07.05.1957
Neðri deild: 93. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

135. mál, atvinna við siglingar á íslenskum skipum

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af sjútvn. Ed. að beiðni hæstv. samgmrh., en undirbúið af nefnd, sem hæstv. fyrrv. samgmrh. skipaði 5. júlí 1956. Það frv., sem nefndin undirbjó, en í henni voru Friðrik Ólafsson skólastjóri stýrimannaskólans, Einar Thoroddsen hafnsögum. og Magnús Þ. Torfason próf., og hæstv. samgmrh. bað sjútvn. Ed. að flytja, er óbreytt frv. þessara þremenninga, að því undanskildu, að þeir gerðu ráð fyrir, að að námskeiðum loknum kæmu allir nemendur hingað suður til Reykjavíkur og þreyttu próf sín hér, en hæstv. samgmrh. breytti þessu atriði þannig, að prófin verða, eins og áður var, tekin á þeim stöðum, þar sem námskeiðin eru haldin.

Aðrar breytingar, sem gerðar voru á frv. í Ed., eru þær, að í stað 100 rúmlesta skipa, sem þessi námskeið eiga að veita mönnum réttindi til að fara með, þá breytti Ed. því í 120 rúmlestir og enn fremur því, að siglingatíminn styttist úr 36 í 30 mánuði.

Menntmn. hefur rætt þetta frv. á nokkrum fundum og er öll sammála um að mæla með samþykkt þess. N. ræddi þetta auk þess við skólastjóra stýrimannaskólans og sérstaklega þessar breytingar, sem gerðar hafa verið á frv. Hann taldi þær að vísu vera til hins lakara, og nefndin kann vel að meta þann vilja, sem kemur fram i því hjá skólastjóra stýrimannaskólans að undirbúa skipstjóraefnin sem bezt. En það hefur bara komið í ljós á undanförnum árum, eftir að undanþáguheimild sú, sem var í lögunum frá 1946, féll úr gildi, að það hefur ekki verið hægt að skipa þessi fiskiskip okkar með mönnum með tilskilin próf, og það hefur farið í vöxt árlega, að veita hefur þurft æ stærri hluta þeirra manna, sem með skipstjórn hafa farið á þessum skipum, undanþágu, til þess að þeir mættu með þau fara, án þess að þeir fengju nokkra viðbótarmenntun við það, sem 30 tonna prófið hefur veitt þeim. En til þess að bæta úr þessu hafði þessi nefnd, sem ég gat um áðan, fallizt á að flytja þessa undanþáguheimild um, að það verði haldinn námskeið í næstu fimm ár, — það er ætlazt til, að það séu fjögurra mánaða námskeið, — og þeir, sem þeim ljúki og nái þar prófi, fái réttindi til að fara með skip allt upp í 120 tonn.

Þótt við gætum fallizt á rök skólastjóra stýrimannaskólans fyrir því, að það væri æskilegt að búa skipstjórnarmennina sem allra bezt undir sitt vandasama og erfiða starf, þá þótti okkur ekki fært að fara að hrekja þetta mál á milli deilda, vegna þess, hve nauðsynin er brýn á að fá þetta samþykkt nú, sérstaklega þar sem þessi lagaheimild, sem nú stendur til að samþykkja, á ekki að gilda nema í fimm ár og þessar breytingar, sem gerðar hafa verið þarna í Ed., eru ekki mjög stórvægilegar. Við leggjum því, eins og ég sagði í upphafi, til, að þetta frv. verði samþykkt eins og það liggur nú fyrir.