28.03.1957
Neðri deild: 76. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

143. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Með lögum, sem sett voru 1955, var samgmrn. heimilað að takmarka fjölda leigubifreiða í Reykjavík, Hafnarfirði, Akureyri, Siglufirði, Keflavík og Vestmannaeyjum. Sú heimild, sem í þeim lögum var gefin, hefur verið notuð a.m.k. á sumum þessara staða, og sú framkvæmd hefur þótt takast vel.

Nú liggja fyrir óskir um það frá ýmsum fleiri stöðum að fá þessa heimild færða út, þannig að hún nái til allra kaupstaða landsins og fjölmennustu kauptúnanna.

Samgmn. telur rétt að verða við þeim óskum, sem fram eru bornar um þetta atriði, og hefur því leyft sér að flytja frv. það, sem fyrir liggur á þskj. 377. Samkv. því verður þessi heimild látin ná til allra kaupstaðanna og til þeirra kauptúna, þar sem íbúar eru 800 eða fleiri.

Samkv. manntali, sem tekið var 1. des. 1955, getur þetta ákvæði náð til þeirra kauptúna, sem hér skulu talin: Það er Selfoss, en íbúatala hans er 1351. Í öðru lagi Njarðvík með 995 íbúa. Þriðja er Seltjarnarnes með 935 íbúa. Fjórði er Stykkishólmur með 890 íbúa. Fimmti er Patreksfjörður með 829 íbúa. Og í sjötta lagi Dalvík með 813 íbúa. Önnur kauptún koma ekki til greina, eins og fólksfjölda í þeim er nú háttað.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. Það er flutt af n., og er því ekki þörf á að vísa því til n. aftur.