22.02.1957
Neðri deild: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

87. mál, fasteignaskattur

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég held satt að segja, að bæði þau sjónarmið, sem hér hafa komið fram, bæði hjá hv. þm. V-Húnv. (SkG) og öðrum, sem talað hafa um þetta mál, eigi mikið til síns máls.

Það er vitanlega alveg rétt hjá hv. þm. V-Húnv., að innheimta þessa gjalds skapar vissa erfiðleika hjá innheimtumönnum ríkisins vegna véla, sem upp hafa verið teknar, þó að sannast sagna fari að verða kannske nokkuð úr hófi vald vélanna, ef þarf æ ofan í æ að breyta lögum hér á Alþingi, vegna þess að vélunum þóknast ekki að haga sér eftir því, sem ákveðið hafi verið, og hafa þegar komið fyrir Alþingi fleiri dæmi um lagabreytingar af þeim sökum. En það er nú einu sinni svo, að þetta vélakerfi leyfir vist ekki, eftir því sem mér skilst á ríkisendurskoðuninni, að þetta gjald sé talið með, það ætlast alls ekki til, að það sé lagt á, þannig að þetta skapar vissan vanda, og það eru að þessu leyti til rök, sem hv. þm. V-Húnv. flytur hér.

Á hinn bóginn sýnist mér, að ef þarf að fara þessa leið, sem hér er lagt til, og ekki aðeins að gera þetta að heimildarákvæði fyrir sveitarstjórnir, heldur einnig að fela sveitarstjórnum innheimtu gjaldsins, þá fari að verða ákaflega lítið úr þeim hlunnindum, sem sveitarstjórnunum og sveitarfélögunum voru áætluð, þegar ríkissjóður afhenti þeim þennan tekjustofn, sem sannast sagna er nú ekki upp á marga fiska, því að mér sýnist, að út úr því verði hreinasti óskapnaður, ef sami aðili á að fara að leggja á fasteignagjöld eftir tveimur lögum, og það sé þó sýnu nær, að hægt sé að rökstyðja það að leggja á tvenns konar fasteignagjöld, þó að það sé út af fyrir sig ósköp fáránleg niðurstaða, ef það eru tveir aðilar, sem leggja þau á, eða sinn hvor aðilinn, sem leggur þau á og sér um innheimtu þeirra. Ég held, að það sé alveg rétt, sem hv. 1. þm. Árn. (ÁÞ) sagði, að það verði mjög erfitt um vík fyrir sveitarstjórnirnar að nota þessa heimild. Ég man það, þegar um það var rætt að afhenda sveitarstjórnunum þennan skattstofn, þá var lögð á það töluvert mikil áherzla, að ríkið héldi áfram innheimtu og álagningu gjaldsins, vegna þess að annars mundi verða litið á þetta í sveitarfélögunum eða af íbúum sveitarfélaganna sem nýja skattheimtu sveitarfélaganna. En ef þessi breyting er á komin, sem hér er gert ráð fyrir, þá sé ég ekki annað en að það sé kippt alveg fótunum undan þessari forsendu fyrir að hafa kerfið eins og það nú er, þannig að það sé alveg eins hægt fyrir sveitarstjórnirnar að nota þá heimild, sem þær hafa eftir lögunum um fasteignagjöld, því að það mun vera til heimild til þess að hækka þau allt upp í fimmföldun. Það er sem sagt þá horfin þessi forsenda fyrir því að hafa gjöldin tvískipt, til þess að íbúar sveitarfélaganna teldu ekki vera um aukaálagningu að ræða hjá sveitarstjórnunum, ef þetta á að verða í því formi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Mér sýnist því í fljótu bragði, að það sé ekki nema um tvennt að ræða: annaðhvort að hafa þetta í því formi, sem það enn er, um sinn, m.a. vegna þess, að það stendur nú fyrir endurskoðun á fasteignamatinu og e.t.v. nýjar ákvarðanir um þessi gjöld í sambandi við það, eða þá blátt áfram að fella þessi lög alveg úr gildi og láta þá innheimta fasteignagjöld eftir hinum lögunum, því að eftir að þetta er komið á sömu hönd, eins og hér er gert ráð fyrir, að innheimta fasteignagjöld eftir tvennum lögum, þá er þetta eiginlega orðin hálfgerð hringavitleysa, sem ég held að sé varla stætt á.