09.04.1957
Efri deild: 85. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

127. mál, mat á síld

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir til 2. umr., er komið frá hv. Nd., þar sem það var samþ. með shlj. atkv., en flutt var það af sjútvn. þeirrar deildar að ósk sjútvmrh.

Sjútvn. þessarar hv. d. hefur athugað frv. og mælir einróma með því, að það verði samþ. án breytinga.

Frv. felur í sér þá breytingu frá eldri lögum, sem eru frá 11. júní 1938 og 9. nóv. 1953, að í stað einnar krónu gjalds af hverri tunnu síldar, sem útflytjendum var skv. þeim lögum gert að greiða vegna kostnaðar við mat, komi nú 50 aura matsgjald á hverja tunnu og að auki skuli síldarsaltendur greiða til síldarmats ríkisins tímakaup matsmanna fyrir þann tíma, sem þeir vinna við matið, eftirlit og annað í þágu saltandans. Er þetta í fullu samræmi við þær reglur og þau lög, sem gilt hafa um fiskmat almennt skv. lögum frá 5. apríl 1948.

Tilgangurinn með þessari breytingu á lögunum er í fyrsta lagi sá að jafna þann halla, sem orðið hefur á síldarmatinu hin síðari ár vegna verðhækkana og meiri verkefna matsins, sem eru að miklu leyti bein afleiðing af viðskiptasamningum við önnur lönd um sölu á saltsíld. Í öðru lagi er talið, að það fyrirkomulag, að hver saltandi greiði sjálfur kaup matsmanns i samræmi við þann tíma, sem hann vinnur, muni verða saltendum hvöt til meiri vöruvöndunar, sem að sjálfsögðu mundi hafa m.a. í för með sér minni útgjöld vegna matsins fyrir þá, sem vanda sitt verk, en reynslan hefur sýnt, ekki sízt nú s.l. sumar, að mjög misjafnlega hefur verið unnið að söltuninni, og full þörf á, að það standi til bóta.

Sjútvn. hefur leitað umsagnar síldarútvegsnefndar um frv., og hefur hún mælt eindregið með samþykkt þess, og að því er ég bezt veit eru síldarsaltendur einnig hlynntir þeim breytingum, sem felast í frv., og ætti hvort tveggja að vera nokkur trygging fyrir því, að með því sé stefnt í rétta átt.