22.05.1957
Sameinað þing: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2402 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

Varamenn taka þingsæti

Bjarni Benediktsson:

Ég heyri það, að þetta mál verður — eins og forseti sagði — þeim mun dularfyllra, sem það er meira rætt. En það er þó eitt, sem hlýtur að vera hægt að fá ákveðna staðfestingu á, af því að skrifstofustjórinn stendur við hægri hlið hæstv. forseta, — það, hvort Gunnlaugur Þórðarson hafi eða einhver fyrir hans hönd skrifað Alþ. eða skrifstofu þess og óskað að sleppa við þingstörf. Ég játa að vísu, að hugsanlegt er, að forseti Sþ. hafi tekið með sér bréfið til útlanda, en ólíklegt er það.