22.02.1957
Neðri deild: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

87. mál, fasteignaskattur

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um breyt. á l. frá 1921, um fasteignaskatt. Með þeim l. var ákveðið að innheimta nokkurn skatt af fasteignum, og var skatturinn látinn renna í ríkissjóð. Skattur þessi var innheimtur af lögreglustjórum á manntalsþingum með öðrum þinggjöldum.

Þessi skipan hélzt óbreytt til ársins 1954, en þá var ákveðið með l., að fasteignaskatturinn skyldi eftirleiðis ekki ganga til ríkisins, heldur til bæjar- og hreppsfélaga. Eðlilegt hefði verið, að þá um leið hefði verið gerð sú breyting, að innheimtumenn ríkisins hefðu verið losaðir við að innheimta skattinn, en bæjar- og sveitarstjórnir hefðu tekið það að sér, úr því að ríkið afsalaði sér skattinum til bæjar- og sveitarfélaganna. En þetta var ekki gert, og síðan 1954 hafa lögreglustjórar innheimt skattinn eins og áður og skilað honum í bæjar- og sveitarsjóði.

Með því frv., sem hér er til umr., er lagt til, að nokkur breyting verði gerð á l. um fasteignaskattinn. Í fyrsta lagi er þar lagt til, að ákvæðin um álagningu skattsins verði gerð að heimildarákvæðum, þ.e.a.s. lagt á vald bæjar- og sveitarstjórna, hvort þær nota sér þann tekjuöflunarmöguleika, sem í lögunum felst.

Í öðru lagi er lagt til, að þær bæjar- og sveitarstjórnir, sem ákveða að leggja á fasteignaskatt samkv. l., skuli annast um innheimtu hans, og virðist það í alla staði eðlilegt. Þá eru lagafyrirmæli frá 1954 um afhendingu þessa tekjustofns til bæjar- og sveitarfélaganna tekin inn í frv. og l. frá 1954 felld úr gildi, eins og segir í 5. gr. frv.

Í grg. frv. er að því víkið, að ekki séu full not af þeim hraðvirku bókhaldsvélum, sem á nokkrum stöðum hafi verið teknar í notkun við útreikning manntalsbókargjalda, nema létt verði af innheimtumönnum ríkissjóðs álagningu og innköllun fasteignaskattsins. Þetta eru rök til stuðnings því, að breytingin verði gerð, og ekki síður hitt, að úr því að fasteignaskatturinn er orðinn tekjustofn fyrir bæjar- og sveitarsjóði, er eðlilegt, að álagning hans og innheimta sé á vegum bæjar- og sveitarstjórna.

Þess má geta, að til eru önnur l. um fasteiguaskatt til bæjar- og sveitarsjóða. Það eru l. nr. 67 frá 1945. Samkv. þeim l. er bæjar- og sveitarstjórnum heimilt að afla tekna með fasteignaskatti, og sá skattur, sem heimilt er að taka eftir þeim l., er miklu hærri en sá skattur, sem þetta frv. fjallar um. Kaupstaðirnir munu hafa notað þessa heimild, flestir eða allir, og ef til vill einhverjir kauptúnahreppar, en ég býst við, að sveitahreppar hafi yfirleitt ekki notað heimildina. Þó mun mega finna dæmi þess. Sá skattur er innheimtur af bæjar- og sveitarstjórnum. En á sama tíma og bæjar- og sveitarstjórnir innheimta þennan skatt af fasteignunum, þar sem hann er á lagður, eru innheimtumenn ríkisins að innheimta skatt af sömu fasteignunum, og sá skattur fer í sama sjóðinn, bæjar- eða sveitarsjóðinn. Liggur í augum uppi, að þetta eru mjög óhagkvæm vinnubrögð og full ástæða til að gera þar á breytingu, eins og lagt er til í frv., sem hér liggur fyrir.

Ég minnist þess, að við 1. umr. frv. hér í d. kom fram aths. við það frá hv. 2. þm. Skagf. (JS). Mér skildist á honum, að hann teldi ekki heppilegt að leggja þá kvöð á hreppsnefndaroddvita að innheimta fasteignaskattinn. Mun hann þar einkum hafa átt við oddvita i sveitahreppum. En ég vil benda honum og öðrum hv. þdm. á það, að verði frv. samþ., er það algerlega á valdi hreppsnefndanna, hvort þær innheimta skattinn eða ekki, og vegna þess, hve skatturinn eftir þessari lagaheimild er lítill, má telja líklegt, að hreppsnefndir mundu yfirleitt ekki telja ómaksins vert að nota lagaheimildina. Sýnist þá ekki heldur ástæða til að halda því fyrirkomulagi, sem nú er, að skylda sýslumenn til að innheimta þennan skatt, nokkrar krónur af hverri jörð í sveit, og skila gjaldinu í hreppssjóðina. Ef sveitarstjórnir vilja afla tekna í sína sjóði með fasteignaskatti, sem vel getur verið skynsamlegt og átt rétt á sér, má telja víst, að þær grípi heldur til heimildarinnar í l. frá 1945, sem ég hef minnzt á, vegna þess að þar er álagningarheimildin miklu rýmri en í lögunum frá 1921, sem hér er lagt til að breyta.

Eins og sést í nál. á þskj. 250, mæla 4 fjhn.-menn með því, að frv. verði samþ., en einn nefndarmanna, hv. 5. þm. Reykv., var ekki viðbúinn að taka afstöðu til málsins, þegar það var afgr. frá nefndinni.