21.02.1957
Efri deild: 60. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2020 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

93. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Frsm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Hv. 1. landsk. þm. flytur brtt. við þetta frv. á þskj. 248, þess efnis, að 13. gr. frv. falli niður, en 13. gr. fjallar um það, að ríkissjóður greiði kostnað af kirkjuþingi. Hv. 1. þm. N-M. hefur aftur á móti andmælt, að mér skilst, frv. í heild. Ég get reyndar svarað þessu hvoru tveggja sameiginlega.

Mér skilst, að ástæður hv. 1. landsk. þm. fyrir flutningi þeirrar brtt., er hann flytur, séu aðallega tvær. Önnur er sú, að ýmsar aðrar stéttir eigi jafnmikinn siðferðilegan rétt á því að fá stuðning ríkisins við þinghald sitt, og því sama virtist hv. 1. þm. N-M. halda fram. Hin ástæðan, sem hann nefndi, var, að hann taldi ekki æskilegt, að þingið væri kostað af ríkinu, ef ætti að fá áhugasömustu mennina sem fulltrúa á þetta þing. Val þeirra kynni að takast betur til, ef þingið væri t.d. kostað af söfnuðunum. Hann aftur á móti virðist ekki hafa á móti frv. í heild, heldur þessu ákvæði, sem felst í 13. gr. Aftur á móti hefur hv. 1. þm. N-M. nefnt hér ýmsar stéttir, sem með jafnmiklum rétti ættu að fá ríkisstyrk eða ríkisstuðning við þinghald sitt, og nefndi jafnvel bilstjóra. Hv. 1. landsk. nefndi aðeins læknastéttina sem dæmi. Ég vil ekkert fullyrða um, nema það kunni að koma á daginn, að einhverjir aðilar kynnu að telja sig eiga rétt á því að fá nokkurn stuðning til þinghalds síns, eftir að þetta frv. væri orðið að lögum. En það er nú svo um fleiri mál, sem tekin eru fyrir á hæstv. Alþingi og samþykkt lög um, að einhverjir kunna að telja sér möguleika á því að sigla í kjölfarið. Hitt er annað mál, og það er náttúrlega rétt að athuga það sérstaklega, hvort þetta þinghald er alveg hliðstætt þeim þingum, sem hér hafa verið nefnd, hvort hér er um stéttarþing að ræða sams konar og þeir hv. þm. hafa nefnt, sem hér hafa talað.

Ég lít svo á, að kirkjuþing, eins og hér er lagt fyrir sé með allt öðrum hætti og alls ekki neitt stéttarþing. Þetta er ekkert einkaþing prestastéttarinnar. Ég skildi hv. 1. þm. N-M. á þann veg áðan, að hann teldi, að þetta ætti að koma í staðinn fyrir synodus, sem er stéttarþing prestanna. En það er alls ekki meiningin. Synodus heldur áfram eftir sem áður, og það er einskis stuðnings óskað við hann, þó að kirkjuþing yrði lögfest. Það er stéttarþing. Það er alveg hliðstætt læknaþingi, kennaraþingi og ýmsum þingum annarra stétta. En kirkjuþing það, sem ræðir um í þessu frv., er allt annars eðlis. Ég hef skilið það svo alla tíð, að meginverkefni kirkjunnar sé að boða ákveðna trú, það sé að flytja ákveðnar kenningar, sem byggðar eru á þessari trú. Mér hefur alltaf virzt, að þetta væri megininnihaldið í störfum prestanna í kirkjum landsins, í prédikunarstarfinu. Það er trúboð, það er útbreiðsla á þeim kenningum, sem íslenzka þjóðin hefur viðurkennt með þjóðkirkju sinni. Og þetta er ekkert einkamál prestastéttarinnar. Kirkjan er ekkí aðeins prestarnir. Kirkjan er bæði prestar og söfnuðir, allur almenningur, sem þátt tekur í guðsþjónustum og telur sig með í þjóðkirkju landsins.

Að þessu leyti finnst mér, að hér sé mjög ólíku saman að jafna, kirkjuþingi og venjulegum stéttarþingum. Ég efast ekki um, að við erum allir sammála um það, að við óskum sem allra glæsilegasts árangurs af starfi prestanna í landinu, af starfi kirkjunnar, þessu sem ég nefndi áðan. En ég segi það: ég hef ekki trú á, að árangur af starfi presta á Íslandi verði mikill, hafi orðið mikill eða geti orðið mikill, nema það sé náin samvinna milli safnaðanna og prestanna. Ég er ákaflega hræddur um, að ef prestarnir einangrast að meira eða minna leyti frá söfnuðunum, þá sé árangurinn af starfi þeirra lítill. Fyrsta skilyrðið til þess, að prestastéttin geti orðið til góðs í þjóðfélaginu, sem við ætlum og viljum allir, er, að þetta samstarf og þetta samræmi milli safnaða og presta sé sem bezt. Ég hef litið svo á þetta frv., að það væri einn þátturinn í því að skapa þetta samræmi og þessa samstöðu milli prestastéttarinnar og safnaðanna, kirkjuþingið eigi að sameina þetta sem mest og hafa áhrif á það, að í framtíðinni verði þetta sem samstæðust heild. Söfnuðurinn er presturinn með öllum þeim, sem í söfnuðinum eru. Það má deila um það, hvort þetta frv. nær þessu eða miðar að þessu, en þetta er hugsað þannig, og kirkjuþingið er samansett jöfnum böndum af fulltrúum prestanna og fulltrúum leikmanna, fulltrúum safnaða. Og þar sem kirkjan, okkar þjóðkirkja, hefur þessum skyldum að gegna, kirkja, sem er ríkisstofnun, kostuð af ríkinu, þá er það alls ekki fjarri lagi, að fjárhagslegur stuðningur sé veittur slíku kirkjuþingi, þar sem kirkjuþingið er hugsað sem liður í hinu kirkjulega starfi, en alls ekkert stéttarþing.

Hv. 1. landsk. þm. nefndi hér læknastéttina. Ég vil nota tækifærið og segja það sem mína skoðun, að læknastétt landsins er sú stétt, sem er sannarlega alls góðs makleg. Störf hennar eru alveg ómetanleg fyrir þjóðina, og sem dæmi má nefna það, þó að það komi ekki þessu máli beint við, hversu mikill árangur hefur náðst í að vinna bug á berklaveikinni hér á landi. Ég vil undirstrika það, hversu þýðingarmikil þessi stétt er og störf hennar. En þó að læknar haldi sín þing, eru það samt stéttarþing, hliðstæð synodus hjá prestunum, kennaraþingunum og öðrum slíkum þingum. Ef læknastéttin t.d. vill fara að halda þing, sem er ekki stéttarþing þeirra út af fyrir sig, heldur samansett af fulltrúum alls almennings annars vegar og læknanna hins vegar til að ræða almennt heilbrigðismál í landinu, þá er þetta orðið hliðstæða við það, sem við erum að ræða hér, kirkjuþingin. Alveg sama má segja um kennaraþing og fleiri þing. Þetta eru stéttarþing. Prestarnir hafa stéttarþing og hafa haft það og munu hafa það áfram, synodus, en kirkjuþing er því óviðkomandi.

Ég tel því, að það sé á misskilningi byggt að leggja þetta að jöfnu, kirkjuþing og þing stéttanna, sem haldin hafa verið.

Út af því sem hv. 1. þm. N-M. sagði, að sér væri ekki ljóst, hvort þetta ætti að ná til allra presta, hann nefndi hér nokkra söfnuði, ég hygg kaþólskan söfnuð og fríkirkjusöfnuð og fleiri, þá er alveg ljóst af l. gr. frv., að það eru aðeins prestar íslenzku þjóðkirkjunnar, sem þarna koma til greina, og stendur greinilega í 1. gr. frv., svo að ég held, að það geti ekki valdið neinum ágreiningi eða misskilningi, hverjir eru kjörgengir á þetta þing og hafa kosningarrétt.

Hann drap á það, hv. 1. þm. N-M., að hann væri í vafa um, að þetta yrði til að auka trúræknina í landinu, til að skapa betri menn f landinu eða gera trúmálin aðgengilegri. Ég vil nú ekkert fullyrða nm það, hver árangur kann að verða af þessu þinghaldi. En ég hef þá trú, að það sé kirkjunni til góðs, að fulltrúar leikmanna sjálfra séu með í ráðum um það, hvernig kirkjan starfar, að prestarnir séu þar ekki einir um. Ég tel það framför, og ég tel það bót í máli. Hvað mikill árangurinn getur af þessu orðið, um það mun ég engu spá, en mér finnst þetta þó stefna í rétta átt. Hann segir: Við viljum hugsa, leita og finna sjálfir í trúmálunum, eins og hann orðaði það. Þetta er rétt, en ekki er lakari aðstaða hvers einstaklings eða áhugamannanna að koma þessum áhugamálum sínum að, þegar þeir sjálfir hafa fulltrúa á þingi kirkjunnar, heldur en ef þeir hafa þá enga.

Annars vil ég segja það út af þessum kostnaði, — hann er nú ekki neitt gífurlegur, hann er áætlaður sem svarar 50 þús. að meðaltali á ári, — að þá er þetta ekki nema sem svarar 2/3 af árslaunum eins manns við ýmis skrifstofustörf bjá ríki eða ríkisfyrirtæki, og einhvern tíma hafa verið samþykkt önnur eins útgjöld á hæstv. Alþ., að ég hygg. En það er sama, þó að upphæðin sé lág, þá er hitt sjónarmiðið í sínu gildi jafnt fyrir það, sem aðrir hafa haldið fram, að ríkið eigi ekki að kosta þetta þing. En ég fæ ekki betur skilið en að samkvæmt þessu frv. sé það borgaraleg skylda þeirra, sem kosnir eru á kirkjuþing, að mæta þar, taka þátt í störfum þingsins. Í 1. gr. frv. segir, að kirkjuþing íslenzku þjóðkirkjunnar skuli halda í Reykjavík. Það er ekki hægt að halda þing, ef fulltrúarnir verða ekki við því að mæta. Ég hygg, að það mundi verða litið á það sem borgaralega skyldu. En er það þá venja eða viðeigandi að gera mönnum að skyldu að mæta á þingi i Reykjavík og taka á sig allverulegan kostnað við þá þingsetu og bera kostnaðinn sjálfir? Það hygg ég að sé óvenjulegt að minnsta kosti.

Nú hefur hv. 1. landsk. bent á það, að söfnuðirnir gætu kostað þetta þinghald. Það er rétt, þeir mundu sjálfsagt geta það, ég efast ekki um það. En hann hafði orð á því, að með því að ríkið borgaði þennan kostnað, mundu annarlegar ástæður hafa áhrif á, hvaða menn yrðu kosnir sem fulltrúar, en hann lagði réttilega áherzlu á, að þangað þyrftu að vera kosnir þeir, sem mestir eru áhugamenn í hverju héraði um kirkjuleg mál. En ég sé ekki, að áhugamenn komi frekar á slíkt þing, þótt það séu sóknarnefndir eða söfnuðir, sem borga reikningana, en ekki ríkissjóður. Ég held, að það hafi engin áhrif. Hins vegar verður maður að líta svo á, að það séu fyrst og fremst áhugamenn innan hvers safnaðar, sem eru kjörgengir á kirkjuþing, það eru aðeins sóknarnefndarmenn og safnaðarfulltrúar. Maður verður að vænta þess, að því aðeins hafi þeir verið kosnir í þessar trúnaðarstöður kirkjunnar heima í sínu héraði, að það séu áhugamenn og ekki hafi nein fjárhagsleg sjónarmið áhrif á þeirra kosningu, því að það munu ekki vera launuð störf að vera í sóknarnefnd eða safnaðarfulltrúi. (Gripið fram í.) Já — en þeir hafa, held ég, lítil eða bókstaflega engin útgjöld af þeirri borgaralegu skyldu sinni heima í héraðinu, og ekki er hægt að bera það saman við það að taka sér ferð á hendur til Reykjavíkur og dveljast hér í allt að hálfum mánuði. Ég hef haft nokkur kynni af sóknarnefnd í einu héraði, og ég veit ekki til, að sóknarnefndin sjálf hafi þurft að leggja á sig nokkur útgjöld vegna starfa sinna, ekki einn einasta eyri, að undanteknu því, að þeir þurfa kannske að koma stundum saman, stund úr degi einu sinni eða tvisvar á ári, og annað ekki, svo að ég ber það ekki saman.

Ég held, að með ákvæðum frv. séu teknir inn sem kosningabærir og kjörgengir þeir áhugamenn, sem fyrst og fremst ættu að vera til í hverju héraði, það eru sóknarnefndarmenn og safnaðarfulltrúar, svo að ég held, að ekki þurfi sérstaklega að óttast, að það yrðu áhugalausir menn um kirkjunnar mál, sem yrðu kosnir. Auðvitað verður aldrei slíkt fyrirbyggt með lögum, hverjir kunna að ná kosningu.

Ég verð því að segja það, að ég teldi mjög óheppilegt, ef 13. gr. væri felld úr frv., vegna þess að þá er á engan hátt séð fyrir því, hver á að bera kostnað af kirkjuþinginu. En það sýnist mér að geti ekki staðizt, svo framarlega sem það er réttur skilningur hjá mér, að það sé borgaraleg skylda að taka að sér kosningu á kirkjuþing. Ef á að fella niður þessa gr., álit ég, að það að óhjákvæmilegt, að önnur skipan komi í staðinn, sem sér fyrir greiðslu þess kostnaðar, sem af kirkjuþinginu leiðir.