22.01.1957
Efri deild: 43. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

87. mál, fasteignaskattur

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem flutt var á síðasta þingi, en hlaut þá ekki fulla afgreiðslu, en mun hafa dagað uppi, er nú flutt að nýju af meiri hl. fjhn. að beiðni ríkisstj.

Eins og hv. deildarmönnum er væntanlega kunnugt, eru nú í lögum tvenns konar fasteignaskattar til sveitar- og bæjarsjóða, og miðast báðir við fasteignamat. Skattar þessir eru á lagðir af tveim aðilum og innheimtir af tveim aðilum, sem hvor um sig verður að hafa sitt bókhaldskerfi um skattana. Annar þessara fasteignaskatta er ákveðinn í lögum nr. 67 1945, og upphæð þess skatts er frá 0.5–2% af fasteignamati, mismunandi eftir tegund fasteigna. Heimilt er að hækka þennan skatt um allt að 400% samkv. lögum nr. 29 frá 1952. Sú hækkunarheimild mun viða vera notuð. Þannig er það t.d. á Akureyri og í Rvík líka, að því er ég ætla, og vafalaust viðar. Þessi fasteignaskattur er heimildarskattur. En sennilegt er þó, að öll bæjarfélög og mörg sveitarfélög innheimti hann, enda er hann æði mikill tekjustofn, ef hækkunarheimildin er notuð. Bæjar- og sveitarstjórnir leggja þennan skatt á og annast innheimtu hans.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er að vísu ekki um þennan skatt, heldur um annan fasteignaskatt, sem ákveðinn er í lögum nr. 66 frá 1921. Þessi skattur er ákaflega lágur. Það er 11/2 af þúsundi af húsum og 3 af þúsundi af lóðum og löndum, miðað við fasteignamat.

Hann var upphaflega og lengst af raunar ríkisskattur, eða allt til ársins 1954, þegar ákveðið var, að hann skyldi renna í sveitarsjóði og bæjarsjóði. Þessi skattur er nú á lagður af sýslumönnum og bæjarfógetum, í Reykjavík af tollstjóra, og þeir hafa einnig með höndum innheimtu hans og allt bókhald um hann.

Þannig eru nú uppi tvö álagningarkerfi og tvö innheimtu- og bókhaldskerfi fyrir fasteignaskatta til bæjar- eða sveitarsjóða. Slíkt er að sjálfsögðu, a.m.k. að mínum dómi, hin mesta yfirsjón hjá löggjafarvaldinu og nánast sagt fásinna að haga þessu svo. Félag héraðsdómara benti ríkisstj. rækilega á þetta á sínum tíma, og mun frv. þetta, sem hér er fjallað um, þaðan runnið.

Frv. er ætlað að bæta úr þessu ófremdarástandi, sem ég vil kalla svo. Það gerir ráð fyrir, að álagning og innheimta þessa skatts sé falin bæjar- og sveitarstjórnum, en það mundi í framkvæmdinni þýða, að álagning og innheimta yrði sameinuð fasteignaskatti samkv. l. frá 1945 og álagningarkerfi, innheimtukerfi og bókhaldskerfi þessara tveggja skatta yrði sameinað og þannig sparaðist stórmikil vinna við skriffinnsku og reikningsfærslu, sem nú er haldið uppi að ástæðulausu, m.ö.o. verið að gera skattheimtuna auðveldari og einfaldari í framkvæmd.

Þess er þó skylt að geta, að í sumum sveitahreppum, mun fasteignaskattur ekki vera innheimtur, og á það einkum við um hreppa, sem vel eru stæðir og þar sem sveitargjöld eru miklu lægri en tíðkast í kaupstöðum og ýmsum hreppum, einkum kauptúnahreppum. Í þessum hreppum yrði því um nýja skattheimtu að ræða af hálfu oddvitanna. Hins vegar er tæplega hægt fyrir sveitarstjórnir að kvarta undan þessu, þar sem skattarnir renna beint í sveitarsjóði, og raunar ekki nein sanngirni í því, að starfsmenn ríkisins annist álagningu og innheimtu þessa skatts fyrir sveitarfélögin. Þar að auki á þetta aðeins við í sumum sveitarhreppum og þá þeim, sem eru svo efnaðir að þurfa ekki á þessari skattheimtu að halda.

Við, sem valizt höfum til að vera skatt- og tollheimtumenn, rekum okkur allt of oft á það, að löggjafarvaldið hirðir ekki nægilega um það, að skatta- og tollalöggjöf sé auðveld í framkvæmd. Þessi löggjöf er oft flókin og erfið að óþörfu og hefur í för með sér aukna vinnu og þar með aukið mannahald hjá ríkissjóði. Þetta frv. er spor í þá átt að gera skatta- og innheimtukerfið ódýrara og einfaldara, og er þetta mál þess vegna í mínum augum gott mál.

Í grg. frv. er þess getið, að breytingin, sem ráðgerð er, muni auðvelda notkun hraðvirkra bókhaldsvéla. Það er vafalaust rétt, en jafnvel þar, sem engum bókhaldsvélum er til að dreifa, tel ég, að þetta mál eigi fullan rétt á sér, og þykist raunar hafa sýnt fram á það.

Að svo mæltu legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr. Málið er flutt af nefnd.