21.02.1957
Efri deild: 60. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (2133)

93. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Frsm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 1. þm. N-M. núna síðast. Hann spurði mjög hvasst: Hvað á þetta kirkjuþing að gera? Á það að skipta sér af því, að prestar eru hættir að húsvitja? Á það að skipta sér af því, að til eru prestar, sem hafa innan við 10 messur á ári o.s.frv.? Ég geri frekar ráð fyrir því, að svona mál kunni að koma fyrir kirkjuþing. En ef hann veit ekki, hvað þetta kirkjuþing á að gera, vil ég benda honum á að lesa 14. og 16. gr. frv. Það stendur þar, hvað það á að gera, svo að það á ekki að vera neinn vafi um það.

Ég skal annars ekki fara út í hugleiðingar hans að öðru leyti um prestana, að þeir séu svona og svona, að þessi prestur segi þetta á þessum stað, eða yfirleitt um syndir eða heiðarleika presta né annarra. Það sýnist mér ástæðulaust. En ég sé ekki, að það sé nokkur ástæða til þess að standa gegn kirkjuþinginu, að menn eru eitthvað óánægðir út af prestum eða starfi kirkjunnar í landinu, því að frv. um kirkjuþing miðar að því, að hér komi til fulltrúar frá söfnuðunum sjálfum, fólkinu, sem er ekki prestar, m.a. mönnum eins og hv. 1. þm. N-M. Hann gæti ef til vill orðið þar fulltrúi og þar komið skoðunum sinum að, sem hann kemur ekki að, ef aðeins er haldinn synodus, stéttarráðstefna prestanna einna, sem hafa einmitt þessi mál með höndum núna, svo að það ætti ekki að vera til spillis frá sjónarmiði hv. 1. þm. N-M., að fulltrúar leikmanna komi til; einmitt út frá hans sjónarmiði sýnist mér það vera til bóta. Mér heyrist yfirleitt á honum, að hann hafi takmarkaða trú á prestunum og starfi þeirra. Hví tekur hann þá ekki opnum örmum því, að leikmennirnir sjálfir komi til skjalanna, komi sínum ráðum þarna fram, komi með sínar till. og ályktanir og hafi þar með áhrif á störf prestanna, störf kirkjunnar í landinu? Út af því getur komið einhver reformasjón, t.d. til að útrýma dogmunum sem hann talar um o.s.frv. Ég get ekki betur séð en að það sé einmitt stuðningur við þær skoðanir, sem hann hefur látið hér í ljós, að leikmenn fái aðgang að þingi um kirkjunnar mál með prestunum, alveg jafnréttháir. Annars eru prestarnir einir um ráðgjafarvald í þessum málum, og það ætti þó ekki frekar að vera að skapi hv. þm.

Út af ræðu hv. 1. landsk. þm. þarf ég ekkert sérstakt að segja. Ég hygg, að það fari ekkert á milli mála, að ríkisstj. hefur óskað eftir, að þetta frv. verði flutt, og hv. menntmn. hefur flutt frv. vegna tilmæla frá ríkisstj. Ég tek ekki að mér að svara fyrir hæstv. fjmrh. því, sem hann vék að honum, en ég vil undirstrika það, sem ég sagði áðan um læknastéttina, hversu mikilsverð hún er í þjóðfélaginu og hversu þýðingarmikil hennar þing eru. Og ég segi það aftur, að þó að samþykkt sé þetta frv., sem hefur í för með sér nokkur útgjöld fyrir ríkissjóð, en tiltölulega þó lítil, þá útilokar það ekki frá mínu sjónarmiði séð, að hliðstæður stuðningur komi við önnur mál, annað þinghald, sem hliðstætt er þessu, síður en svo.