22.02.1957
Neðri deild: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

87. mál, fasteignaskattur

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki endurtaka neitt af því, sem síðasti ræðumaður vék að, en aðeins lýsa yfir því, að ég er sammála þeim rökum, sem fram komu í hans ræðu. En ég vildi bæta því við, að það eru fleiri atriði, sem gera það að verkum, að mér sýnist engin ástæða til að fara að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir.

Eins og fram kom hjá hv. frsm. fjhn., eru tvenn lög um fasteignaskatt til, og ef ég man rétt, er í þriðja lagi til heimild um það fyrir sveitar- og bæjarstjórnir að hækka fasteignaskatt „prósentvís“ svo og svo mikið.

Nú stendur svo á, að það stendur yfir endurskoðun á öllu fasteignamati í landinu samkv. lögum. Var að vísu gert ráð fyrir, að það nýja fasteignamat kæmi til framkvæmda um s.l. nýár, en það var ákveðið af ríkisstj., að því skyldi frestað þangað til næsta ár, og liggja til þess nokkrar orsakir.

Nú er það svo í lögunum um fasteignamat, að það er gert ráð fyrir, að þau hafi ekki í för með sér hækkun á sköttum á fasteignir umfram það, sem prósentugjaldið ákveður.

Alls þessa vegna sýnist mér það mundi vera rétt að fresta þessu frv. algerlega, þangað til nýja fasteignamatið kemur í gildi, því að þá hlýtur um leið að verða að endurskoða þessi lög um fasteignaskatt og færa þau saman í eina heild. Ég vildi þess vegna mjög mæla með því, að þetta frv. yrði annaðhvort stöðvað eða fellt nú við þessa umr., því að ég sé ekki neina knýjandi ástæðu til að samþykkja það, auk þeirra raka, sem eru í alla staði heilbrigð, sem hér voru flutt, bæði við 1. umr. af hv. 2. þm. Skagf. og nú af síðasta ræðumanni, hv. 1. þm. Árn.