrár og síðan gert yfirlit um það vikulega, hver skjöl hafi verið innrituð, og sú skrá látin liggja frammi í skrifstofu borgarfógetans í eina viku. Frestinn til þinglýsingar lausafjárveðskjala skv. frv. þurfti því að miða við þetta, og hefur nú svo verið gert með breytingunni, sem gerð var í Nd., en breytingin er einungis í upphafi 1. mgr. frv. Vænti ég þess, að hv. deildarmönnum sé nú ljóst, hvernig í þessu liggur.