05.03.1957
Neðri deild: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

69. mál, sjúkrahúsalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Til skamms tíma var það í lögum, að byggingar sjúkrahúsa og læknisbústaða væru styrktar af ríkinu að 1/3 hluta. Svo var þessu breytt á þann veg, að sveitarfélög, sem ættu hlut að slíkum byggingum, fengju öllu meiri aðstoð við byggingu slíkra stofnana, og var þá ákveðið hlutfallið 2/5 af kostnaðinum, sem greiðast skyldu af ríkissjóði.

Þá var þessu næst gerð breyting á l., að aukinn skyldi styrkur til þeirra sjúkrahúsa, sem væru fjórðungssjúkrahús, og á tímabili voru uppi kröfur um það, að slík sjúkrahús væru kostuð að öllu leyti af ríkinu, bæði að því er snertir stofnkostnað og rekstrarkostnað.

Nú liggur hér fyrir á þskj. 94 frv. til l. um það, að bæjarfélög, sem enn þá hafa í lögum aðeins 2/5 af stofnkostnaðinum greiddan af ríkissjóði, fái, ef þau hafi færri en 1500 íbúa, hluta af stofnkostnaði sjúkrahúsa og læknisbústaða greidda úr ríkissjóði, og er tekið fram í grg. með því frv., að það sé til þess að leiðrétta það misrétti, sem sé nú á milli þeirra smærri bæjarfélaga og sveitarfélaga, sem byggi slík hús og njóti tveggja þriðju.

Það er áreiðanlega tilefni þessa frv, þeirra hv. þm. Skagf„ að sjúkrahús er verið að byggja á Sauðárkróki, sem verður sjúkrahús fyrir Skagafjarðarhérað, og þannig stendur á, að Sauðárkrókskaupstaður er með færri íbúa en 1500. Hins vegar er það hérað allt, sem að þessari sjúkrahúsbyggingu stendur, allfjölmennt hérað, eins og kunnugt er, og munu vera í því alls hátt á fjórða þúsund manns, eða — eftir því sem skýrslur herma — 3785 manns.

Þetta frv. fer þess vegna alveg í sömu átt og lagabreytingar á undanförnum árum hafa farið, að auka framlög ríkissjóðs í sambandi við byggingu slíkra stofnana, og aðeins stigið eitt skref í viðbót við þau, sem áður hafa verið stigin, og sannast að segja má svo búast við, að haldið verði áfram á þessari braut, þangað til svo er komið, að ríkið borgi að mestu leyti eða kannske öllu leyti kostnað af byggingu sjúkrahúsa, sjúkraskýla og læknisbústaða. Og ef til vill er það það, sem Alþ. stefnir að í þessum málum og er sjónarmið út af fyrir sig, að ríkið eigi alveg að kosta slíkar stofnanir, a.m.k. að því er snertir stofnkostnaðinn.

Ég tel þó rétt í sambandi við þetta mál að gera þingmönnum kunnugt, að þetta frv. var sent til umsagnar landlæknis og hann mun hafa sent umsögn sína heilbr.- og félmn., sem fjallar um málið, og ræðir þar um afskipti ríkisvaldsins af byggingu slíkra stofnana og hina vaxandi aðstoð við byggingu sjúkrahúsa almennt, og ég tel ekki nema rétt, að hv. þingmenn fái að heyra skoðun landlæknis á þessum málum, ekki aðeins í þessu einstaka tilfelli, heldur á þessum málum almennt, til þess að hægt sé að líta á málið ekki frá því sjónarmiði, sem venjulega er litið á þessi mál, þegar eitthvert einstakt atriði til breytinga á sjúkrahúsalöggjöfinni er til afgreiðslu á Alþ., heldur einmitt út frá því, að við lítum yfir þær breytingar, sem orðið hafa, og hvert stefnt sé með þeim. Og þá geta þm. auðvitað gert sér grein fyrir því, hvort þeir vilji stefna áfram lengra á þessari braut eða hvort eigi að stöðvast hér við, áður en þessi breyting sé gerð eða eftir að slík breyting sé gerð.

Ég held, að álit landlæknis hafi ekki verið kynnt þingheimi í sambandi við 2. umr., en því miður gat ég ekki verið hér staddur á þingfundi, þegar 2. umr. fór fram, og vil ég nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa umsögn landlæknis. Hún er á þessa leið:

„Heilbrigðis- og félagsmálanefnd neðri deildar Alþingis hefur með bréfi, dags. 21. des. f. á., beiðzt umsagnar minnar um frv. til laga, er þingmenn Skagfirðinga flytja um breytingu á sjúkrahúsalögum, nr. 93 frá 1953, þess efnis að auka byggingarstyrk ríkissjóðs til sjúkrahúsa þeirra kaupstaða, sem hafa færri íbúa en 1500, þannig að þau hljóti jafnháan styrk og sveitarfélögum öðrum en bæjarfélögum er ákveðinn í lögum, þ.e. 2/3 hluta byggingarkostnaðar.

Í áratugi var það regla, að ríkissjóður styrkti læknisbústaða-, sjúkraskýlis- og sjúkrahúsabyggingar sveitarfélaga að 1/3 hluta kostnaðar án tillits til þess, um hve miklar framkvæmdir væri að ræða og hvers konar sveitarfélög stæðu að framkvæmdunum. Bar ekki á öðru en þessi fjárhagsaðstoð svaraði fullvel tilgangi sínum. Læknisbústaðir og sjúkraskýli risu ört upp í hverju héraðinu á fætur öðru, og jafnvel á mestu fjárkrepputímum var komið upp eftir atvikum myndarlegum sjúkrahúsum á vegum sveitarfélaga hér og þar á landinu. Auðvitað urðu sveitarfélögin að gæta allrar fyrirhyggju, er þau réðust í þessi fyrirtæki, svo og fyllstu ráðdeildar við framkvæmdirnar, sem vel fór á, því að fyrirhyggju og ráðdeildar er vissulega einnig full þörf, þegar ráðizt er i þessar framkvæmdir, enda þótt vel séu séðar. Án fullrar gátar gætu sveitarfélög auðveldlega yfirbyggt sig að sjúkrahúsum, en það má kalla að gert sé, ef sjúkrahús eru reist til að standa að verulegu leyti auð, hvort heldur er fyrir það, að eðlilega aðsókn brestur, eða sveitarfélögin ráða ekki við reksturinn. Hæfir vel, að mikið og jafnvel mjög mikið átak sé fyrir sveitarfélag að koma sér upp sjúkrahúsi. Það mun þó takast, ef ekki brestur á áhuga ráðamanna, sem vakinn er af brýnni þörf. Rík sjúkrahúsþörf og nauðsyn mikils átaks til þess að fullnægja henni mundi og betur en allt annað tryggja eðlilega samstöðu sveitarfélaga um sjúkrahúshald og um leið stuðla að þeirri heilbrigðu þróun sjúkrahúsmálanna, að meiri háttar sjúkrabús sveitarfélaga yrðu ekki dreifðari en óhjákvæmilegt væri, en að sama skapi stærri og fullkomnari að öllum búnaði og fyrir það stórum betur hæf til að svara tilgangi sínum. Þegar slíkum sjúkrahúsum hefði verið komið upp, sæmdi aftur á móti vel, að rekstur þeirra væri styrktur því betur úr ríkissjóði sem minna hefði verið lagt til stofnkostnaðar.

Yfirleitt hefur ekki reynzt vandkvæðum bundið að láta forráðamönnum sveitarfélaga skiljast skynsemd þessarar spítalapólitíkur, og má ætla, að bygging læknisbústaða, sjúkraskýla og jafnvel sjúkrahúsa sveitarfélaga hefði mátt hafa góðan og að sumu leyti áreiðanlega heilbrigðari framgang, þótt látið hefði verið sitja við hina gömlu reglu að styrkja þær byggingarframkvæmdir úr ríkissjóði aðeins að 1/3 hluta kostnaðar. Hins vegar hefur Alþingi því miður látið sér fátt um alla skynsemd í þessu efni. Til þess hefur það verið of trútt þeirri allsherjarstefnu sinni að skipa öllu með styrkjum, ef ekki dugir, þá með meiri styrkjum, og jafnvel þótt dugi, þá skyldu menn samt hafa enn meiri styrki.

Síðastliðin tólf ár hefur Alþingi verið í kapphlaupi við sjálft sig um að auka og auka aftur hlutfallslegt framlag ríkissjóðs til byggingar læknisbústaða, sjúkraskýla og sjúkrahúsa sveitarfélaga og borið svo ört á jötuna, að ekkí hefur leift af, að þiggjendunum, forráðamönnum sveitarfélaganna, hafi enzt árvekni til þess að fylgjast með. Eru dæmi þess, að stútungslæknishéruð hafa hrist fram úr ermi sér að reisa myndarlega læknisbústaði og reyndar ekkert til sparað, án þess að ráðamenn hafi haft hugmynd um, að meiri ríkissjóðsstyrks væri að vænta til framkvæmdanna en samkv. hinni upphaflegu reglu. En auðvitað hefur ekki staðið á því, að þegið væri það, sem svo örlátlega hefur verið fram reitt. Er átið auðlært sveitarfélögum, þegar ríkissjóður skammtar, og umbun ofeldis er hin venjulega: síaukin heimtufrekja, unz allt er heimtað og helzt meira en allt.

Ekki er ég saklaus af því að hafa á sínum tíma (1944) léð því liðsyrði, að nokkuð yrði aukinn hlutfallslegur styrkur ríkissjóðs til byggingar læknisbústaða, sjúkraskýla og sjúkrahúsa sveitarfélaga. En það var fyrst og fremst til þess að koma í veg fyrir enn meiri ráðleysu, sem Alþingi var þá komið á fremsta hlunn með að steypa ríkinu út í, þ.e. að láta það taka á sig veg, vanda og gersamlega allan kostnað ekki aðeins af því að reisa, heldur einnig af að reka sjúkrahús Akureyrar, sem hlaut að verða upphaf að allsherjarríkisrekstri sjúkrahúsa fyrir sveitarfélögin í landinu. En mikil blekking hefur það verið, ef ég hef baldið, að með þessu næði Alþingi að fóta sig á málinu. Þrátt fyrir margt varnaðarorð mitt hafa styrkirnir aukizt í loftköstum síðan, svo að helzt er hægt að líkja við höfrungahlaup, ef einn gæti á þann hátt stokkið yfir sjálfan sig. Fyrst er almennur byggingarstyrkur ekki aðeins hækkaður úr 1/3 upp í 2/5 hluta, heldur er svokölluðum fjórðungssjúkrahúsum, sem enginn veit eiginlega hvað er, ætlaðir 3/5 hlutar byggingarkostnaðar (1945). Næst er byggingarstyrkur sveitarfélaga annarra en bæjarfélaga hækkaður upp í 2/3 hluta byggingarkostnaðar (1949). Þá er ákveðið, að illa skýrgreinanlegur hluti búnaðar meiri háttar sjúkrahúsa, 20 rúma og stærri, skuli teljast til byggingarkostnaðar og styrkjast að 2/5 hlutum kostnaðarverðs (1956). Loks er nú farið fram á, að ríkissjóðsstyrkur til bæjarfélaga með færri íbúa en 1500 skuli vera hlutfallslega jafnhár og þegar sveitarfélög önnur en bæjarfélög eigi í hlut, þ.e. nema 2/3 hlutum byggingarkostnaðar. Og enginn skyldi ætla, að hér verði látið staðar numið. Til þess er Alþingi allt of handbært og útfalt fé ríkissjóðs. Þó er nú þegar svo komið, að til er, að forráðamenn sveitarfélaga láti vel yfir því, um leið og þeir komast ekki hjá því að skopast að ráðsmennskunni, að næst því að reisa skóla séu sjúkrahúsbyggingar að verða ódýrasta atvinnubótaráðstöfun fyrir illa stæð sveitarfélög. Kann slíkt ekki góðri lukku að stýra fyrir þá æskilegu þróun sjúkrahúsmála í landinu, sem víkið var að hér að framan, og víst hefði mér staðið á sama, þó að nokkur bið hefði orðið á, að heilbrigðismál ríkisins helguðu sér með andbælislegu ráðleysisháttalagi sæti á forundrunarbekk við hlið menntamálanna.

Leitt er, að ekki skuli vera óþarft að vekja athygli á, að enginn skynsamlegur grundvöllur er undir því, að fámennu byggðarlagi beri að sjálfsögðu hlutfallslega meiri byggingarstyrkur en öðru fjölmennara, án alls tillits til þess, hve mikils háttar byggingarframkvæmdirnar séu. Engum nema þingmönnum, ekki einu sinni fyrrverandi þingmönnum, getur skilizt, að það hljóti að vera meira átak fyrir fámennt byggðarlag en fjölmennt að ráðast í framkvæmd, ef kostnaður er nokkurn veginn hlutfallslegur við íbúafjölda, að ekki sé talað um, ef kostnaðurinn af framkvæmd hins fjölmennara byggðarlags er hlutfallslega miklu meiri, sem einmitt oftar en hitt mun vilja brenna við.

Tökum t.d. Hafnarfjarðarkaupstað með 5948 íbúa með sinn nýreista meira en 100 rúma hjúkrunarspítala og Ólafsfjarðarkaupstað með 914 íbúa og læknisbústað ásamt 5 rúma sjúkraskýli, sem hefur ekki verið haft fyrir að reka árum saman. Hvaða réttlæti væri að styrkja Ólafsfjarðarkaupstað hlutfallslega miklu meira til sinna óverulegu framkvæmda en Hafnarfjarðarkaupstað, sem að vísu er 5–6 sinnum fólksfleiri, til tvítugfalt meiri framkvæmda, sem auk þess svara ólíkt betur tilgangi sínum? Engan veginn skal því neitað, að réttmætt gæti verið að greiða úr ríkissjóði hlutfallslega misháa styrki til sjúkrahúsbygginga sveitarfélaga, en sú mismunun yrði þá að hvíla á öðrum og traustari grunni en þeirri botnleysu, sem Alþingi hefur þóknazt að reisa þetta styrkjamusteri sitt á.

Ekki verður þetta mál fullskýrt, nema bent sé á það ákvæði sjúkrahúslaganna, sem ætlað er að ýta undir það, að sveitarfélög, sem hafa svipaða aðstöðu til að nota sér eitt og sama sjúkrahús og hljóta að gera það, standi þá saman um að reisa það og reka (6. gr.). Verður aldrei talið sanngjarnt, að eitt sveitarfélag beri kostnað af sjúkrahúsahaldi fyrir annað sveitarfélag en sjálft sig. Svo er fyrir að þakka, að forráðamönnum sveitarfélaga hefur mjög víða skilizt þetta og framkvæmdum verið hagað samkvæmt því. Sums staðar standa sýslufélög að sjúkrahúshaldi. Þannig hafa sjúkrahús á Patreksfirði, Þingeyri, Blönduósi og Sauðárkróki verið rekin af hlutaðeigandi sýslufélögum í áratugi. Víðast hvar standa öll hreppsfélög sama læknishéraðs saman um læknisbústað og sjúkraskýli héraðsins. Skemmst er að minnast félagsskapar Keflavíkurkaupstaðar og annarra sveitarfélaga Keflavíkurhéraðs um hið nýja sjúkrahús í Keflavík. Annars staðar er ekki hirt um þetta, þó að beint horfi við. Þannig tókst ekki félagsskapur Ísafjarðarkaupstaðar og Norður-Ísafjarðarsýslu um sjúkrahúsið á Ísafirði, þó að ætíð væru áhöld um aðsókn að sjúkrahúsinu úr kaupstað og sýslu, og olli þröngsýni og naglaskapur forráðamanna sýslunnar. Sömuleiðis er Akureyrarkaupstaður einn aðili að hinu mikla, nýja sjúkrahúsi þar, og er ekki mikil sanngirni í því, að hin fjölmennu og blómlegu sveitarfélög í nágrenni Akureyrar séu með öllu laus við áhættu og kostnað af sjúkrahúshaldi, en njóti aftur þjónustu sjúkrahússins engu síður til jafns við þá, sem hvort tveggja bera. En hér munu það reyndar hafa verið forráðamenn Akureyrarkaupstaðar, sem sjálfir kusu þessa skipan, jafnframt því sem þeir hafa einbeitt sér að því að þreifa því dýpra niður í fjárhirzlu ríkisins við góðan skilning og mikla lipurð Alþingis, nema upptökin sé þangað að rekja. Og er þetta til engrar fyrirmyndar.

Víkjum nú að Sauðárkrókskaupstað, sem sérstaklega mun vera hafður í huga af flm. frv. þessa, sem hér ræðir um, og auðvitað af því tilefni, að þar er nú verið að hefjast handa um að reisa nýtt sjúkrahús. Auðvitað verður það öllum Skagfirðingum til jafnra nota, og hví ættu þá 1068 íbúar kaupstaðarins að taka á sig umfram allar skyldur sjúkrahúsbyrðar fyrir 2717 aðra Skagfirðinga? Núverandi sjúkrahús á Sauðárkróki er einmitt rekið í félagi af Sauðárkrókskaupstað (að 2/5 hlutum) og Skagafjarðarsýslu (að 3/5 hlutum), og vil ég ekki gera ráð fyrir, að Skagfirðingum detti í hug að slíta þeim sjálfsagða félagsskap, þegar til hinna stærri átaka kemur að reisa og reka nýtt og á allan hátt fullkomnara sjúkrahús til jafnra, sameiginlegra nota fyrir báða aðila. Hér er því ekki um neitt umkomuleysisfámenni að ræða, er standa þurfi að sjúkrahúsi á Sauðárkróki, heldur eftir atvikum ánægjulegt fjölmenni, eða 3785 manns. Ef Sauðárkrókskaupstað, sem þessa ágætu aðstöðu hefur, yrði tryggður ríkissjóðsstyrkur til sjúkrahúss síns, sem næmi 2/3 hlutum byggingarkostnaðar, svo sem tilætlunin er með umræddu frv., hvað þá um Siglufjarðarkaupstað með 2744 íbúa, sem nú býr sig einnig undir að endurnýja sjúkrahús sitt og hlýtur að standa einn að þeim framkvæmdum? Honum er ætlað að una þeim ójöfnuði að láta skammta sér úr hinum sama sjóði aðeins 2/5 hluta byggingarkostnaðarins, og kemur nú allt í einu þvert á þá öfugu höfðatölureglu, sem annars er uppistaðan í þessu fáránlega styrkjakerfi. Nægir þessi samanburður fullvel til að sýna, hver hringavitleysa þetta allt saman er.

Ekki undanfelli ég að benda á, hve freklega það eykur á ójöfnuð þessara styrkveitinga, hve títt er breytt styrkjahlutföllunum. Hvers eiga eigendur nýreists sjúkrahúss að gjalda að sitja við lægri styrk en algerlega sambærilegir eigendur annars sjúkrahúss, sem ef til vill er reist á næsta ári, og svo eigendur þess sjúkrahúss, er hlutur þeirra verður aftur minni en sambærilegra eigenda næsta sjúkrahúss, sem litlu síðar er reist?

Hvernig er svo þetta furðulega styrkjakerfi til komið? Einfaldlega á þann hátt, að svo að kalla í hvert skipti, sem reisa á nýtt sjúkrahús, tekur þingmaður (eða þingmenn) hlutaðeigandi kjördæmis sig til, hugsar út eitthvert ráð til að kræla sem mest út úr ríkissjóði til síns sjúkrahúss, berst fyrir breytingu á úthlutunarreglum sjúkrahúsalaganna með þetta eina markmið fyrir augum, án alls tillits til þess, hvernig breytingin verkar í heild, og kemur sínu fram. Og er þetta því miður allt of rétt mynd af vinnubrögðum Alþ. yfirleitt að því er til fjárveitinga tekur.

Ljúft væri mér að ljá atfylgi mitt til gagngerðrar endurskoðunar á tilhögun styrkveitinga úr ríkissjóði til byggingar læknisbústaða, sjúkraskýla og sjúkrahúsa sveitarfélaga, ef nokkur von væri til þess, að Alþ. sansaðist á að freista þess að koma henni á heilbrigðan grundvöll. Jafnóljúft er mér hitt, að leggja lið mitt til að klastra við það styrkjakerfi, sem Alþ. hefur þóknazt að lögleiða af svo lítilli forsjá. Inn í það virðist ekkert vera hægt að fella af skynsamlegu viti, enda hefur hver breyting og viðauki gert það að æ meira vansmíði, og enn er stefnt að hinu sama með frv. því, sem hér er fjallað um. Fyrir mér er þetta orðinn gersamlega óleysanlegur hnútur, sem aðeins verður skorið á, en missýnist mér um það, er mætast, að þeir fáist við að leysa, sem reyrt hafa.

Það má vera hverjum manni augljóst, að með styrkjapólitík sinni stefnir Alþ. rakleitt að því að láta ríkissjóð taka á sig allan kostnað af að reisa læknisbústaði, sjúkraskýli og sjúkrahús fyrir öll sveitarfélög í landinu. Má þá fara nærri um, hverjar verða kröfur sveitarfélaganna í þessu efni, bæði um nýbyggingar, búnað og viðhald, og jafnframt um það, hve auðvelt eða hitt heldur Alþ. og pólitískum ráðherrum muni veitast að standast þær óbilgjörnu kröfur. Rökrétt afleiðing af þessu verður svo það, að ríkið taki að sér rekstur allra þessara stofnana, enda eru þegar uppi háværar kröfur í þá átt. Fyrir fáum víkum var einum rómi samþ. á Alþýðusambandsþingi að krefjast þessa ríkisrekstrar afdráttarlaust, og er ég illa svikinn, ef sú krafa á ekki góðum skilningi að mæta á Alþingi og það jafnt innan allra flokka. Hvernig á svo að haga þessum ríkisrekstri? Annaðhvort með því að fela forsjá hans ríkisembættismönnum (forstjórum með tilheyrandi ríkislaunuðu starfsliði) á 50–60 stöðum á landinu, eða öllu fremur með hinu, ef embættismannafjölgunin þætti viðurhlutamikil, að trúa sveitarfélögunum fyrir rekstrinum á ríkisins ábyrgð, þannig að þau sendi ríkissjóði reikning fyrir hallanum. Félli það óneitanlega betur inn í ríkjandi fjármálakerfi þess sósíalisma, sem nú á svo óskiptu fylgi að fagna hér á landi, að þar kemur enginn ágreiningur flokka til greina. Þetta er að vísu annar sósíalismi en sá, sem göfuga menn dreymdi um endur fyrir löngu og átti að vera fólginn í skynsamlegu skipulagi, er tryggði samfélaginu ásamt mörgu öðru eftirsóknarverðu ekki sízt aukna fyrirbyggju, ráðdeild og hagsýni. Það var sósíalismi, sem horfði í hádegisátt og upp á við, en hann er alltaf jafnumkomulítill og óvinsæll, enda koltnar niður, eftir því sem hinum vex fiskur um hrygg. Sósíalisminn, sem fylginu fagnar, bæði vinstra megin og hægra megin frá, — ekki síður hægra megin frá, — stefnir í þveröfuga átt, þráðbeint norður og niður og tekur samfélagið húrrandi með sér, enda hefur þegar helgað sér heiti samkvæmt því: sósíalismi andskotans.“

Hér endar landlæknir sína umsögn. Bréfið er til heilbr.- og félmn. Nd. Alþingis, og það þótti mér eiga erindi til þm. allra.

Nú skilja menn það auðvitað mætavel, að það er ekkert undarlegt, þótt þm. eins kjördæmis fari fram á, að það sé aukinn styrkur til sjúkrahúsbyggingar, sem verið er að hefja í þeirra héraði, þegar slíkt hefur gerzt í raun og veru við byggingu hvers sjúkrahúss, sem hafin hefur verið að undanförnu, að heita má. Hins vegar er það önnur hlið á þessu sama máli, að ríkið hefur að því er snertir sjúkrahúsbyggingar eins og skólabyggingar ekki haft bolmagn til að inna af hendi með fullum skilum greiðslu á þeim hluta, sem ríkissjóði hefur borið að greiða til þessara stofnana á undanförnum árum, og stendur í skuld við þær allar, kannske sem nemur fyllilega þeim aukna hluta, sem þær hafa verið að fá hér með lagabreytingum. Og það eitt er víst, að í þessu tilfeili gæti svo farið, að ríkissjóður að óbreyttum lögum gæti ekki gert skyldu sína að fullu við hið glæsilega sjúkrahús, sem Skagfirðingar eru byrjaðir að reisa, og mundi óefað, ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, standa bara í þeim mun meiri vanskilum og lengur við þá í vanskilum, ef þeirra lagalega hlutfall til styrks úr ríkissjóði yrði nú hækkað með löggjöf.

Ég fæ nú ekki séð annað en það sé dálítið vafasamt, sem sé í hendi nú alveg á næstunni, þótt lögunum væri breytt. En hitt lít ég þó miklu alvarlegar á, og það er það, að ég tel, að ríkinu beri að vara við, þegar það veit sig munu standa í vanskilum að óbreyttum lögum, hvað þá ef það veit sig mundu standa í meiri vanskilum, ef lögunum væri breytt. Og þá ber vitanlega að vara við, svo að sé ekki allt of mikið byggt á þeim vonum, sem skapast við hina breyttu löggjöf. Einnig er hitt, að ég tel ranglátt, að sífellt sé verið að breyta því hlutfalli, sem ákveðið er í lögum til styrktar við byggingu sjúkrahúsa, þannig að þeir, sem fyrir nokkrum árum hafa ráðizt í hlutfallslega jafndýra framkvæmd, hafi fengið þriðjungsstyrk, þegar þeir, sem byggja sjúkrahús nokkrum árum eftir, eiga að fá 2/3 greidda úr ríkissjóði og geta látið sér nægja að greiða 1/3 sjálfir. Auk þess má náttúrlega ekki haga málum á þann veg, meðan ríkið hefur ekki ákveðið að hafa algeran ríkisrekstur á þessum stofnunum, að sjúkrahús séu byggð svo smá og svo víða, að þau hvergi fullnægi þeim kröfum, sem nú eru gerðar til sjúkrahúsa, en þeim er trauðla hægt að fullnægja, að því er læknarnir halda fram, nema það séu nokkuð stór og þá mjög vei útbúin sjúkrahús að öllum tækjum, og þau verða auðvitað ekki á hverri þúfu. En afar hætt er við því, að þeir verði margir, aðilarnir, sem heimta að fá að byggja hjá sér sjúkrahús, fá lítið sjúkrahús, ef ríkið á að kosta þau að öllu leyti.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, taldi ég rétt að láta skoðun landlæknis koma fram, því að hún bregður ljósi yfir þróun þessara mála um langt árabil og setur þá nokkuð til hliðar það sjónarmið, sem ríkjandi er og hefur verið á Alþingi í hvert skipti, sem Alþingi hefur verið að leysa málið út frá sjónarmiði eins einstaks héraðs, þess héraðs, sem er að byggja sjúkrahús, og samhengið sést betur í þessu máli, þegar við erum búnir að kynna okkur efnið í umsögn landlæknis, og tel ég, að það væri rangt, ef þm. Skagf. litu svo á, að þetta bréf landlæknis stefni einungis gegn þeirra héraði. Þetta eru einungis varnaðarorð landlæknis um þetta mál í heild, og ég hygg, að röksemdir hans séu nokkuð heilbrigðs eðlis og að Alþingi sé engin vansæmd að því að taka þau orð hans, sem hér hafa verið hermd, til nokkurrar íhugunar.