27.05.1957
Sameinað þing: 60. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2404 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

Varamenn taka þingsæti

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég þakka forsetanum fyrir, að mál þetta er nú loksins nokkru betur upplýst en það var í fyrstu. Ég heyrði óglöggt það, sem hæstv. forseti las. Sú grg., sem hann las, — var það ekki rétt skilið, að hún var samin af skrifstofustjóra Alþ., eða var hún samin af hæstv. forseta? (Forseti: Það var fullt samkomulag okkar á milli um svarið.) En er það þá svar forseta eða skrifstofustjórans í (Forseti: Því er ekki svarað hér.) Því er ekki svarað, nei. Ég vek athygli á því, að því er ekki svarað, hvort hér er um að ræða úrskurð eða svar hæstv. forseta eða grg. skrifstofustjóra Alþingis, og það er nokkurt nýmæli, að það fæst ekki upplýst, hver hafi samið þau plögg, sem eru lesin.

Að öðru leyti get ég þess, að þetta er samt fróðleg grg. frá skrifstofustjóranum, eins og við var að búast af hans hendi. Ekki er nema allt gott um hana að segja, annað en það, að það er með mörgum orðum farið fram hjá því, sem eitt skiptir máli í þessu sambandi, að í viðeigandi ákvæðum kosningalaganna segir, að varamenn taka sæti í þeirri röð, sem þeir eru, án tillits til þess, hver þm. listans það er, sem forfallazt hefur eða látið hefur af störfum. Þannig er alveg ljóst, að varaþingmennirnir koma ekki inn í staðinn fyrir ákveðna þm., heldur í réttri röð, með þeim eina fyrirvara, sem leiðir af efni gr. að öðru leyti, að enginn þm. má eiga sæti skemur en 14 daga. Um þetta hef ég svo í raun og veru ekki meira að segja.

Ég vek athygli á því, að þannig er nú komið, að það er skrifstofustjóri Alþingis, sem í þessu tilfelli er mjög mætur maður, sem hefur verið fengið það hlutverk að kveða á um það, hvaða þm. séu rétt kjörnir. Það er ekki lengur þjóðin eða kosningalög, heldur er orðið skrifstofuverk að fjalla um þetta. Og það hefur tekið upp undir það hálfan mánuð, að því er ég hygg, að fá þessa yfirlýsingu frá dr. Gunnlaugi Þórðarsyni, og verð ég að segja, að ýmsir hafa gefizt upp fyrr og samþ. fyrr að skrifa undir ógeðþekka hluti heldur en doktorinn hefur gert. Hann hefur sýnt meira þolgæði og staðfestu, sem honum var trúandi til, heldur en flestir þeir, sem á pínubekkinn hafa verið settir.