21.05.1957
Efri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

173. mál, skipakaup

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af þeim ástæðum, að það hefur komið í ljós við athugun og það kom fram hér við umr. við frv. um heimild fyrir ríkisstj. til skipakaupa, að e.t.v. væri eðlilegt að hafa þau minni skip fleiri en gert var ráð fyrir í því frv., og vildu ýmsir þá þegar breyta þessari tölu úr sex í eitthvað hærri tölu.

Nú hefur atvinnutækjanefnd athugað þetta mál allrækilega og leggur til, eins og kemur fram í grg., að heimildinni til kaupa á þessum smærri skipum verði breytt þannig, að í staðinn fyrir 6 komi 12. Sú athugun, sem atvinnutækjanefnd hefur gert á þessu máli, leiðir í ljós, að þegar á að ráðstafa skipunum, þessum 6, þá eru miklu fleiri, sem vilja fá skipin, heldur en búizt var við í fyrstu, og var það raunar,eins og ég sagði áðan, komið í ljós að nokkru við umr. um þetta mál, en það þótti rétt að láta athuga það nánar.

Þetta er vitanlega af þeim ástæðum, að ýmsir hinir smærri staðir, án þess að ég telji þá upp hér, hafa ekki möguleika til þess, hvorki nægilega stór frystihús né aðstæður að öðru leyti til þess að taka á móti stórum togurum, og þess vegna hafa menn áhuga fyrir því víðar en búizt var við að fá einmitt þessi skip, enda lítur út fyrir, að það kunni að vera hægt að hraða nokkuð byggingu þeirra og þau geti komið í rekstur áður en langt um líður.

Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi og geri ekki ráð fyrir, að þess sé sérstaklega óskað, að gerð sé grein fyrir þeim stöðum, þar sem óskað er eftir þessum skipum. Læt ég þetta nægja sem framsögu fyrir þessu máli og óska eftir, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til sjútvn.