14.02.1957
Efri deild: 55. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2015 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

93. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Frsm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Hugmyndin um kirkjuþing er orðin meira en 50 ára gömul. Hún kom opinberlega fram á Alþ. 1903, með því að till. til þál. er þá flutt um þetta mál. Efni þeirrar till. var skipun mþn. um kirkjumál. Sú till. var samþ., og nefndin var skipuð. Ekki mun hafa orðið samkomulag innan þessarar n. um afgreiðslu málsins, en meiri hluti þessarar mþn. samdi frv. um kirkjuþing og lagði það fyrir ráðh. 1907, en ráðh. lagði þetta frv. ekki fyrir Alþingi. Svo liggur málið niðri lengi, eða í 34 ár. Þó kann að vera, að eitthvað hafi verið skrifað um þetta mál á þessu tímabili. En 1941 flytur þáverandi hv. alþm., Magnús Jónsson prófessor, frv. um kirkjuþing. Það frv. var samþ. í Ed., en fellt í Nd. með jöfnum atkvæðum. Enn er málið tekið upp 1948. Núverandi biskup landsins, herra Ásmundur Guðmundsson, hafði þá forustu fyrir því, að málið næði fram að ganga. Var málið ýtarlega rætt í kirkjuráði, á synodus og meðal presta. Nefnd presta samdi frv. um kirkjuþing og sendi það til umsagnar öllum prestum landsins. Þetta frv. er svo sent kirkjumálaráðherra 1949 með ósk um, að það verði flutt á Alþingi, en ráðh. lagði það ekki fyrir þingið. Loks er svo frv. samhljóða því frv., er hér liggur fyrir, lagt fyrir síðasta þing sem stjórnarfrumvarp, en það varð ekki afgreitt. Nú er frv. flutt af hv. menntmn. þessarar hv. deildar samkv. beiðni hæstv. ríkisstjórnar.

Meginefni þessa frv. um kirkjuþing og kirkjuráð á þskj. 182 kemur fram í 14. og 16. gr. frv. Í 14. gr. segir:

„Kirkjuþing hefur ráðgjafaratkvæði og tillögurétt um öll þau mál, er kirkju, klerkastétt og söfnuði landsins varða og heyra undir verksvið löggjafarvaldsins eða sæta forsetaúrskurði. Það hefur og rétt til þess að gera samþykktir um innri málefni kirkjunnar, guðsþjónustu, helgisiði, fermingar, veitingu sakramenta og önnur slík. Þær samþykkti: eru þó eigi bindandi, fyrr en þær hafa hlotið samþykki kirkjuráðs, prestastefnu og biskups.“

En í 16. gr. segir meðal annars:

„Verkefni kirkjuráðs er að vinna að eflingu íslenzkrar kristni og styðja að trúar- og menningaráhrifum þjóðkirkjunnar. Það skal vera biskupi til aðstoðar og fulltingis um að koma fram þeim málum, er kirkjuþing hefur samþykkt. — Kirkjuráð annast undirbúning þeirra mála, er það kýs að leggja fyrir kirkjuþing hverju sinni. Hafa og kirkjuráðsmenn rétt til að sækja fundi kirkjuþings og taka þar til máls, en hafa eigi atkvæðisrétt, nema þeir séu jafnframt þingfulltrúar.“

Í þessum tveimur greinum felst aðalefni frumvarpsins, aðaltilgangurinn með stofnun kirkjuþings.

Þá segir í 3. mgr. 16. greinar, að kirkjuráð hafi ráðstöfunarvald yfir prestakallasjóði, en þetta er samhljóða því, sem segir í lögum nr. 98 frá 19. júní 1933.

Kirkjuráð er samkv. þessu frv. hin raunverulega framkvæmdastjórn kirkjuþinga. Nú á kirkjuþing ekki að koma saman nema annað hvort ár, og er verkefni kirkjuráðs því mjög þýðingarmikið. Skv. þessu frv. á það að vera kosið af kirkjuþingi, en skv. lögunum frá 1931 var það kosið af prestum og héraðsfundum. Biskup landsins er formaður kirkjuráðs skv. gildandi lögum og á einnig að vera það skv. þessu frv.

Skipun kirkjuþinga skv. þessu frv. er á þá leið, að 14 fulltrúa á að kjósa jöfnum höndum úr hópi presta og leikmanna, sjö fulltrúa frá hvorum aðila. Auk þessara 14 fulltrúa eigi þar sæti biskup, kirkjumálaráðherra og einn fulltrúi frá guðfræðideild háskólans, svo að kirkjuþingið verði skipað 17 fulltrúum. Kjósendur af prestanna hálfu eiga að vera starfandi prestar landsins, en kjósendur af hálfu leikmanna eiga að vera sóknarnefndir og safnaðarfulltrúar. Kjördæmin eiga að vera sjö, og eru þau talin upp í 2. gr. frv.

Eins og segir í nál. um frv., yrðu kjósendur meðal presta um 116, eins og nú standa sakir, en meðal leikmanna yrðu kjósendurnir tæplega 1200. Allir, sem kosningarrétt hafa, eru kjörgengir sem fulltrúar til kirkjuþings. Biskup landsins á að vera sjálfkjörinn forseti kirkjuráðs, eins og ég hef áður sagt, en hann á einnig að vera forseti kirkjuþings, og hann á að vera formaður kjörstjórnar.

Samkv. 13. gr. frv. eiga kirkjuþingsmenn að fá greidda dagpeninga og ferðakostnað úr ríkissjóði. Samkv. áætlun um þennan kostnað, sem ég hef fengið frá kirkjumálaráðuneytinu, er búizt við, að þetta geti numið um 100 þús. kr. fyrir hvert kirkjuþing, eða sem svarar um 50 þús. kr. á ári að meðaltali, þar sem kirkjuþing á ekki að sitja nema annað hvort ár. Þessi áætlun um kostnaðinn hygg ég að sé samin með hliðsjón af því, sem gerist um dagpeninga og kostnað fulltrúa á fiskiþingi og búnaðarþingi og e.t.v. fleiru.

Ég hef nefnt þarna helztu efnisatriði frv. Menntmn. sendi frv. til umsagnar stjórn Prestafélags Íslands, og hún mælir einróma með samþykkt þess. N. athugaði frv. á nokkrum fundum, og eins og segir í nál. á þskj. 233, leggur hún til, að frv. verði samþykkt með tveimur smávægilegum breytingum. Sú fyrri breyting er við 7. gr. og er um það, að senda skuli kjörskrá með kjörgögnum til leikmanna, þegar kosning fer fram til kirkjuþings. Þar sem kjördæmin eru mjög stór, eins og sjá má í 2. gr. frv., má telja víst, að hverjum einstökum kjósanda sé lítt kunnugt um, hverjir eru kjörgengir, því að það eru allir sóknarnefndarmenn og safnaðarfulltrúar í kjördæmunum. Það á því að vera til glöggvunar að senda slíka kjörskrá til þeirra, svo að þeir sjái, hverjir það eru, sem kjörgengir eru í því kjördæmi. Hins vegar leit n. svo á, að það væri engin þörf á að senda prestum kjörskrá, þar sem allir prestar í kjördæminu eru kjósendur og engir aðrir, en prestar innan hvers kjördæmis þekkjast mætavel.

Síðari brtt. er við 13. gr. Í frv. segir, að þingfararkaupsnefnd á kirkjuþingi — en kirkjuþing kýs þessa þingfararkaupsnefnd í byrjun þings — úrskurði reikninga kirkjuþingsmanna. N. leggur til, að hún endurskoði reikningana, en úrskurði þá ekki, hins vegar úrskurði kirkjumrh. reikningana, auk þess sem hann á að ákveða dagpeninga kirkjuþingsmanna, eins og segir í frv. Aðrar eru þær ekki, breytingarnar, sem nefndin gerði við þetta frv. Einn nm., hv. 5. landsk., tók ekki þátt í afgreiðslu málsins í n., en ástæðan til þess er sú, að hann hafði ekki tekið sæti hér á hæstv. Alþingi, þegar athugunin fór fram, nema hvað snertir síðasta fund n. um þetta mál. Þá var hann að vísu kominn hingað á þing, en var forfallaður á þeim fundi og gat ekki mætt, svo að hann hefur ekki haft aðstöðu til þess að taka afstöðu til málsins innan nefndarinnar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið að þessu sinni.