05.03.1957
Efri deild: 64. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

129. mál, taka eignarnámi jarðirnar Borg, Dynjanda og Rauðsstaði

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. N. var sent þetta frv. frá hæstv. forsrh. og beðin að flytja það. Þegar hún var búin að lesa það yfir, var hún sammála um að gera það og líka sammála um hitt, að frv. væri þess eðlis, að sjálfsagt væri að samþykkja það.

Það, sem um er að ræða, er það að kaupa þrjár jarðir í Auðkúluhreppi í Vestur-Ísafjarðarsýslu, sem liggja að þeim fallvötnum, sem nú er verið að virkja þar fyrir Vestfirðina, a.m.k. meiri og minni hluta af þeim. Þessar jarðir eru: Dynjandi, sem er í eyði. Hún hefur 1.6 ha. tún, og fengust af túninu seinast þegar búið var þar um 70 hestar. Útheysheyskapur er þar enginn nema á lélegum reytingsengjum. Hús eru þar gamall lélegur bær, sem metinn er nú á milli 600 og 700 kr. í fasteignamati. Svo er Borg, sem á er búið. Þar er 3 ha. tún, sem af hafa fengizt s.l. ár 128 hestar, og af útheyi hafa verið heyjaðir þar um 70 hestar á lélegum engjaberjum. Búið er þar núna. Áhöfn er 2 kýr, 157 kindur og tvö hross. Þetta er önnur jörðin, sem á að taka eignarnámi, og sú eina af þeim, sem er byggð. Sú þriðja heitir svo Rauðsstaðir. Hún er búin að vera í eyði lengi, þar er enginn kofi uppistandandi, en túnið þar er tiltölulega stærst, það er 3.7 ha. Það hefur ekki verið slegið í fleiri ár. Við sjáum þess vegna ekkert athugavert við það, nefndin, þó að þessar jarðir séu lagðar þarna að nokkru leyti undir virkjunina, sem verður um leið og virkjunin verður framkvæmd. Það þarf ekki að vísa málinu til nefndar, og kann fyrir 2. umr. að koma nefndarálit, því að n. hefur þegar athugað málið og mælir eindregið með því, að frv. verði samþykkt.